Samantekt
Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 0,8% milli apríl og maí. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,9% en verð á sérbýli hækkaði um 0,6%. Þetta er mesta hækkun sem hefur mælst milli mánaða síðan í nóvember 2018 þegar íbúðaverð hækkaði um 1%. Vextir á íbúðalánum hafa lækkað upp á síðkastið sem kann að hafa aukið svigrúm fólks til íbúðakaupa.
Raunverð íbúða helst nokkuð óbreytt milli mánaða þar sem verð annarra vara en húsnæðis hækkaði með svipuðu móti, eða um 0,9%, milli apríl og maí samkvæmt vísitölu neysluverðs. Sé litið til 12 mánaða breytingar á íbúðaverði hefur nafnverð nú hækkað um 3,8% og raunverð 1,2%. Breytingar á raunverði íbúða hafa verið afar hóflegar síðustu mánuði, sérstaklega ef litið er á samhengi þess við aðrar undirliggjandi stærðir sem stýra kaupgetu, svo sem kaupmátt launa.