5. kafli: Mjög hæg­ur vöxt­ur fjár­muna­mynd­un­ar á næstu árum

Fjárfesting hefur aukist töluvert á síðustu árum samfara uppgangi í efnahagslífinu. Fjárfesting er sveiflukenndasti liðurinn í þjóðhagsreikningum og vex jafnan hlutfallslega hratt í uppsveiflu og dregst að sama skapi hlutfallslega mikið saman í niðursveiflum.
29. október 2018

Á síðasta ári jókst heildarfjármunamyndun í hagkerfinu um 9,5% og er það nokkuð minni vöxtur en síðustu þrjú ár þar á undan, þegar vöxturinn lá á bilinu 16-22%. Skýrist minni vöxtur fjármunamyndunar að mestu leyti af hægari vexti atvinnuvegafjárfestingar. Hann nam rúmlega 4,8% borið saman við á bilinu 17-31% vöxt síðustu þrjú ár þar á undan. Á fyrri hluta þessa árs nam vöxtur atvinnuvegafjárfestingar 5,6% sem er í ágætu samræmi við vöxt síðasta árs. Þetta gefur vísbendingu um að mesti krafturinn í aukningu fjárfestingar í núverandi uppsveiflu sé að baki.

Fjármunamyndun borin af íbúðafjárfestingu og fjárfestingu hins opinbera

Drifkraftar fjármunamyndunar í hagkerfinu á næstu árum verður íbúðafjárfesting og fjárfesting hins opinbera en framlag atvinnuvegafjárfestingar verður að okkar mati neikvætt næstu þrjú ár. Við gerum ráð fyrir að heildarfjármunamyndun í hagkerfinu verði 6,9% á þessu ári og nær einungis borin af vexti opinberrar fjárfestingar og íbúðafjárfestingar. Næstu tvö árin verður fjármunamyndun á bilinu 0,8-2,3% en vöxturinn mun markast af neikvæðu framlagi atvinnuvegafjárfestingar. Á lokaári spárinnar gerum við ráð fyrir að fjármunamyndun dragist saman um 1,9% en þá mun neikvætt framlag atvinnuvegafjárfestingar vega þyngra en jákvætt framlag bæði íbúðafjárfestingar og fjárfestingar hins opinbera.

 

Fjárfestingarstigið í atvinnulífinu líklegast náð hámarki

Vöxtur fjárfestingar á síðustu árum hefur verið langt umfram hagvöxt og því hefur hlutfall atvinnuvegafjárfestingar af landsframleiðslu farið vaxandi. Á síðasta ári var hlutfall atvinnuvegafjárfestingar án stóriðju um 12,2% af landsframleiðslu og hefur hlutfallið ekki verið hærra á þessari öld ef frá er talið árið 2006, þegar það nam 13,1%. Til samanburðar var þetta hlutfall 4,3% árið 2009 en hefur aukist á hverju ári síðan.

Draga mun úr almennri atvinnuvegafjárfestingu

Við teljum að atvinnuvegafjárfesting muni ná tímabundnum toppi á þessu ári en að á næstu árum taki við lítils háttar samdráttur fjárfestingar. Fjárfesting verður þó áfram tiltölulega há í hlutfalli við landsframleiðslu. Við spáum 0,1% aukningu atvinnuvegafjárfestingar á þessu ári. Á næstu árum fer síðan að draga lítils háttar út fjárfestingu samkvæmt spánni. Samdrátturinn verður 2,8% á næsta ári og 2,4% árið 2020 og skýrist bæði árin af samdrætti í almennri atvinnuvegafjárfestingu, þ.e. fjárfestingu án skipa, flugvéla og stóriðju. Á síðasta ári spátímabilsins gerum við ráð fyrir 6,7% samdrætti.

Til viðbótar við neikvæð áhrif af minni almennri atvinnuvegafjárfestingu munu einnig koma til áhrif bæði af minni stóriðjufjárfestingu og minni fjárfestingu í skipum og flugvélum. Þá verður mesti kúfurinn af fjárfestingu í skipum og flugvélum að baki. Árið 2021 gerum við ráð fyrir að almenn atvinnuvegafjárfesting verði 8,7% af landsframleiðslu en sögulegt meðalhlutfall frá árinu 1970 er 8,3%.

 

Töluverð óvissa um þróun atvinnuvegafjárfestingar

Fjárfesting atvinnuveganna helst jafnan ágætlega í hendur við væntingar stjórnenda um framtíðina. Þeim mun bjartsýnni sem þeir eru á framtíðina þeim mun meiri er fjárfestingin að öðru jöfnu. Töluverð óvissa ríkir um þróun almennrar atvinnuvegafjárfestingar á næstu misserum og helgast það m.a. af verulega misvísandi vísbendingum. Þannig er mjög mikill munur á annars vegar mati stjórnenda á núverandi ástandi í efnahagslífinu og hins vegar væntingum þeirra.

Væntingar stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins til næstu 6 mánaða hafa hríðfallið á síðustu misserum. Frá því að Gallup hóf mælingar á þessari vísitölu árið 2002 hafa þær aldrei verið jafn lágar. Gildið á vísitölunni nú í september var 15,2 og 28,9 stig í júní. Til samanburðar var fyrra lágmark 35,7 stig í maí 2009. Þá ríkti mjög djúp kreppa í hagkerfinu og gríðarleg óvissa á flestum sviðum atvinnulífsins. Ástæður þessarar miklu svartsýni liggja ekki í augum uppi en líklegast er þetta sambland ýmissa þátta, þ.m.t. áhyggjur af næstu kjarasamningnum. Viðhorf stjórnenda til núverandi efnahagsástands hefur einnig dalað og mældist 157,8 stig í september en fara þarf aftur til júní 2015 til að finna lægra gildi. Mjög líklegt er að þessar slöku væntingar muni hafa neikvæð áhrif á fjárfestingarákvarðanir í atvinnulífinu á næstu misserum.

Svigrúm til aukinna fjárfestinga áfram gott

Þrátt fyrir að þróun væntinga og mat á núverandi stöðu bendi til þess að draga muni úr fjárfestingu hefur svigrúm og geta atvinnulífsins til aukinnar fjárfestinga sjaldan verið jafn góð og nú. Þannig hefur eiginfjárstaða fyrirtækja aldrei verið hagstæðari og skuldsetning í hlutfalli við undirliggjandi rekstur er með allra lægsta móti.

 

Hvaða áhrif hafa gengisbreytingar á fjárfestingu í hagkerfinu?

Styrkur krónunnar og framtíðarþróun hennar eru lykilþættir þegar kemur að ákvörðun um fjárfestingar hjá mörgum fyrirtækjum. Sögulega séð hefur almenn atvinnuvegafjárfesting fylgt gengisþróun krónunnar nokkuð vel. Þannig hafa jafnan farið saman aukin fjárfesting og styrking krónunnar. Bæði með þeim hætti að aukin fjárfesting komi á sama tíma og styrking krónunnar en einnig að aukin fjárfesting fylgi styrkingu krónunnar eftir með u.þ.b. eins árs töf. Ástæðuna fyrir þessu sambandi má meðal annars rekja til þess að mjög stór hluti atvinnuvegafjárfestingar er keyptur erlendis frá. Gengisstyrking krónu lækkar því fjárfestingarkostnað í krónum talið og því hafa margir nýtt sér þau tækifæri sem falist hafa í sterkari krónu til að auka fjárfestingu.

Allt bendir til þess að krónan verði veikari á þessu ári en í fyrra og mun það hafa sín áhrif til samdráttar atvinnuvegafjárfestingar á næsta ári. Á þessu og næstu árum gerum við ráð fyrir lítils háttar veikingu krónunnar og mun það hafa sín áhrif til minnkandi atvinnuvegafjárfestingar.

Flugvélarfjárfestingar verða minni en áður spáð

Bæði Icelandair og WOW air hafa fjárfest umtalsvert í flugvélum á síðustu árum en í þessum efnum hefur þó borið meira á WOW air. Samkvæmt samningum Icelandair við Boeing stóð til að Icelandair myndi fjárfesta fyrir nokkra tugi milljarða króna í nýjum þotum á næstu árum. Töluverð óvissa ríkir nú um að hve miklu leyti þessar vélar verða keyptar eða leigðar. Einungis vélar sem keyptar eru eða teknar á kaupleigu færast sem fjárfesting í þjóðhagsreikninga.

Fjárfestingaráform Icelandair hafa tekið breytingum á síðustu misserum þannig að svo virðist sem áform um að kaupa vélar hafi sveigt meira í áttina að því að leigja þær. Þannig ákvað Icelandair árið 2016 að fjórar Boeing vélar sem félagið hafði áður ráðgert að kaupa á árunum 2018 og 2019 yrðu þess í stað leigðar. Í samræmi við þá ákvörðun höfum við fært fjárfestingu Icelandair í þessum vélum niður á næstu árum.

Miklu fjárfestingartímabili í fiskiskipum ekki lokið

Á síðasta ári kom til einhver mesta fiskiskipafjárfesting hér á landi í sögunni en alls voru keypt skip fyrir um 22,3 milljarða króna. Upphaflega var gert ráð fyrir að hluti þeirra skipa myndi koma til landsins árið 2016 en vegna tafa við smíðarnar færðist fjárfesting að hluta til yfir á árið 2017. Þeirri fjárfestingarhrinu sem staðið hefur yfir í fiskiskipum á síðustu árum er þó ekki lokið. Í desember síðastliðnum var samið um smíði á sjö nýjum togurum sem verða smíðaðir í Noregi og afhentir á næstu árum. Samherji og Síldarvinnslan hafa þessu til viðbótar samið við danska skipasmíðastöð um smíði á tveimur uppsjávarskipum og ráðgert er að þau verði afhent árið 2020. Þessar fjárfestingar, ásamt fjárfestingum síðustu ára, munu hafa töluverð áhrif til endurnýjunar fiskiskipaflotans og lækka meðalaldur hans verulega.

Tafir á stóriðjufjárfestingu

Spá okkar um stóriðjufjárfestingu hefur tekið litlum breytingum á undanförnum misserum. PCC á Bakka við Húsavík hefur tekið til starfa og er langstærstum hluti fjármunamyndunar vegna þeirrar verksmiðju lokið. Spá okkar um uppbyggingu Thorsil hefur færst yfir á næsta ár. Við teljum að töluverð óvissa ríki um þá framkvæmd. Ekki er loku fyrir það skotið að fjárfesting í United Silicon verði færð niður að einhverju leyti í þjóðhagsreikningum Hagstofunnar, enda liggur starfsemi fyrirtækisins niðri og óvíst hvort og þá hvenær starfsemi hefst að nýju. Um það hefur hins vegar ekki verið tekin nein ákvörðun og munum við því ekki færa fjárfestingu í United Silicon niður að svo stöddu.

Íbúðafjárfesting á fleygiferð

Eftir tiltölulega litla aukningu allt frá fjármálakreppunni 2008 hefur vöxtur íbúðafjárfestingar verið mikill síðustu tvö ár, um 26% árið 2016 og um 18% árið 2017. Í fyrra nam íbúðafjárfesting 3,8% af vergri landsframleiðslu (VLF). Breytingin á milli annars ársfjórðungs 2017 og 2018 var 19% og var 30% milli ársfjórðunganna þar á undan. Íbúðafjárfesting fór hæst í 6,6% á árinu 2007 og var að meðaltali 3,9% frá aldamótum fram til 2007.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar var lokið við að byggja um 1.770 íbúðir á landinu öllu á árinu 2017 og bygging hafin á um 2.800 íbúðum á því ári. Þetta er mikil fjölgun frá árinu 2016, sérstaklega hvað varðar byggingar sem byrjað var að reisa. Auknar íbúðabyggingar einskorðast ekki við höfuðborgarsvæðið heldur hefur byggingarstarfsemi aukist um allt land, ekki síst í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.

Viðvarandi upplýsingaskortur

Lítið miðar í þá átt að gefa út áreiðanlegar, opinberar upplýsingar um byggingarstarfsemi hér á landi og væntanlegt framboð húsnæðis og virðist sem sveitarfélögin kjósi að gera slík gögn ekki opinber. Bestu heildarmyndina af ástandi byggingarmarkaðarins má sjá í talningum Samtaka iðnaðarins (SI) á húsnæði í byggingu sem framkvæmd er tvisvar á ári.

Samkvæmt tölum SI má vænta þess að framundan sé aukið framboð á fullbúnum íbúðum. Talningar og greiningar SI benda til einhverrar aukningar næstu tvö árin en að síðan muni hægja á. Íbúðir í byggingu voru 5,6% af heildarfjölda íbúða á höfuðborgarsvæðinu í ársbyrjun þessa árs en hlutfallið var 4,7% í mars.

SI áætlar að í ár verði 2.084 íbúðir fullbyggðar sem fæli í sér 2,4% fjölgun íbúða á höfuðborgarsvæðinu í ár, en aukningin var 1,5% í fyrra.

Mikil umræða hefur verið um skort á minni og ódýrari íbúðum. Svo virðist sem hægt hafi gengið að fjölga hlutfallslega minni íbúðum í byggingu. Þannig sýna gögn um seldar íbúðir að nýjar íbúðir sem seljast eru mun stærri en eldri íbúðir sem hafa verið seldar. Þó virðist sem munurinn hafi minnkað nokkuð á þessu ári og ætti það að einhverjum hluta að svara þörfum markaðarins. Að mati Hagfræðideildar er þó ákveðin hætta á því að stór hluti fullbyggðra íbúða sé of stór og dýr fyrir þarfir markaðarins í dag. Framboð íbúða er að aukast mikið og því er ákveðin hætta á að illa muni ganga að selja mikið magn af íbúðum sem eru að jafnaði stærri en þær íbúðir sem mest þörf er fyrir.

Hagfræðideild spáir áframhaldandi mikilli íbúðafjárfestingu og að hún aukist um 25% í ár, um 5% á árinu 2019, 10% á árinu 2020 og 5% á árinu 2021. Íbúðafjárfesting var um 3,7% af VLF í fyrra og reiknað er með að hlutfallið hækki og verði komið um og yfir 5% á árunum 2020 og 2021.

Mikil aukning í fjárfestingu hins opinbera

Heildarfjárfestingar ríkis og sveitarfélaga jukust um 23,4% árið 2017 eftir að hafa nánast staðið í stað næstu tvö ár þar á undan. Hlutur opinberra fjárfestinga af vergri landsframleiðslu (VLF) hækkaði í tæplega 3,2% á síðasta ári, úr 2,6% árið 2016. Hlutfallið hefur ekki verið hærra frá árinu 2010 þegar það var um 3,3%.

Aukin fjárfesting í innviðum samfélagsins er eitt þeirra mála sem eru efst á dagskrá sitjandi ríkisstjórnar. Samkvæmt nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar munu opinberar fjárfestingar aukast mikið á næstu árum og ná hámarki á árinu 2019. Helstu verkefni sem eru í gangi og stefnt er að eru bygging nýs Landspítala, átak í samgöngumálum, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, ný Vestmannaeyjaferja og uppbygging hjúkrunarheimila. Að auki benda fjárhagsáætlanir sveitarfélaga almennt til aukinna fjárfestinga þeirra. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að hluti arðgreiðslna frá fjármálafyrirtækjum, sem eru að hluta eða að fullu í eigu ríkisins, renni til samgönguframkvæmda.

Sveitarfélög koma sterk inn

Sé litið til þróunar fjárfestingar á fyrri hluta ársins má sjá að fjárfestingar ríkissjóðs hafa dregist saman á síðustu tveimur ársfjórðungum, en það er að hluta til vegna þess að fjárfestingar ríkissjóðs voru óvenju miklar á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2017. Góður vöxtur hefur hins vegar verið í fjárfestingum sveitarfélaganna á síðustu misserum.

Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að opinber fjárfesting verði 3,3% af VLF í ár og fari svo hækkandi og verði 3,6-3,8% á árunum 2020-2021. Hagfræðideild telur líklegt að þróunin verði eitthvað hraðari, bæði vegna mikils pólitísks þrýstings á viðhald og endurnýjun innviða og þess að aukið svigrúm er að myndast til opinberra framkvæmda eftir því sem atvinnuvegafjárfesting dregst saman.

Hagfræðideild gerir því ráð fyrir að opinber fjárfesting aukist um 18% í ár, um 10% bæði árin 2019 og 2020 og 5% á árinu 2021. Það þýðir að opinber fjárfesting verður komin yfir 4% af VLF á árunum 2020 og 2021, en hún var að meðaltali 4,6% á árunum 1998-2008 og 3,1% af VLF á árunum 2008-2017.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Ský
13. jan. 2025
Vikubyrjun 13. janúar 2025
Atvinnuleysi var að meðaltali 3,5% árið 2024, líkt og við spáðum í október. Komur erlendra ferðamanna til Íslands á árinu voru lítillega fleiri en við bjuggumst við, eða tæplega 2,3 milljónir, og desembermánuður var sá fjölmennasti frá upphafi. Í síðustu viku gáfum við út verðbólguspá og gerum ráð fyrir að verðbólga hjaðni úr 4,8% í 4,6% í janúar.
Fataverslun
9. jan. 2025
Spáum 4,6% verðbólgu í janúar
Við spáum því að vísitala neysluverðs lækki um 0,32% á milli mánaða í janúar og að verðbólga hjaðni úr 4,8% í 4,6%. Við búumst við áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,7% í apríl.
6. jan. 2025
Vikubyrjun 6. janúar 2025
Í vikunni birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í desember og birtar verða tölur um atvinnuleysi í Bandaríkjunum. Einnig fara fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir mælinguna fimmtudaginn 30. janúar.
2. jan. 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 2. janúar 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Flugvöllur, Leifsstöð
19. des. 2024
Verðbólga stendur í stað á milli mánaða
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,39% á milli mánaða í desember, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga stendur því í stað í 4,8%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði og verði komin niður í 3,9% í mars.
Símagreiðsla
17. des. 2024
Kröftug kortavelta í aðdraganda jóla 
Kortavelta landsmanna færist enn í aukana þrátt fyrir hátt vaxtastig. Innlán heimila hafa vaxið og yfirdráttur ekki aukist. Erlendir ferðamenn hér á landi eyða líka þó nokkuð fleiri krónum en á sama tíma í fyrra. 
Greiðsla
16. des. 2024
Munu lægri vextir leiða til meiri neyslu?
Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferlið í október með 25 punkta lækkun og fylgdi því eftir með 50 punkta lækkun í nóvember. Þetta gerði bankinn rétt fyrir mestu neyslutíð ársins, með öllum sínum tilboðsdögum og jólainnkaupum.
Flutningaskip við Vestmannaeyjar
16. des. 2024
Vikubyrjun 16. desember 2024
Í vikunni fáum við vísitölur íbúðaverðs og leiguverðs frá HMS og vísitölu neysluverðs frá Hagstofunni en við gerum ráð fyrir lítilsháttar hjöðnun verðbólgu úr 4,8% í 4,7%. Um 9,3% fleiri erlendir ferðamenn komu til landsins í nóvember en á sama tíma í fyrra og skráð atvinnuleysi var 0,3 prósentustigum meira en það var í nóvember í fyrra. Seðlabanki Evrópu og Seðlabanki Sviss lækkuðu vexti í síðustu viku og það er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Bandaríkjanna og Englandsbanka í þessari viku.
Ferðamenn á jökli
12. des. 2024
Aldrei fleiri ferðamenn í nóvembermánuði
Um 162.000 ferðamenn komu til landsins í nóvember, samkvæmt talningu ferðamálastofu. Ferðamenn voru 9,3% fleiri en á sama tíma í fyrra og hafa aldrei verið fleiri í nóvembermánuði. Gagnavandamál voru áberandi í ár og tölur um fjölda ferðamanna, erlenda kortaveltu og gistinætur útlendinga hafa allar verið endurskoðaðar á árinu.
Flugvél
9. des. 2024
Spáum 4,7% verðbólgu í desember
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,35% á milli mánaða í desember og að verðbólga hjaðni úr 4,8% í 4,7%. Flugfargjöld til útlanda og húsnæðisliðurinn hafa mest áhrif til hækkunar í mánuðinum. Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,9% í mars á næsta ári.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur