Vikubyrjun 20. mars 2023
Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir HMS vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Íslands. Við búumst við 0,75 prósentustiga hækkun. Þennan dag er einnig vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Bandaríkjanna.
Mynd vikunnar
Í nýjasta riti Seðlabanka Íslands, Fjármálastöðugleika, er meðal annars greining á greiðslubyrði fasteignalána heimila með sérstakri áherslu á heimili sem tóku fasteignalán frá byrjun árs 2020. Tæplega helmingur slíkra heimila er með heildargreiðslubyrði húsnæðislána undir 150 þúsund krónum á mánuði og rúmlega 75% eru með greiðslubyrði undir 200 þúsundum.
Þrátt fyrir vaxtahækkanir eru um 55% þessara heimila annað hvort með minni greiðslubyrði en þegar þau tóku lánið eða greiðslubyrði þeirra hefur aukist um minna en 10 þúsund krónur. 85% þeirra heimila sem tóku fasteignalán frá byrjun árs 2020 eru annað hvort með minni greiðslubyrði en þegar þau tóku lánið eða innan við 50 þúsund krónur á mánuði aukna greiðslubyrði. Um 4% heimila hafa séð greiðslubyrði lánanna hækka um meira en 100 þúsund krónur.
Helsta frá vikunni sem leið
- Seðlabankinn birti yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og ritið Fjármálastöðugleika. Að mati nefndarinnar stendur fjármálakerfið traustum fótum, en fjármálaskilyrði heimila og fyrirtækja hafa versnað. Nefndin ákvað að hækka sveiflujöfnunarauka á viðskiptabankana úr 2% í 2,5%.
- Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna marsmælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana þriðjudaginn 28. mars. Við eigum von á að vísitalan hækki um 0,61% milli mánaða og að verðbólgan lækki úr 10,2% í 9,8%. Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir að verðbólga hjaðni, þótt það gerist hægt, og að hún mælist enn yfir 8% í sumar.
- RSV birti tölur um heildargreiðslukortaveltu hérlendis og Seðlabankinn birti sömuleiðis tölur um veltu greiðslukorta hérlendis og erlendis. Tölurnar benda til þess að enn sé mjög mikill kraftur í einkaneyslunni, en kortavelta heimila jókst um 7,7% að raunvirði milli ára í febrúar. Innanlands jókst hún um tæp 3% og rúm 30% erlendis miðað við fast verðlag og gengi.
- Erlendis bárust verðbólgutölur frá Bandaríkjunum, en ársverðbólgan þar lækkaði úr 6,4% í 6,0%. Seðlabanki Evrópu hækkaði vexti um 0,5 prósentustig.
- Ölgerðin birti afkomuviðvörun.
- Arion banki gaf út skuldabréf í norskum krónum, Íslandsbanki hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum, Lánasjóður sveitarfélaga lauk skuldabréfaútboði og Landsbankinn lauk útboði víkjandi skuldabréfa.