Vikan framundan
- Í dag birtir Hagstofan talnaefni um fjölda starfandi samkvæmt skrám og staðgreiðsluskyldar greiðslur fyrir maí.
- Á þriðjudaginn birtir Hagstofan tölur úr skattaframtölum fyrir 2022, annars vegar um eignir og skuldir og hins vegar um tekjur.
- Á fimmtudag birtir Icelandair flutningstölur.
- Á föstudag birtir Play flutningstölur.
Mynd vikunnar
Skráðar gistinætur á fyrstu fimm mánuðum ársins voru 2,9 milljónir sem er mesti fjöldi sem mælst hefur. Fyrra metið var frá 2018 þegar skráðar gistinætur voru tæpar 2,6 milljónir. Íslendingar virðast vera töluvert duglegri að ferðast innanlands en þeir voru fyrir faraldur, en fjölgun gistinótta frá því fyrir faraldur er að mestu vegna fleiri gistinótta Íslendinga. Fjöldi gistinótta útlendinga er hins vegar mjög sambærilegur fjöldanum fyrir faraldur.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% milli mánaða í júní og við það lækkaði ársverðbólgan úr 9,5% í 8,9%, eins og við spáðum. Þó ársverðbólgan hafi verið sú sama og við spáðum var þróun ýmissa undirliða önnur en við gerðum ráð fyrir. Liðirnir reiknuð húsaleiga, húsgögn og heimilisbúnaður, tómstundir og menning, og hótel og veitingastaðir hækkuðu meira en við spáðum, en á hækkuðu flugfargjöld til útlanda mun minna en við bjuggumst við. Framlag innfluttra vara, bensíns, innlendra vara og húsnæðis til ársverðbólgu lækkaði milli mánaða, en framlag þjónustu jókst.
- Hagdeild HMS birtu mánaðarskýrslu.
- Hagstofan birti þjóðhagsspá að sumri.
- Hagar og Ölgerðin birtu árshlutauppgjör.
- Seðlabankinn birti samkomulag við Íslandsbanka um að ljúka með sátt í máli vegna brota Íslandsbanka við sölumeðferð á eignarhluta ríkisins í bankanum. Í kjölfarið þá tilkynnti Kvika um slit á samrunaviðræðum við Íslandsbanka og bankastjóri Íslandsbanka óskaði eftir að láta af störfum.
- Alvotech tilkynnti til kauphallarinnar að lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hafi ákveðið að afgreiða ekki umsókn félagsins um markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir líftæknilyfjahliðstæðuna AVT02.
- Lánamál ríkisins luku útboði ríkisvíxla, Arion banki lauk útboði á nýjum flokki sértryggðra skuldabréfa, Iceland Sefood lauk útboði á víxlum. Lánamál ríkisins birtu ársfjórðungsáætlun.