Vikan framundan
- Klukkan 9 í dag birtir Hagstofan þjóðhagsreikninga fyrir 1. árfjórðung 2021.
- Á þriðjudag birtir Seðlabankinn greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar.
Mynd vikunnar
Verðbólga í helstu viðskiptalöndum okkar er að aukast. Þannig hækkaði verðbólga í Bandaríkjunum úr 2,6% í mars í 4,2% í apríl. Þessi mikla aukning kom nokkuð á óvart, en þetta var mun meira en almennt var búist við. Þetta er mesta aukning milli mánaða síðan 2008. Aukin verðbólga skýrist af miklum stuðningsaðgerðum stjórnvalda og Seðlabankans vegna faraldursins, framboðsflöskuhálsum og auknum efnahagsumsvifum samfara framgangi bólusetninga. Verðbólga í Bretlandi jókst einnig milli mánaða í apríl, en verðbólga rúmlega tvöfaldaðist úr 0,7% í mars í 1,5% í apríl. Þessi tala segir ekki alla söguna, en án áhrifa tímabundinna skattalækkana vegna faraldursins hefði verðbólgan mælst 3,2%. Verðbólgan á evrusvæðinu mældist 1,6% í apríl, en það þarf ekki að fara lengur aftur en til desember 2020 til að sjá verðhjöðnun þar.
Það helsta frá síðustu viku
- Verðbólga mældist 4,4% í maí.
- Halli af vöru- og þjónustuviðskiptum nam 32,8 mö.kr. á 1F.
- Það er mikið að gerast á fasteignamarkaði um allt land.
- Launavísitalan hækkaði um 0,3% milli mánaða í mars.
- Kvika banki birti uppgjör.
- Hlutabréf í Síldarvinnslunni voru tekinn til viðskipta í kauphöllinni.
- Síldarvinnslan birti lista yfir 20 stærstu hluthafa.
- Hagstofan birti tölfræði um lífslíkur á Íslandi, vinnumarkaðinn í apríl, gistinætur 2020, og tilraunatölfræði um staðgreiðsluskyldar greiðslur.
- Seðlabankinn birti talnaefni um lífeyrissparnað í lok mars, eignir verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða í lok apríl, verðbréfafjárfestingu í apríl og efnahag ýmissa fjármálafyrirtækja í lok apríl.
- Hagdeild HMS birti uppfærða íbúðaþarfagreiningu.
- Fjármála- og efnahagsráðherra birti áætlun um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum.
- Iceland Seafood lauk víxlaútboði, Íslandsbanki lauk útboði sértryggðra skuldabréfa, og Lánamál ríkisins luku útboði ríkisvíxla.