Ársverðbólga eykst úr 7,7% í 8,0%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,35% á milli mánaða í september, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hækkar því annan mánuðinn í röð og fer úr 7,7% í 8,0% í september. Við höfðum spáð 0,22% hækkun á milli mánaða og að ársverðbólga yrði 7,8%.
Nánar um helstu undirliði
Mæling Hagstofunnar var að mestu mjög svipuð spá okkar, en flugfargjöld til útlanda lækkuðu þó mun minna en við gerðum ráð fyrir.
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,87% milli mánaða þar sem markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 0,29% en áhrif vaxta voru 0,58% til hækkunar. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði minna en við gerðum ráð fyrir en áhrif vaxta voru eins og við höfðum spáð. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis sem Hagstofan reiknar tekur tillit til landsins í heild, en fyrr í mánuðinum gaf HMS út vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og hækkaði hún um 0,7%. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkar verð á fjölbýli minna og verð á sérbýli lækkar meira en í mælingu HMS. Íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins hækkar um 0,2% milli mánaða í mælingu Hagstofunnar.
- Flugfargjöld til útlanda lækkuðu mun minna en við spáðum, eða um 10,6% í stað 18,7%, en flugfargjöld til útlanda lækka alla jafna milli mánaða í september. Það er því 11% dýrara að fljúga til útlanda nú í september en í sama mánuði í fyrra, en í júlí og ágúst var verðið svipað og í sama mánuði árið áður.
- Útsölulok höfðu minni áhrif en við gerðum ráð fyrir. Föt og skór hækkuðu um 3,7% en við höfðum spáð 4,8% hækkun.
- Matur og drykkjarvörur hækkuðu um 0,5% á milli mánaða en við höfðum spáð 0,2% hækkun á milli mánaða.
Framlag þjónustu til ársverðbólgu heldur áfram að aukast
Ársverðbólga jókst um 0,3 prósentustig milli mánaða og er nú 8%. Framlag þjónustu til ársverðbólgu heldur áfram að aukast og stendur nú á bak við stærstan hluta hennar, eða 2,4 prósentustig af 8% verðbólgu. Hlutur húsnæðis jókst úr 2,0 prósentustigum í 2,2 á milli mánaða í september, en framlag húsnæðis hefur dregist töluvert saman frá því fyrir ári síðan þegar hlutur þess var 3,7 prósentustig. Framlag bensíns hefur verið til lækkunar á ársverðbólgu fjóra mánuði í röð, en áhrifin dragast saman milli mánaða nú í september þar sem bensínverð hækkaði milli mánaða. Það er þó enn örlítið lægra en það var fyrir ári. Framlag innfluttra vara án bensíns lækkar úr 2,2 prósentustigum í 2,0 en hlutur innlendra vara stendur í stað í 1,5 prósentustigum.
Undirliggjandi verðbólga, þar sem búið er að fjarlægja sveiflukennda liði, hækkar á milli mánaða í flestum kjarnavísitölum nema kjarnavísitölu 4. Það er áhugavert þar sem hlutur þjónustu í kjarnavísitölu 4 vegur þyngst, en skýringin gæti verið að hlutur innfluttra vara án bensíns í verðbólgunni dregst saman milli mánaða. Áhrif hækkandi vaxta sjást einnig þegar kjarnavísitala 3 er skoðuð, sem undanskilur áhrif vaxtabreytinga á húsnæðislið í reiknaðri húsaleigu, en sú vísitala hefur lækkað meira en hinar kjarnavísitölunnar síðustu mánuði.
Búumst við 6,9% verðbólgu í lok árs
Í ljósi verðbólgumælingarinnar í morgun hækkum við lítillega verðbólguspá okkar fyrir næstu mánuði. Við gerum nú ráð fyrir 7,4% verðbólgu í október, 7,0% í nóvember og 6,9% í desember. Þetta er hækkun um 0,1 prósentustig frá síðustu spá sem við birtum rétt eftir að HMS birti vísitölu íbúðaverðs í síðustu viku. Munurinn milli spáa skýrist aðallega af að við erum núna að gera ráð fyrir að flugfargjöld til útlanda verði hærri út árið en við gerðum í fyrri spá.
Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands verður birt miðvikudaginn 4. október.