Atvinnuleysi jókst lítillega í janúar - í fyrsta skipti í langan tíma
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í janúar 5,2% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og jókst um 0,3 prósentustig frá því í desember. Það voru 10.541 á atvinnuleysisskrá í lok janúar. Skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar 2021 þegar það var 11,6% og hefur því minnkað um 6,4 prósentustig á einu ári.
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni verða svipað í janúarmánuði og verði rúmlega 5%. Atvinnuleysi er nú álíka og það var í upphafi ársins 2020, áður en faraldurinn skall á.
Atvinnuleysi jókst alls staðar á milli desember og janúar. Atvinnuleysi jókst mest um 0,4 prósentustig á Norðurlandi eystra. Atvinnuleysi er eftir sem áður langmest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, en það hefur nú verið undir 10% á Suðurnesjum í sex mánuði, en hæst fór það í 24,5% í janúar 2021. Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum var þó áfram 10,1% í janúar og jókst um 0,1 prósentustig milli mánaða.
Atvinnuleysi bæði karla og kvenna jókst á milli desember og janúar. Aukningin var eilítið meiri meðal karla. Atvinnuleysi karla í janúar var 5,4% á meðan það var 5,0% meðal kvenna. Atvinnuleysi meðal kvenna var meira en karla fram eftir árinu 2021, en í nóvember tóku karlarnir fram úr og hefur munurinn aukist lítillega síðan þá.
Munurinn á atvinnuleysi karla og kvenna er mestur á Suðurlandi, en þar er hann 1,5 prósentustig konum í óhag. Á höfuðborgarsvæðinu er atvinnuleysi karla 0,7 prósentustigum meira en kvenna og ráða þær tölur auðvitað miklu um niðurstöðuna fyrir landið allt.
Miðað við stöðuna í lok mánaðar fjölgaði atvinnulausum í flestum atvinnugreinum milli desember og janúar. Fjölgunin var mest í gisti- og veitingaþjónustu. Í öðrum atvinnugreinum var fjölgun atvinnulausra almennt á bilinu 1% til 4%. Atvinnulausum fækkaði aftur á móti í farþegaflutningum með flugi og lítilsháttar í sjávarútvegi milli desember og janúar.
Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá var um 42% í janúar og hefur aukist úr um 40% frá sumri 2021. Flestir almennir atvinnuleitendur sem hafa erlendan ríkisborgararétt komu frá Póllandi, eða um 48% allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Næstir í röðinni koma Litháar, Lettar, Rúmenar og Spánverjar.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Atvinnuleysi jókst lítillega í janúar - í fyrsta skipti í langan tíma