Vísitala íbúðaverðs lækkar annan mánuðinn í röð
Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,8% milli mánaða í júlí samkvæmt tölum sem HMS birti síðdegis í gær. Mánuðinn á undan lækkaði hún um 1,1% en hafði hækkað á milli mánaða fjóra mánuði í röð þar á undan. Sérbýlishluti vísitölunnar lækkaði um 2,8%, mun meira en fjölbýlishlutinn sem lækkaði um 0,2%.
Árshækkun vísitölunnar ekki lægri síðan 2011
Árshækkun vísitölunnar fór úr 2,7% niður í 0,8% og svo lítil hefur hún ekki verið síðan í janúar 2011. Í júlí í fyrra náði árshækkunin hámarki og mældist 25,5%.
Þessi mikla lækkun á 12 mánaða breytingunni er tilkomin bæði vegna þess að vísitalan lækkaði milli mánaða og vegna þess að mælingin frá því í júlí 2022 datt út úr ársbreytingunni, en vísitalan hækkaði um 1,1% milli mánaða þá.
Kaupsamningum fækkar enn
Alls voru 514 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði undirritaðir á höfuðborgarsvæðinu í júní, samkvæmt bráðabirgðatölum HMS, 17% færri en í júní í fyrra.
Síðustu 23 mánuði hafa kaupsamningar verið færri en í sama mánuði árið á undan. Þeim fækkaði þó minna milli ára í júní heldur en í maí og apríl, þegar þeim fækkaði um 35% og 26% milli ára.
Ólíklegt að markaðurinn komist á mikið skrið í þessu vaxtaumhverfi
Vaxtahækkanir hafa án efa komið skýrast fram á íbúðamarkaði. Markaðurinn fer enn kólnandi og verðþróunin hefur gjörbreyst, þótt enn sé langt frá því að viðskiptin hafi stöðvast. Enn eru í gildi reglur um þrengri lánþegaskilyrði sem styðja við áhrif vaxtahækkana og torvelda ekki síst nýjum kaupendum að koma inn á markaðinn.
Allt frá því að fasteignamarkaðurinn fór að róast um mitt síðasta ár hefur mánaðarbreyting vísitölunnar verið nokkuð breytileg og óútreiknanleg. Því er ekki útséð um að íbúðaverð geti hækkað aftur lítillega á næstu mánuðum, þótt það lækki suma mánuði.
Það er þó ólíklegt að markaðurinn komist á mikið skrið á meðan vextir eru eins háir og nú. Verðþróunin veltur því að miklu leyti á því hvenær verðbólgan hjaðnar nógu mikið til þess að hægt verði að hefja vaxtalækkunarferli. Verðbólgan skrifast nú ekki nema að litlu leyti á íbúðamarkað og þessar nýju tölur gefa frekari ástæðu til að telja að peningastefnunefnd taki mun minna skref í næstu viku en á síðustu fundum.