Morg­un­fund­ur um hagspá til 2027 - upp­tök­ur

Hagspá Landsbankans til ársins 2027 var kynnt á morgunfundi í Silfurbergi Hörpu þriðjudaginn 15. október 2024 en auk þess var fjallað um stöðu og horfur á alþjóðlegum mörkuðum og í áhugaverðum pallborðsumræðum ræddu forstjórar fjögurra útflutningsfyrirtækja um tækifæri og áskoranir í útflutningi.
15. október 2024

Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir 0,1% samdrætti á árinu 2024 en stöðugum hagvexti á bilinu 2,1-2,3% næstu þrjú ár. Samkvæmt spánni hjaðnar verðbólga nokkuð á spátímanum og verður komin í 3,3% árið 2027. Deildin spáir hægfara vaxtalækkunum nær allt spátímabilið.

Hvernig búum við til hagsæld til framtíðar?

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setti fundinn og bauð gesti velkomna. Hún rifjaði upp að þegar hagspá Landsbankans var kynnt fyrir ári síðan hefði verið rætt um nauðsyn þess að ná vöxtum og verðbólgu niður. Það væri nú að takast, en hefði tekið lengri tíma en vonast hefði verið eftir og gerðist í hægari skrefum. „En það sem skiptir miklu meira máli á þessum tímapunkti er að ræða um hvernig við ætlum að búa til hagsæld til framtíðar. Í almennri umræðu er tengingin á milli góðra lífskjara og sterkra útflutningsgreina ekki nógu sterk að mínu mati. Við erum útflutningsþjóð, við byggjum okkar verðmæti og hagsæld samfélagsins á því að búa til verðmæti og selja. Það skiptir verulegu máli að útflutningsgreinunum okkar gangi sem allra best,“ sagði Lilja.

Horfa á erindi Lilju

Upptaka frá fundinum

Hagkerfið nær andanum

Una Jónsdóttir, aðalhagfræðingur Landsbankans, kynnti hagspá Greiningardeildar Landsbankans til ársins 2027. Hún sagði að yfirskriftin, hagkerfið nær andanum, væri lýsandi fyrir stöðuna.

„Við erum að koma úr tímabili mjög mikils hagvaxtar, á bilinu 5-9% árlega á síðustu árum, og þessum mikla hagvexti hefur fylgt mikil og þrálát verðbólga. En nú er loks komið að þeim tímapunkti að ró hefur færst yfir hagkerfið, það nær andanum, verðbólga hjaðnar, og svo förum við aftur rólega af stað,“ sagði Una.

Samkvæmt spánni er sigur í baráttunni við verðbólguna í augsýn. Vextir muni lækka aftur um 0,25 prósentustig á þessu ári og við taki hægfara vaxtalækkanir nær allt spátímabilið.

„Það sem einkennir stöðuna í ár er bakslag í útflutningsgreinunum okkar. Það varð loðnubrestur og samdráttur í ferðaþjónustu, ásamt því sem háum vöxtum hefur tekist að hægja á eftirspurn. Þetta veldur því að við spáum samdrætti í ár. Þetta er samt varla samdráttur að neinu ráði, 0,1% og skýrist í raun alfarið af þeim samdrætti sem hefur þegar birst okkur á fyrsta og öðrum ársfjórðungi. En þetta er nauðsynleg kólnun sem við höfum beðið eftir, hagkerfið slaknar við þetta og svo gerum við ráð fyrir nokkuð góðum vexti, um 2% árlega, næstu árin,“ sagði Una.

Í spánni er reiknað með að vöxtur í útflutningsgreinum verði að miklu leyti borinn uppi af því sem í gögnum Hagstofunnar nefnist „annar útflutningur” þ.e.a.s. öðru en ferðaþjónustu, sjávarafurðum eða álframleiðslu. Una benti á að útflutningur á lyfjum og lækningavörum hefði aukist gríðarlega og þessar greinar hefðu burði til að aukast enn frekar. Sömuleiðis væru uppi umfangsmikil áform um vöxt í landeldi.

Horfa á erindi Unu

Jiu-jitsu-hagfræði

James Ashley, hagfræðingur og forstöðumaður stefnumála og ráðgjafalausna fyrir Evrópu, Miðausturlönd, Afríku og Asíu hjá eignastýringu Goldman Sachs, flutti erindi um stöðu og horfur á mörkuðum.

„Ég tel að við séum á tímabili róttækra breytinga, í stjórnmálum, efnahagsmálum og á alþjóðavísu“, sagði James. Annað hvort væri hægt að líta á breytingarnar og óróann á hinum ýmsu sviðum og í ólíkum heimshornum sem einangruð tilvik sem muni líða hjá eða að við stæðum nú frammi fyrir nýjum veruleika. Fjárfestar þyrftu að aðlagast þessu. Hann væri þó alls ekki að halda því fram að óvissan sem nú blasir við þýddi að fjárfestar ættu að reyna að draga sem mest úr áhættu og lagði áherslu á mikilvægi þess að fjárfesta til langs tíma. Öll sú óvissa sem heimurinn stæði nú frammi fyrir skapaði fjölmörg tækifæri til fjárfestinga.

Horfa á erindi James Ashley

Pallborðsumræður um tækifæri og horfur í útflutningi

Fundinum lauk með pallborðsumræðum um tækifæri og áskoranir í útflutningsgreinum. Þátttakendur voru Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water, Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, Ingvar Hjálmarsson, forstjóri Nox Medical og Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma. Hildur Margrét Jóhannsdóttir, hagfræðingur hjá Landsbankanum, stýrði umræðum.

1.000 milljarða tekjur af hugverkaiðnaði

Ingvar Hjálmarsson sagðist ekki í vafa um að hugverkaiðnaðurinn yrði með tímanum stærsta útflutningsgrein landsins. „Það er ekki spurning. Einfaldlega af því að við höfum ekki val um annað,“ sagði hann. Auðlindadrifna hagkerfið, þ.e. sjávarútvegur og matvælaframleiðsla, orkufrekur iðnaður og ferðaþjónusta hefði reynst þjóðinni ótrúlega vel. En nú þyrfti að horfa til framtíðar. Hugverkaiðnaður hefði á síðustu 10 árum þrefaldast og velti nú 300 milljörðum króna árlega. Á næstu tíu árum mætti láta sig dreyma um að veltan fari úr 300 milljörðum upp í 1.000 milljarða.

Ingvar ræddi um mikilvægi þess fyrir hugverkaiðnaðinn að stjórnvöld endurgreiði kostnað við rannsóknir og þróun og undir það tóku þau Guðmundur Fertram og Jónína Guðmundsdóttir heilshugar. „Þetta býr til umhverfi þar sem við náðum að þrefalda útflutninginn á tíu árum. Og vonandi náum við að þre-, fjór- eða fimmfalda útflutninginn á næstu tíu árum!“ Fátt ef nokkuð væri eins mikilvægt við uppbyggingu á hugverkaiðnaði hér á landi og endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði.

Grín að tala um nýjar atvinnugreinar ef börnum er ekki kennt að lesa

Guðmundur Fertram Sigurjónsson sagði að áframhaldandi vöxtur myndi ráðast af menntun, nýtingu auðlinda og vinnumarkaðsmódeli. „Fyrir nokkrum mánuðum hefði ég talað um að okkur vantaði fleiri verkfræðinga, iðnaðarmenn og svoleiðis. En ætli ég þurfi ekki að tala um það núna að við þurfum að kenna börnunum okkar að lesa,“ sagði hann. Það væri grín að tala um nýjar atvinnugreinar og nýjar meginstoðir fyrir atvinnulífið ef börnum væri ekki kennt að lesa þannig að þau gætu síðar orðið verðmætir þátttakendur í atvinnulífinu.

Guðmundur sagði að nýsköpun og hugverkaiðnaður sem tengist grunnatvinnuvegunum væri vænlegt til árangurs. Í stað þess að reyna að keppa við hugverkaiðnaðinn í Kísildal í Bandaríkjunum eða í Evrópu ættum við að horfa til þess að byggja hugverkaiðnaðinn á tengingu við sérstöðu og styrkleika Íslands, auðlindirnar í hafinu og orkuauðlindir í landi. Ísland yrði sömuleiðis að nýta sínar auðlindir. Varðandi vinnumarkaðsmódelið sagði Guðmundur að einblína yrði á hagvöxt og að auka ekki útdeilingu gæða umfram hagvöxt. „Við verðum að tryggja að þegar við deilum út hagvextinum séum við ekki að deila út of miklu þannig að það valdi verðbólgu. Við þurfum að taka hagvöxtinn og skipta honum á milli launþega, fyrirtækja og ríkisumsvifa. Það gengur ekki að það gerist aftur og aftur að við tökum út meira en við erum að skapa,“ sagði hann. Það valdi verðbólgu, óstöðugleika og minni áhuga á fjárfestingum.

Ætlum við að halda áfram að fjöldaframleiða viðskiptafræðinga og lögfræðinga

Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma, ræddi einnig um þörfina á menntuðu fólki. Hingað til hefði fyrirtækið verið heppið og geta fengið til sín starfsfólk með þekkingu, menntun og reynslu sem m.a. vann áður fyrir Actavis. En nú væri komið að því að fyrirtækið þyrfti að ráða til sín fleiri með raungreinamenntun og einnig fólk í framleiðslustörf. „Stundum velti ég því fyrir mér hvernig við ætlum að láta unga fólkið vita hvert þetta samfélag er að fara á næstu árum. Ætlum við að halda áfram að fjöldaframleiða viðskiptafræðinga og lögfræðinga, af því að það er ódýrt að kenna þessar greinar?“ spurði hún. „Hvernig náum við samtali við unga fólkið og háskólana um að fjölga í dýrari námsleiðum sem styðja hið nýja hagkerfi sem er að myndast á Íslandi?“

Hugverkaiðnaðurinn væri í mikilli sókn og benti Jónína á að nú væri því spáð að hugverkaiðnaðurinn myndi velta 300 milljörðum króna á þessu ári en á sama tíma væri gert ráð fyrir um 324 milljarða króna veltu hjá álfyrirtækjunum þremur á árinu.

Þarf skýran ramma um nýjar atvinnugreinar

First Water stendur fyrir mikilli uppbyggingu á landeldi við Þorlákshöfn og var Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water, spurður að því hvort orkuskortur gæti orðið að flöskuhálsi í starfsemi fyrirtækisins.

Eggert sagði að svo væri ekki. „En maður hefur áhyggjur af því hvað þessar framkvæmdir ganga hægt út af nýrri atvinnugrein sem heitir kærur, þar sem sveitarfélög kæra framkvæmdir sem þau sjá ekki eða eru ekki í viðkomandi sveitarfélagi. Þetta eru tafaleikir sem eru studdir af ákveðinni pólítík.“ Hann hefði á hinn bóginn trú á að framkvæmdirnar yrðu að veruleika og að unga fólkið muni keyra þær áfram. Eggert sagði að ramminn utan um virkjanir og um nýjar atvinnugreinar væri ekki nægjanlega sterkur sem hefði orðið til þess að hægt væri að tefja framkvæmdir of mikið. Þennan ramma þyrfti að styrkja og kvaðst hann bjartsýnn á að það myndi takast.

Eggert sagði enga spurningu um að fiskeldi yrði stærri atvinnugrein en hefðbundinn sjávarútvegur. Eldisfiskur væri yfir 50% af fiskmeti sem er neytt á heimsvísu. Jarðarbúum væri að fjölga en villtir fiskistofnar væru í besta falli að standa í stað. „Fiskeldi á Íslandi mun verða stærri en sjávarútvegur eftir nokkur ár, það er engin spurning.“

Horfa á pallborðsumræður

Staða og horfur í útflutningi - hvað segja stjórnendur?

Við ræddum við stjórnendur í fimm útflutningsfyrirtækjum um stöðu efnahagsmála, áskoranir og tækifæri í rekstri. Þetta voru þau Daði Valdimarsson, forstjóri Rotovia, Lotte Rosenberg, forstjóri Carbon Recycling International, Lúðvík Börkur Jónsson, forstjóri Royal Iceland, Pétur Óskarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Hagspá Landsbankans
15. okt. 2024
Hagspá til 2027: Hagkerfið nær andanum
Greiningardeild Landsbankans spáir því að hagkerfið standi nánast í stað á milli ára í ár og að landsframleiðsla dragist saman um 0,1%. Bakslag í útflutningsgreinum setti svip sinn á fyrri hluta árs, loðnubrestur og hægari vöxtur ferðaþjónustu ollu samdrætti á sama tíma og háir vextir hafa kælt eftirspurnina sem engu að síður mælist nokkuð kröftug.
17. okt. 2024
Það helsta úr nýrri hagspá
Horfurnar eru nokkuð bjartar, samkvæmt nýrri hagspá Landsbankans, þrátt fyrir lítils háttar samdrátt á þessu ári. Með hjaðnandi verðbólgu og auknum slaka á vinnumarkaði skapast svigrúm til áframhaldandi vaxtalækkana sem blása lífi í hagkerfið.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur