Vikan framundan
- Í dag birtir Hagstofan launavísitölu í apríl ásamt tengdum vísitölum.
- Almennt útboð á hlutabréfum Ölgerðarinnar hefst í dag og lýkur á föstudaginn.
- Á þriðjudaginn birtir PLAY ársfjórðungsuppgjör.
- Á miðvikudag gefur Hagstofan út tölur um vöru- og þjónustuviðskipti á fyrsta ársfjórðungi og niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn sinni fyrir apríl. Sama dag birta Brim og Síldarvinnslan ársfjórðungsuppgjör.
Mynd vikunnar
Síðasta fimmtudag birti Hagfræðideild Landsbankans hagspá fyrir árin 2022-2024. Efnahagsbatinn sem hófst í fyrra heldur áfram á þessu ári og gerum við ráð fyrir myndarlegum hagvexti í ár og áfram út spátímann. Ýmsar áskoranir fylgja þó hagvaxtarskeiði sem þessu. Verðbólguhorfur bæði innanlands og erlendis hafa gjörbreyst til hins verra frá því við birtum spá okkar í október. Verðbólga í helstu viðskiptalöndum Íslands hefur ekki mælst hærri í 40 ár. Hér á landi þarf að fara 12 ár aftur í tímann til að finna hærri verðbólgu en þá var verðbólguskot hrunsins að fjara út. Það sem skýrir hærri verðbólgu eru miklar verðlagshækkanir erlendis sem fyrst og fremst má rekja til hækkunar á hrávöruverði sem stríðið í Úkraínu hefur kynt undir. Þessu til viðbótar hafa verðhækkanir á húsnæði hér á landi verið mun meiri en reiknað var með í flestum spám.
Efnahagsmál
- Hagfræðideild Landsbankans birti þjóðhags- og verðbólguspá fyrir árin 2022-2024. Við gerum ráð fyrir að landsframleiðslan hér á landi aukist um 5,1% á árinu 2022, að verðbólgan nái hámarki á þriðja ársfjórðungi í 8,4% og að 1,5 milljónir erlendra ferðamanna heimsæki Ísland í ár.
- Ekkert lát er á hækkunum íbúðaverðs sem hækkaði um 2,7% milli mars og apríl, samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands. Hækkunin var meiri en gert var ráð fyrir sem gerir það að verkum að verðbólguspá okkar fyrir maí hækkar úr 7,6% í 7,7%. Auk þess hækkaði vísitala leiguverðs um 2,1% í apríl sem er talsvert mikil hækkun samanborið við hækkanir síðustu mánaða.
- Seðlabankinn birti fundargerð peningastefnunefndar. Samkvæmt fundargerðinni voru allir nefndarmenn þeirrar skoðunar að hækka þyrfti vexti bankans og var rætt um hækkun á bilinu 0,75-1 prósentustig.
Fjármálamarkaðir
- Reitir og Iceland Seafood birtu árshlutauppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung.
- Landsbankinn lauk útboði sértryggðra skuldabréfa og Lánamál ríkisins luku útboði ríkisbréfa.
- Landsvirkjun birti uppgjör fyrsta ársfjórðungs.