Vikubyrjun 28. október 2024
Vikan framundan
- Á miðvikudaginn birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir október. Við spáum því að verðbólgan lækki í 5,1%. Arion banki, Festi og Marel birta uppgjör. Þá verður birt fyrsta mat á VLF á evrusvæðinu og Bandaríkjunum fyrir þriðja ársfjórðung.
- Á fimmtudaginn birta Eik og Nóva uppgjör og það verða birtar verðbólgutölur fyrir evrusvæðið.
- Á föstudag verða birtar atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum.
Mynd vikunnar
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birtir hagspá tvisvar á ári, í apríl og október, og kom októberspáin út í síðustu viku. Sjóðurinn telur að hagvöxtur í heiminum næstu ár verði rétt rúmlega 3%, nokkuð meiri í nýmarkaðsríkjum en í þróaðri ríkjum. Þótt hagvaxtarhorfur í heiminum séu nokkurn veginn óbreyttar frá því í apríl hefur spá sjóðsins fyrir ólíka heimshluta breyst þó nokkuð. Til dæmis má nefna að horfur í Bandaríkjunum hafa batnað á meðan horfur í stærstu löndum Evrópu hafa versnað. Þá hafa horfur í Mið-Austurlöndum, Mið-Asíu og Afríku sunnan Sahara versnað á meðan þær hafa batnað í þeim heimshluta sem AGS kallar nýmarkaðsríki Asíu (e. emerging Asia) og nær til Kína, Indlands, Taívan, Indónesíu, Malasíu, Filippseyja, Tælands og Víetnam.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Velta í hagkerfinu jókst um 2,1% á milli ára á VSK-tímabilinu júlí-ágúst. Svo mikið hefur veltan ekki aukist frá því á VSK-tímabilinu janúar-febrúar árið 2023, þegar hagkerfið var enn að rétta úr kútnum eftir covid-samdráttinn.
- Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar tvöfaldaðist árstíðaleiðrétt atvinnuleysi á milli mánaða í september og mældist 5,2%. Vinnumarkaðsrannsóknin er úrtakskönnun og eiga niðurstöður úr henni það til að sveiflast mjög á milli mánaða. Því er varasamt að lesa of mikið í staka mælingu. Skráð atvinnuleysi samkvæmt Vinnumálastofnun er mun minna og hefur aðeins lítillega aukist upp á síðkastið.
- Hagstofan birti einnig vísitölu launa. Vísitalan hækkaði um 0,7% á milli mánaða í september og er árshækkun hennar 6,1%. Vísitalan hækkar alla jafna nokkuð meira í september en aðra mánuði.
- Seðlabankinn birti fundargerð frá fundi fjármálastöðugleikanefndar í september.
- Icelandair (fjárfestakynning), Íslandsbanki, Landsbankinn, Play, Síminn og Sjóvá birtu uppgjör.
- Hagar keyptu verslunarfélag í Færeyjum, Kaldalón keypti fleiri fasteignir, Alvotech fékk markaðsleyfi í Bandaríkjunum, Amaroq tilkynnti um framvindu könnunaráætlunar og Íslandsbanki keypti til baka eigin bréf.
- Fossar, Kaldalón og Orkuveita Reykjavíkur seldu skuldabréf. Lánamál ríkisins tilkynntu um niðurstöðu viðbótarútgáfu.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).