Algeng útfærsla sæmdarkúgunar lýsir sér þannig að fjárkúgari hefur samband við fórnarlamb að fyrra bragði og fullyrðir að hann hafi eina eða fleiri myndbandsupptökur úr síma eða tölvu sem sýnir viðkomandi á kynferðislegan hátt. Algengt er að kúgarinn segist hafa tekið myndefnið upp án vitundar fórnarlambsins. Kúgarinn krefst síðan greiðslu til að eyða myndefninu, ella verði því dreift til fjölskyldu, vina, vinnufélaga og annarra tengiliða í síma og tölvu viðkomandi. En jafnvel þó fórnarlambið inni greiðsluna af hendi, heldur kúgarinn áfram að blóðmjólka viðkomandi þar til hann eða hún gefst upp og hreinlega getur ekki meira.
Fjárkúgararnir hafa sjaldnast „viðkvæmu“ gögnin
Eins og fjallað er um í greininni um útsmoginn sálfræðihernað í netsvikum þá er það hinn mannlegi breyskleiki fórnarlambsins, trúgirni þess eða grandvaraleysi, sem svikararnir reyna að spila á og notfæra sér. Sæmdarkúgunin hefur fátt með það að gera hvort fjárkúgararnir hafi meiðandi efni raunverulega undir höndum heldur treysta þeir á að fórnarlambið geti ekki útilokað að svo sé. Sæmdarkúgun beinist að persónulegustu málefnum einstaklinga – líkama þeirra, ímynd, orðspori og sjálfsákvörðunarrétti og þetta notfæra fjárkúgarar sér til að koma fólki úr jafnvægi.
Skömm fórnarlambsins er eitt sterkasta vopn svikarans
Fyrstu þekktu tilvik sæmdarkúgunar komu fram árið 2013. Það var þó ekki fyrr en árið 2018 sem þeim fór að fjölga til mikilla muna víða um heim og hafa Íslendingar ekki farið varhluta af þeim. Í ársskýrslu um tilkynnta netglæpi sem bandaríska alríkislögreglan FBI gefur út, kom fram að sæmdarkúgunarmálum í Bandaríkjunum fjölgaði um 242% árið 2018 en þá voru rúmlega 51.000 mál tilkynnt til lögreglu og banka. Sambærilegar tölur hafa verið birtar af löggæslu- og greiningaraðilum í Evrópu og bendir flest til þess að málunum muni fjölga enn frekar.
Töluverð framþróun hefur orðið í útfærslu svikanna. Núorðið reynir fjárkúgarinn allt hvað hann getur til að auka trúverðugleika sinn með því til dæmis að birta í hótuninni eitt eða fleiri lykilorð sem fórnarlambið raunverulega notar, eða hefur notað, að tölvupósti, appi, á samfélagsmiðlum eða öðrum læstum vefsíðum. Fjárkúgarinn segist hafa notað einmitt þessi lykilorð til að brjótast inn í tölvu fórnarlambsins, og hafi þar um langt skeið stundað upptökur í vefmyndavélinni eða í síma viðkomandi og eigi því fjölda myndskeiða úr fram- og afturmyndavél símans sem komi viðkomandi afar illa, fari efnið í almenna dreifingu.
Sæmdarkúgunarmálum í Bandaríkjunum fjölgaði um 242% á milli áranna 2017 og 2018.
Ekki örvænta
Fáir þú svona hótun skaltu eftir fremsta megni sýna stillingu - og alls ekki svara henni. Ólíklegt er að svikarinn hafi náð að brjótast inn í tölvuna eða símann. Iðulega er um staðlaðan tölvupóst að ræða þar sem nafni fórnarlambsins er skeytt inn ásamt einu eða fleiri lykilorðum sem fjárkúgarinn hefur komist yfir. Hafi fjárkúgarinn raunverulega komist yfir efni, fylgir eitt eða fleiri skjáskot með hótuninni. Ráðlegt er lesa vandlega efnið í spurt og svarað kaflanum hér neðar.
Algengar spurningar
Hafðu samband
Ef þú telur að þú hafir orðið fórnarlamb sæmdarkúgunar hvetjum við þig til að kæra málið til lögreglu á netfangið cybercrime@lrh.is. Þú getur líka sent tölvupóst til Þjónustuvers Landsbankans eða hringt í síma 410 4000.