Vísitala íbúðaverðs hækkar lítillega og verðbólguspáin með
Vísitalan hækkaði um 0,7% á milli mánaða. Mánuðinn á undan lækkaði hún um 0,8% og í júní um 1,1%. Sérbýlishluti vísitölunnar lækkaði um 0,2%, en fjölbýlishlutinn hækkaði um 0,9%.
Árshækkun vísitölunnar eykst á ný
Árshækkun vísitölunnar fór úr 0,8% upp í 2,0%, en í júlí var árshækkunin lægri en hún hafði verið síðan í janúar 2011. Í júlí í fyrra náði árshækkunin hámarki og mældist 25,5% og verðþróunin hefur því gjörbreyst á einu ári.
Raunverð fer lækkandi á milli ára
Raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað milli ára síðustu fjóra mánuði. Raunverð fæst með því að taka tillit til verðbólgu, en til þess notum við vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Raunverð lækkar þannig milli ára ef árshækkun íbúðaverðs er minni en árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Mjög tók að hægja á raunverðshækkunum, þegar aðrir liðir en húsnæði fóru að hækka í verði á sama tíma og hægði á íbúðaverðshækkunum, á seinni hluta síðasta árs. Raunlækkunin nam 5,2% milli ára í ágúst og lækkaði úr 5,9% í júlí.
Mikið flökt á íbúðaverði milli mánaða
Íbúðaverð sveiflast í ólíkar áttir milli mánaða og erfitt er spá fyrir um breytingar milli mánaða. Litlar líkur eru þó á að verðhækkanir fari á flug á meðan vaxtastigið er eins hátt og raun ber vitni og verðhækkun ágústmánaðar gæti allt eins gengið til baka í september. Þó er einnig hugsanlegt að síaukin þörf á húsnæði skapi þrýsting á verðið, þrátt fyrir að aðgengi að lánsfé sé minna en á síðustu árum. Enn eru í gildi reglur um þrengri lánþegaskilyrði sem styðja við áhrif vaxtahækkana og torvelda ekki síst nýjum kaupendum að koma inn á markaðinn. Hlutdeildarlánaúrræði stjórnvalda, sem nýlega var útvíkkað, vinnur þó í hina áttina og hjálpar fyrstu kaupendum að komast inn á markaðinn sem gætu það ekki án þeirra. Nýleg útvíkkun á reglum um hlutdeildarlán gæti hugsanlega hafa ýtt undir verðhækkanir á fjölbýli í ágúst, ekki síst þar sem lánin eru aðeins fáanleg til kaupa á nýjum íbúðum, sem að óbreyttu hafa almennt hærra fermetraverð en eldri íbúðir.
Kaupsamningum heldur áfram að fækka milli ára
Óútreiknanlegar sveiflur á íbúðaverði milli mánaða kunna að skýrast að einhverju leyti af því að þó nokkuð færri kaupsamningar er undirritaðir í hverjum mánuði en síðustu ár. Alls voru 443 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði undirritaðir á höfuðborgarsvæðinu í júlí, samkvæmt bráðabirgðatölum HMS, en fjöldinn í ágúst hefur ekki verið birtur. Samningarnir í júlí voru 9,6% færri en í júlí í fyrra.
Síðustu 25 mánuði hafa kaupsamningar verið færri en í sama mánuði árið á undan. Þeim fækkaði þó minna milli ára í júlí heldur en síðustu fjóra mánuði þar á undan.
Spáum nú 7,8% verðbólgu í september
Vísitala íbúðaverðs í ágúst er nokkuð hærri en við bjuggumst við þegar við unnum verðbólguspá í síðustu viku. Þá gerðum við ráð fyrir að markaðsverð húsnæðis á landinu öllu myndi lækka um 0,3% milli mánaða. Við gerum nú ráð fyrir að markaðsverð húsnæðis á landinu öllu hækki lítillega minna en vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu eða um 0,5%, þar sem við gerum ráð fyrir að markaðsverð utan höfuðborgarsvæðisins standi í stað. Í stað þess að spá +0,07% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða og 7,7% ársverðbólgu gerum við nú ráð fyrir að vísitalan hækki um 0,21% milli mánaða og ársverðbólgan verði 7,8%.