10% aukning í kortaveltu í febrúar – alfarið innflutt notkun
Seðlabanki Íslands birti í morgun gögn um veltu innlendra greiðslukorta í febrúar. Samanlagt jókst kortavelta um 10% milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem aukningin mælist 10%. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 66 mö.kr. og dróst saman um 1% milli ára á föstu verðlagi. Kortavelta Íslendinga erlendis nam 15,5 mö.kr. og tvöfaldaðist milli ára miðað við fast gengi. Þetta er í fyrsta sinn síðan í október 2020 sem samdráttur mælist í neyslu Íslendinga innanlands.
Líkt og sést hefur á síðustu mánuðum er breyting að verða á vexti neyslunnar sem orsakast nú alfarið af aukningu í neyslu hjá erlendum söluaðilum. Neysla Íslendinga innanlands mælist engu að síður sterk, eða 5% meiri en í febrúar 2020, þrátt fyrir lítilsháttar samdrátt nú milli ára.
Brottfarir Íslendinga í gegnum Leifsstöð voru um 28.000 talsins í febrúar, eða tífalt fleiri en í febrúar í fyrra, og kemur því ekki á óvart að sjá kortanotkun Íslendinga erlendis aukast verulega. Aukningin (tvöföldun milli ára) er þó lítil miðað við aukninguna í ferðalögum. Þetta skýrist af því að netverslun færist sífellt í aukana og gerði það að verkum að neysla frá útlöndum datt aldrei niður, þrátt fyrir nær engin ferðalög þegar faraldurinn stóð sem hæst.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: 10% aukning í kortaveltu í febrúar – alfarið innflutt notkun