Vikan framundan
- Í dag birtir Nova klúbburinn uppgjör og Icelandair birtir flutningstölur.
- Á þriðjudag birtir Eimskip uppgjör og Play birtir flutningstölur.
- Á miðvikudag birtir Sýn uppgjör.
- Á föstudag birtir Ferðmannastofa fjölda ferðamanna um Leifsstöð og Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi.
Mynd vikunnar
Velta í byggingariðnaði dróst saman á milli ára í júlí og ágúst, samkvæmt gögnum Hagstofunnar sem byggja á virðisaukaskattsskýrslum. Þetta er í fyrsta skipti í rúm tvö ár sem veltan minnkar og til samanburðar jókst hún um rúm 15% milli ára á VSK-tímabilinu maí-júní. Það hefur vakið athygli okkar hversu mikið velta í byggingariðnaði hefur aukist á sama tíma og íbúðafjárfesting hefur dregist saman. Að einhverju leyti má segja að þessi viðsnúningur komi ekki á óvart. Eins og við fjöllum um í nýrri Hagsjá virðist hátt vaxtastig farið að þyngja róður fyrirtækja í byggingargeiranum og ólíklegt að íbúðauppbygging fullnægi íbúðaþörf á næstu misserum. Þá má gera ráð fyrir þó nokkrum verðþrýstingi þegar vaxtastigið fer lækkandi og skammtímaeftirspurn á íbúðamarkaði kemst aftur á flug.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,60% milli mánaða í október og við það lækkaði ársverðbólga úr 8,0% í 7,9%. Verð á mat og drykkjarvöru og kostnaður við búsetu í eigin húsnæði hækkaði meira en við höfðum gert ráð fyrir. Verð á flugfargjöldum lækkaði aftur á móti meira en við höfðum spáð. Við gerum nú ráð fyrir 7,8% verðbólgu í nóvember, 7,7% í desember og 6,6% í janúar. Spáð lækkun verðbólgunnar í janúar á næsta ári skýrist af því hversu mikið vísitalan hækkaði í janúar í ár og sá mánuður dettur út úr ársverðbólgunni í janúar á næsta ári.
- Skráðar gistinætur í september voru 6% fleiri en í september 2022. Uppsafnaður fjöldi fyrstu 9 mánuði ársins var 8,2 milljónir, 18% fleiri en sama tímabil árið 2022.
- Seðlabanki Bandaríkjanna og Englandsbanki héldu vöxtum óbreyttum í síðustu viku. Verðbólga á evrusvæðin hjaðnaði nokkuð meira en búist var við, úr 4,3% í 2,9%, og því ólíklegt að Seðlabanki Evrópu hækki vexti meira í bili.
- Á hlutabréfamarkaði birti Kvika banki uppgjör og Amroq fékk tvö ný leyfi til námurannsókna á Suður-Grænlandi.
- Á skuldabréfamarkaði luku Lánamál ríkisins útboði ríkisvíxla og ríkisbréfa, Landsbankinn lauk útboði á sértryggðum skuldabréfum og Íslandsbanki gaf út skuldabréf í sænskum krónum.