Ársverðbólga eykst úr 7,6% í 7,7%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,34% milli mánaða í ágúst, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hækkar því úr 7,6% í 7,7%. Við höfðum spáð 0,18% hækkun á milli mánaða og að ársverðbólga yrði 7,5%. Mæling Hagstofunnar er því aðeins hærri en við bjuggumst við en mestu munar um verðhækkun á liðum tengdum tómstundum og menningu.
Nánar um helstu undirliði
Mæling Hagstofunnar var að mörgu leyti mjög svipuð og við höfðum spáð. Það sem kom á óvart var hækkun í liðnum póstur og sími og í liðnum tómstundir og menning.
- Reiknuð húsaleiga lækkaði um 0,28% milli mánaða þar sem markaðsverð íbúðarhúsnæðis lækkaði um 0,84% en áhrif vaxta voru 0,56% til hækkunar, nánast nákvæmlega eins og við spáðum. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis sem Hagstofan reiknar tekur tillit til landsins í heild, en fyrr í mánuðinum gaf HMS út vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem lækkaði um 0,8%.
- Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hefur íbúðaverð á landsbyggðinni nú lækkað tvo mánuði í röð, eða um 2,83% í síðasta mánuði og 1,26% nú. Sama má segja um íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu, en bæði sérbýli og fjölbýli hafa lækkað tvo mánuði í röð.
- Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 8,4% milli mánaða, mjög nálægt okkar spá um 8,5% lækkun. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem flugfargjöld til útlanda fylgja sömu breytingu og fyrir ári síðan. Það kostaði því nokkurn veginn það sama að fljúga til útlanda í ágúst nú og í ágúst í fyrra.
- Sumarútsölur eru að ganga til baka og föt og skór hækkuðu um 5,8% frá því í júlí. Sumarútsölurnar ganga yfirleitt til baka bæði í ágúst og september. Við höfðum spáð 4,8% hækkun nú í ágúst og að hækkunin yrði svipuð í september. Við gerum því ráð fyrir að í september verði hækkunin örlítið minni en í fyrri spá. Afsláttur vegna sumarútsalna í ár var töluvert meiri en síðustu ár, þegar faraldurinn stóð yfir, og í júlí lækkaði verð á fötum og skóm um 8,7%.
- Útsölur á húsgögnum og heimilisbúnaðaði o.fl. kláruðust líka í ágúst og liðurinn hækkaði um 1,3% en við áttum von á 1,2% hækkun.
- Liðurinn póstur og sími hækkaði nokkuð óvænt um 0,8%, en við höfðum ekki gert ráð fyrir breytingu á þeim lið. Það sem hefur mest áhrif til hækkunar er verð á símtækjum og internetþjónustu.
- Liðurinn tómstundir og menning hækkaði einnig um 0,8%, en við gerðum ekki heldur ráð fyrir að sá liður myndi breytast, en misjafnt er milli ára hvernig hækkunin á þessum lið skiptist á milli ágúst og september. Undir tómstundir og menningu fellur undirliðurinn sjónvarp og útvarp, sem hafði mest áhrif til hækkunar á þessum lið.
Framlag þjónustu til ársverðbólgu hækkaði milli mánaða
Ársverðbólgan jókst um 0,1 prósentustig milli mánaða. Skýrist hækkunin að mestu leyti af hækkun á þjónustu og bensíni, en framlag þjónustu til 7,7% verðbólgu er 2,3 prósentustig og hækkar úr 2,1 prósentustigi. Framlag bensíns er enn til lækkunar, en bensínverð hækkaði þó milli mánaða í ágúst þó ársbreytingin sé enn neikvæð og voru áhrif bensíns 0,2 prósentustig til lækkunar en var 0,4 prósentustig til lækkunar í síðasta mánuði. Áhrif húsnæðis hélt áfram að minnka og lækkaði um 0,3 prósentustig.
Þetta er fyrsti mánuðurinn síðan í apríl 2021 þar sem húsnæði ber ekki ábyrgð á stærstum hluta verðbólgunnar. Nú bera bæði innfluttar vörur og þjónusta ábyrgð á stærri hluta verðbólgunnar en húsnæði.
Undirliggjandi verðbólga, þar sem búið er að fjarlægja sveiflukennda liði hækkar á milli mánaða eins og hún er mæld með kjarnavísitölu 4. Það kemur ekki mikið á óvart miðað við þessa mælingu, enda vegur þjónusta hlutfallslega mest í þeirri vísitölu. Ársbreyting á kjarnavísitölu 4 hækkaði úr 7,6% í 7,7%, eins og vísitala neysluverðs.
Búumst við 6,4% verðbólgu í nóvember
Í ljósi nýjustu gagna hækkum við lítillega verðbólguspá okkar fyrir næstu mánuði, eða um eitt prósentustig fyrir hvern mánuð. Við gerðum áður ráð fyrir 7,4% verðbólgu í september, 6,7% í október og 6,3% í nóvember. Ný spá hljóðar því upp á 7,5% í september, 6,8% í október og 6,4% í nóvember.
Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands verður birt miðvikudaginn 4. október. Hagstofan birtir eina verðbólgumælingu í viðbót fyrir þá dagsetningu.