Af hverju hef­ur krón­an veikst í vet­ur?

Flestir fóru inn í þennan vetur nokkuð bjartsýnir á styrkingu krónunnar. Krónan veiktist hins vegar nokkuð óvænt í byrjun nóvember og endaði árið í 152 krónum á evru, eftir að hafa verið í kringum 140 um sumarið. Síðan hafa komið fram nokkrar skammtímavísbendingar sem skýra betur hvað gerðist.
Seðlabanki Íslands
9. janúar 2023

Fyrri hluta árs 2022 styrktist krónan nokkuð. Þannig stóð evran í 148 krónum í byrjun árs en var í kringum 140 megnið af sumrinu og í byrjun hausts. Flestir fóru því inn í veturinn nokkuð bjartsýnir á krónuna. Við spáðum því til dæmis í október að evran myndi kosta 139 krónur í lok árs. Það kom því nokkuð á óvart að krónan skyldi veikjast í byrjun nóvember og fór evran í 150 krónur um miðjan nóvember. Hún styrktist þó örlítið seinni hluta nóvember, m.a. vegna þess að Seðlabankinn greip inn í, en sú styrking gekk til baka og við lok árs kostaði evran 152 krónur.

Margir samverkandi þættir

Nýlega hafa komið nokkrar hagtölur sem skýra betur hvað gerðist. Eins og svo oft vill verða er engin ein skýring heldur um nokkra samverkandi þætti að ræða. Einn helsti áhrifaþátturinn var aukinn halli á vöruviðskiptum við útlönd, þ.e. verðmæti þess sem við fluttum inn var mun meira en þess sem við fluttum út. Auk þess var nettó fjármagnsflæði út úr landinu vegna verðbréfafjárfestinga, kaup lífeyrissjóða á gjaldeyri voru nokkuð rífleg og staða framvirkra samninga með gjaldeyri dróst saman. Þetta vísaði allt á eina átt, þ.e. til veikingar á krónunni. Samtímis ákvað Seðlabankinn að grípa lítið inn á markaðinn til að styðja við krónuna.

Mikill halli á vöruskiptajöfnuði

Óhætt er að segja að tölur um vöruviðskipti síðustu mánuði ársins 2022 hafi verið mjög neikvæðar fyrir krónuna. Til að átta sig betur á gjaldeyrisflæðinu tengdu vöruviðskiptum við útlönd er best að skoða þau án skipa og flugvéla, enda fylgir þeim viðskiptum yfirleitt ekki gjaldeyrisflæði þegar þau eiga sér stað, sérstaklega þegar um er að ræða kaup á skipum og flugvélum. Án skipa og flugvéla var 52 ma.kr. halli á vöruviðskiptum í október og 43 ma.kr. halli í nóvember. Þetta var mun meiri halli en verið hafði á árinu fram að þessum mánuðum. Desember kom aðeins betur út, en í þeim mánuði var 13 ma.kr. halli. Munaði þar mestu að í desember var flutt út meira af áli og álafurðum og minna flutt inn af bensíni og fjárfestingarvörum en mánuðina á undan. Hallinn á vöruviðskiptum við útlönd (án skipa og flugvéla) var 108 ma. kr. á 4. ársfjórðungi 2022.

En hvað með þjónustujöfnuðinn?

Utanríkisviðskipti skiptast upp í vöruviðskipti og þjónustuviðskipti. Það er mun meiri töf á tölum um þjónustuviðskipti við útlönd en um vöruviðskipti. Hagstofan hefur nú þegar birt bráðabirgðatölur um vöruviðskipti í desember en nýjustu tölur um þjónustuviðskipti eru frá því í október.

Reynsla síðustu ára er sú að við höfum búið við viðvarandi halla á vöruviðskiptum við útlönd. Á uppgangstíma ferðaþjónustunnar, áður en heimsfaraldurinn skall á, dugði ríflegur afgangur af þjónustuviðskiptum til þess að vega upp hallann á vöruviðskiptum svo afgangur varð af viðskiptum við útlönd í heild. Mesti afgangurinn sem mælst hefur á þjónustuviðskiptum við útlönd á fjórða ársfjórðungi síðustu ára er árið 2019 þegar 62 ma.kr. afgangur mældist. Mikill afgangur á þjónustujöfnuði þann fjórðung skýrðist að hluta til af 30 ma.kr. tekjum vegna einkaleyfa í lyfjaiðnaði sem komu til hækkunar, en síðustu þrjú ár hafa þessi gjöld verið nokkuð há á 4. ársfjórðungi.

Ef við berum síðan saman það sem við vitum um þjónustujöfnuð á fjórða ársfjórðungi 2022 við 2019 var fjöldi erlendra ferðamanna svipaður í október og nóvember, en utanlandsferðir Íslendinga voru mun fleiri síðasta haust samanborið við haustið 2019. Þetta endurspeglast í halla af greiðslukortum sem var meiri í október og nóvember í fyrra (-11 ma.kr) en í sömu mánuðum 2019 (2 ma.kr.). Það eru því mjög litlar líkur á að gjaldeyrisflæði vegna þjónustuviðskipta hafi náð að vinna upp 108 ma.kr. halla á vöruviðskiptum (án skipa og flugvéla) á fjórða ársfjórðungi 2022. Þess vegna hafa gjaldeyrisviðskipti vegna vöru og þjónustu valdið miklum þrýstingi til lækkunar krónunnar. Að okkar mati er þetta lang stærsti áhrifavaldur þess að krónan veiktist á síðustu mánuðum 2022.

Nettó fjármagnsflæði út úr landinu vegna verðbréfafjárfestingar

Í júní í fyrra var nettó fjármagnsflæði inn í landið í verðbréfum vegna 42 ma.kr. erlendrar skuldabréfaútgáfu íslenskra viðskiptabanka. Síðan hefur verið viðvarandi halli á verðbréfafjárfestingu, þ.e. Íslendingar hafa keypt meira af erlendum verðbréfum en erlendir aðilar hafa keypt af íslenskum verðbréfum. Frá júlí fram til nóvember í fyrra (desembertalan er ekki komin) hefur hallinn verið að meðaltali um 16 ma.kr. á mánuði. Þetta eru mun minni upphæðir en af vöruviðskiptum, en hafa engu að síður áhrif til veikingar á krónunni.

Lífeyrissjóðirnir keyptu frekar mikið af gjaldeyri

Lífeyrissjóðirnir eru frekar stórir fjárfestar á erlendum verðbréfum, enda meðal stærstu fjárfesta hér á landi. Það getur stundum verið tímatöf milli þess sem lífeyrissjóðirnir kaupa gjaldeyri og að þeir fjárfesti fyrir hann í erlendum verðbréfum. Áhrifin á krónuna koma fram þegar þeir kaupa gjaldeyrinn, en ekki þegar þeir fjárfesta fyrir hann erlendis.

Alls voru hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna 91 ma.kr. á fyrstu 11 mánuðum ársins. Þetta er mun meira en árið áður þegar þau námu 50 mö.kr. yfir sama tímabil og árið 2020 þegar þau námu 56 mö. kr. Hrein kaup í október og nóvember voru 22 ma.kr. í samanburði við 2 ma.kr. 2021 og 11 ma.kr. 2020. Ólíkt árunum 2021 0g 2020  seldu lífeyrissjóðirnir mjög lítið af  gjaldeyri í október og nóvember í fyrra, en árið 2021 seldu þeir gjaldeyri fyrir 10 ma.kr. og 2020 fyrir 16 ma.kr. þessa tvo mánuði.

Færri viðskiptavinir bankanna búast við styrkingu

Hrein staða framvirkra samninga, þar sem viðskiptavinir bankanna hafa selt viðskiptabankanum sínum gjaldeyri framvirkt, dróst saman um 50 ma.kr. frá lokum ágúst til loka nóvember. Þetta þýðir að hluti viðskiptavina bankanna hefur látið slíka samninga renna út eða lokað þeim. Almennt selur viðskiptavinur gjaldeyri framvirkt til þess að verja sig fyrir hugsanlegri styrkingu krónunnar eða er tilbúinn að veðja á að hún muni styrkjast. Þeir sem stunda það að gera slíka samninga eru m.a. útflytjendur sem vilja tryggja sig fyrir styrkingu krónunnar. Lægri staða framvirkra samninga bendir til þess að viðskiptavinir telji síður líkur á að krónan styrkist á næstu mánuðum en þeir gerðu áður.

Upphæð samninga um framvirk kaup viðskiptavina á gjaldeyri breyttist samt lítið og er sem fyrr mjög lág. Þetta bendir til þess að þrátt fyrir allt hafi fáir viðskiptavinir bankanna það miklar áhyggjur af hugsanlegri veikingu krónunnar að þeir telji sig þurfa að tryggja sig gegn henni. Fáir spákaupmenn eru tilbúnir að veðja á að krónan muni veikjast.

Áhrif þess á gjaldeyrismarkað að samningur um að selja gjaldeyri rennur út eða honum er lokað fara eftir því hvort viðskiptavinurinn á gjaldeyrinn sem hann seldi framvirkt eða ekki. Ef hann á gjaldeyrinn hefur það engin áhrif, en ef hann á ekki gjaldeyrinn (t.d. ef þetta var hrein spákaupmennska) þarf hann að fara á markaðinn og kaupa gjaldeyrinn til að gera upp samninginn, með tilheyrandi þrýstingi á krónuna. Viðskiptabankinn seldi gjaldeyrinn þegar samningurinn var gerður, þannig að hann þarf ekki að kaupa eða selja gjaldeyri á markaðnum þegar samningnum er lokað eða hann rennur út.

Seðlabankinn greip lítið inn

Á síðustu þremur mánuðum 2022 veiktist krónan um 7% á móti evrunni, þ.e. evran fór úr því að kosta 141 krónu í að kosta 152 krónur. Að þessu sinni ákvað Seðlabankinn að grípa lítið inn í. Hann greip inn í þrisvar í nóvember og seldi evrur fyrir alls 4,8 ma.kr. Eins og við skiljum stefnu Seðlabankans með inngripum, er hún að grípa inn í til þess að koma í veg fyrir óeðlilega miklar hreyfingar á gjaldeyrismarkaði innan dags en að hafa lítil áhrif á langtíma gengisþróun krónunnar. Þannig grípur hann inn í ef það er að myndast hringamyndun á markaðinum og hann tekur stundum stórar fjármagnshreyfingar fram hjá markaðinum. Það má segja að ákvarðanir bankans á síðustu mánuðum 2022 hafi verið í samræmi við þá stefnu.

Hvað gerist í ár?

Við höfum ekki birt nýja gengisspá frá því við spáðum því í október að gengið myndi styrkjast í vetur. Gengi íslensku krónunnar er líklega sú hagstærð sem erfiðast er að spá rétt um og ekki óalgengt að opinberar gengisspár úreldist hratt líkt og nú gerist. Í fljótu bragði er lítið sem ætti að valda miklum breytingum á þróun krónunnar næstu misseri. Ferðagleði Íslendinga gæti eitthvað dregist saman, en hvort það hafi næg áhrif á krónuna er óljóst. Af þeim áhrifaþáttum sem hér hafa verið tíundaðir eru fáir líklegir til þess að breytast hratt á komandi mánuðum. Hlutverk fljótandi gjaldmiðils er að rétta af utanríkisviðskipti í ójafnvægi með því að gera erlendar vörur, þjónustu og eignir dýrari og innlendar vörur hlutfallslega ódýrari, líkt og við sjáum nú gerast. Hvort nú sé komið á nýtt jafnvægi þar sem evran kostar 150 krónur í stað 140, eins og síðasta sumar, verður síðan að koma í ljós.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Flutningaskip
10. mars 2025
Vikubyrjun 10. mars 2025
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra og sömuleiðis á vöruviðskiptum í febrúar samkvæmt gögnum sem bárust í síðustu viku. Seðlabanki Evrópu lækkaði vexti í síðustu viku, eins og við var búist. Í vikunni fara fram verðmælingar fyrir marsmælingu vísitölu neysluverðs, Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll.
Sendibifreið og gámar
7. mars 2025
Verri niðurstaða í viðskiptum við útlönd
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra, en stór hluti hans var vegna færslna sem höfðu ekki í för með sér gjaldeyrisflæði og styrktist krónan því þrátt fyrir þetta og erlend staða þjóðarbúsins batnaði.
3. mars 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 3. mars 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Peningaseðlar
3. mars 2025
Vikubyrjun 3. mars 2025
Verðbólga lækkaði úr 4,6% í 4,2% í febrúar, en við teljum að heldur muni draga úr lækkunartakti verðbólgu næstu mánuði. Hagvöxtur mældist 2,3% á fjórða ársfjórðungi 2024 og 0,6% fyrir árið í heild. Umsvif í hagkerfinu voru umfram spár, en Hagstofan færði upp hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins. Í vikunni fram undan eru nokkur uppgjör, Seðlabankinn birtir greiðslujöfnuð við útlönd og það er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Evrópu.
28. feb. 2025
Hagvöxtur var 0,6% í fyrra
Hagvöxtur var 0,6% árið 2024. Krafturinn í hagkerfinu var lítillega umfram flestar spár sem gerðu heldur ráð fyrir lítils háttar samdrætti. Hagvöxturinn var ekki síst drifinn áfram af aukinni fjárfestingu, bæði í atvinnuvegum og íbúðauppbyggingu.
Epli
27. feb. 2025
Verðbólga hjaðnar í 4,2%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,91% á milli mánaða í febrúar, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 4,6% í 4,2%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði, þó það hægi á lækkunartaktinum, og mælist 3,8% í maí.
Fiskveiðinet
24. feb. 2025
Vikubyrjun 24. febrúar 2025
Í vikunni birtir Hagstofan febrúarmælingu vísitölu neysluverðs og þjóðhagsreikninga fyrir lokafjórðung síðasta árs. Í síðustu viku uppfærði Hafrannsóknarstofnun ráðleggingar um loðnuafla en samkvæmt því munu íslensk skip fá um 4,6 þúsund tonn. Í síðustu viku bárust einnig gögn um greiðslukortaveltu landsmanna í janúar sem var 6,5% meiri að raunvirði en árið áður. Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,5% á milli mánaða í janúar, en svo mikið hefur hún ekki hækkað síðan í febrúar 2024.
Fjölbýlishús
21. feb. 2025
Íbúðaverð tók stökk í janúar
Íbúðaverð hækkaði mun meira í janúar en síðustu mánuði. Íbúðaverð hefur verið nokkuð sveiflukennt og óútreiknanlegt undanfarið en stökkið í janúar skýrist af verðhækkun á sérbýli. Íbúðum á sölu hefur fjölgað hratt síðustu mánuði og birgðatími lengst. Grindavíkuráhrifin hafa fjarað út að langmestu leyti og hækkanir á verðtryggðum vöxtum kældu markaðinn undir lok síðasta árs.
Ferðamenn á jökli
19. feb. 2025
Færri ferðamenn en meiri kortavelta 
Um 122 þúsund ferðamenn komu til landsins í janúar, samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Ferðamenn voru 5,8% færri en á sama tíma í fyrra sem er á skjön við þróun síðustu mánaða, en allt frá því í júlí sl. hefur ferðamönnum fjölgað á milli ára. Þótt ferðamönnum hafi fækkað í janúar hélt kortavelta þeirra áfram að aukast. 
Greiðsla
18. feb. 2025
Neysla enn á uppleið þótt atvinnuleysi aukist
Enn eru merki um að landsmenn hafi svigrúm til neyslu þrátt fyrir langvarandi hávaxtastig. Kortavelta eykst með hverjum mánuðinum, utanlandsferðir í janúar hafa aldrei verið jafnmargar og í ár og samt virðast yfirdráttarlán ekki hafa færst í aukana. Á sama tíma hefur slaknað þó nokkuð á spennu á vinnumarkaði, eftirspurn eftir vinnuafli hefur dvínað og atvinnuleysi tók stökk í janúar þegar það fór yfir 4%.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur