Vísitala heildarlauna og launavísitalan – mismunandi þróun milli markaða
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 10,5% milli ára á fyrsta ársfjórðungi 2021. Á sama tíma hækkaði vísitala heildarlauna um 10,8%.
Heildarlaun eru samtala allra launa einstaklinga og eru fengin úr staðgreiðslugögnum. Launavísitalan byggir hins vegar á launarannsókn Hagstofunnar og tímakaupi reglulegra launa í hverjum mánuði. Mæld eru greidd mánaðarlaun fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Í þeim launum eru hvers konar álags- og bónusgreiðslur, svo sem föst yfirvinna, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili.
Ekki var mikill munur á ársbreytingu launavísitölu og vísitölu heildarlauna á fyrsta ársfjórðungi 2021. Sé litið á þróunina á almenna og opinbera markaðnum hvorum fyrir sig kemur hins vegar mikill munur í ljós. Á almenna markaðnum hækkuðu heildarlaunin töluvert meira en launavísitalan, 12,6% á móti 8,6%. Þessu var algerlega öfugt farið á opinbera markaðnum þar sem heildarlaunin hækkuðu mun minna en launavísitalan, 10,8% á móti 15,9%.
Nærtækasta skýringin á þessum mun milli markaða væri að vinnutíminn væri að breytast með mismunandi hætti, að lengjast á almenna markaðnum, en að styttast á þeim opinbera. Nákvæmar mælingar á vinnutíma milli markaða eru ekki fyrir hendi, en sé litið á vinnutímamælingar í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands má sjá að venjulegur vinnutími allra í úrtakinu styttist um 0,4 stundir á milli 1. ársfjórðunga 2020 og 2021. Á bak við 0,4 stunda styttingu vinnutíma eru auðvitað ýmsar undirstærðir, en það er þó ekki alveg augljóst að vinnutími á almenna markaðnum hafi almennt aukist á þessu tímabili.
Vinnutími á opinbera markaðnum er hins vegar að styttast í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Munurinn á 16% hækkun launavísitölu og 11% hækkun heildarlauna er hins vegar nokkuð mikill og erfitt að sjá að stytting vinnutíma skýri þá stöðu að fullu.
Sé litið á þróun launavísitölu og heildarlauna innan nokkurra atvinnugreina á almenna markaðnum sést að staðan er mismunandi. Sums staðar hefur launavísitalan hækkað meira en heildarlaunin og annars staðar er þessu öfugt farið. Af sjö greinum hækkar launavísitalan meira í fjórum og heildarlaunin meira í þremur. Heildarlaunin hækka áberandi minna en launavísitalan í veitum og gisti- og veitingarekstri. Þar er um tvær greinar að ræða sem urðu væntanlega fyrir mjög mismunandi áhrifum af faraldrinum þannig að erfitt er að greina ástæður þessa munar.
Yfir lengri tíma breytast vísitala heildarlauna og launavísitalan yfirleitt með svipuðum hætti og svo var einnig á milli 1. ársfjórðunga 2020 og 2021. Það er hins vegar ljóst að þróunin á milli markaða getur verið mjög mismunandi á ákveðnum tímabilum. Yfirleitt ber að varast að draga of miklar ályktanir af breytingum á einstökum tímabilum, en sá munur sem hér hefur verið reifaður er athyglisverður. Í því sambandi ber einnig að hafa í huga að önnur vísitalan byggir á úrtaksrannsókn á vinnumarkaði en hin á skattgögnum.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Vísitala heildarlauna og launavísitalan – mismunandi þróun milli markaða