Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Hagstofan þjóðhagsreikninga fyrir 3. ársfjórðung og fjölda gistinótta í október.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn greiðslujöfnuð fyrir 3. ársfjórðung, erlenda stöðu þjóðarbúsins og fundargerð peningastefnunefndar.
Mynd vikunnar
Verðbólga mældist 4,8% í nóvember. Ef við skoðum aðeins stærstu útgjaldaliði í vísitölunni sést að húsnæðiskostnaður útskýrir rúmlega helming verðbólgunnar, eða um 2,7 prósentustig af 4,8% (55%). Þar af útskýrir kostnaður við að búa í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga), sem er reiknuð út frá fasteignaverði og vaxtakjörum á fasteignalánum, tæplega helming, eða 2,1 prósentustig (45%). Bensín skýrir síðan 0,7 prósentustig (15%) en allir aðrir kostnaðarliðir sem eftir eru skýra síðan um 1,4 prósentustig (30%).
Efnahagsmál
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,35% milli mánaða í nóvember og mælist verðbólga nú 4,8% í samanburði við 4,5% í október. Þetta var aðeins minni hækkun en búist var við, en við höfðum spáð +0,5% milli mánaða. Mest áhrif til hækkunar hafði kostnaður við að búa í eigin húsnæði, sem hækkaði um 1,1% milli mánaða, og bensín og olíur, sem hækkaði um 1,9%.
- Afgangur mældist á vöru- og þjónustujöfnuði á 3. ársfjórðungi. Afgangurinn nam 12,9 mö. kr. samanborið við 12,2 ma. kr. halla á sama tímabili í fyrra. Viðsnúningurinn nam því 25 mö. kr. sem skýrist að miklu leyti af því að þjónustuútflutningur jókst um 70 ma. kr. milli ára.
- Launavísitalan hækkaði um 0,5% milli mánaða í október. Hækkunin var óvenju mikil miðað við að lítið ætti að vera að gerast í þessum efnum samkvæmt kjarasamningum. Síðustu tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,6% og kaupmáttur launa um 2,9%.
- Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands bendir til þess að vinnumarkaðurinn sé óðum að ná fyrri styrk. Hlutfall starfandi í október var 74,7% og hækkaði um 5,7 prósentustig milli ára. Atvinnuleysi var 5,5% í október sem er 3,2 prósentustigum lægra en á sama tíma í fyrra.
- Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins.
- Seðlabankinn birti í síðustu viku talnaefni um bankakerfið, lánasjóði ríkisins, önnur fjármálafyrirtæki, verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóði og útboð verðbréfa.
- Þjóðskrá birti tölur um veltu á fasteignamarkaði og viðskipti um atvinnuhúsnæði í október.
Fjármálamarkaðir
- Síldarvinnslan birti uppgjör í síðustu viku.
- Sýn tilkynnti að Samkeppniseftirlitið hafi samþykkt sölu félagsins á óvirkum farsímainnviðum.
- Hagar birtu uppfærða afkomuspá fyrir rekstrarárið 2021/22.
- Eik tilkynnti um breytingu á arðgreiðslustefnu.
- Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í máli Glitnis og Orkuveitu Reykjavíkur.
- Alma íbúðafélag stækkaði áður útgefinn skuldabréfaflokk og Iceland Seafood lauk víxlaútboði.