Vikubyrjun 12. desember 2021
Vikan framundan
Á miðvikudag birtir Seðlabankinn yfirlýsingu fjármálastöðuleikanefndar og útreikning á raungenginu í nóvember.
Á föstudag birtir Ferðamálastofa talningu á fjölda ferðamanna um Leifsstöð í nóvember og Vinnumálastofnun birtir tölur um skráð atvinnuleysi í nóvember.
Í vikunni fara fram verðmælingar vegna desembermælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana þriðjudaginn 21. desember.
Mynd vikunnar
Viðbrögð stjórnvalda gagnvart efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins hafa skilað góðum árangri og átt ríkan þátt í að stýra hagkerfinu í gegnum einn dýpsta efnahagssamdrátt sögunnar. Þetta hefur ekki verið ókeypis, en ríkissjóður hefur skuldsett sig til þess að fjármagna tímabundinn hallarekstur í gegnum faraldurinn. Þannig voru skuldir ríkissjóðs í lok árs 2019, áður en faraldurinn skall á, um 20% af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt fjármálastefnu 2022-2026 er útlit fyrir að skuldir ríkissjóðs verði um 40% af VLF í lok árs 2026. Gangi það eftir munu skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af VLF hafa tvöfaldast.
Efnahagsmál
Samkvæmt fyrsta mati Hagstofu Íslands mældist 6,0% hagvöxtur á 3. ársfjórðungi og 4,1% hagvöxtur á fyrstu níu mánuði ársins. Hagvöxturinn á þriðja fjórðungi var mjög kröftugur, sérstaklega í einkaneyslu, atvinnuvegafjárfestingu og útflutningi. Það skýrist að umtalsverðu leyti af grunnáhrifum vegna samdráttar á þriðja fjórðungi í fyrra.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður ríkissjóður rekinn með 169 ma. kr. halla á næsta ári. Til samanburðar stefnir í að hallinn í ár verði 288 ma. kr. og batnar því afkoma ríkissjóðs um 120 ma. kr. milli ára.
Á þriðja ársfjórðungi mældist 13,1 ma.kr. afgangur af viðskiptum við útlönd. Þetta er 12,5 ma.kr. betri niðurstaða en á sama ársfjórðungi árið áður og 50 ma. kr. betri niðurstaða en á næsta fjórðungi á undan. Hrein staða við útlönd var um 1.294 ma.kr. (44% af VLF) í lok fjórðungsins og batnaði um 175 ma.kr. (5,6% af VLF) á fjórðungnum.
Allir fimm nefndarmenn peningastefnunefndar voru sammála um að hækka vexti bankans um 0,5 prósentustig á fundi nefndarinnar um miðjan nóvember. Allir nefndarmenn voru þeirrar skoðunar að hækka þyrfti vexti bankans og var rætt um hækkun á bilinu 0,25-0,75 prósentustig.
Greiddar gistinætur í október voru 550 þúsund, sem eru um 16% færri en í október 2019 áður en heimsfaraldurinn skall á. Um 27% gistinótta í október voru Íslendingar og 73% útlendingar.
Hagstofan spáir 5,3% hagvexti á næsta ári. Þetta er mjög svipað og við eigum von á, en við spáum 5,5% hagvexti á næsta ári.
Hagstofan birti einnig losun koltvísýrings á 3. ársfjórðungi, tilraunatölfræði um launasummu í september, vöruskipti í október og aflaverðmæti á 3. ársfjórðungi.
Fjármálamarkaðir
Lánamál ríkisins luku útboði ríkisvíxla, Félagsbústaðir stækkuðu áður útgefinn skuldabréfaflokk og Íslandsbanki lauk útboði á sértryggðum skuldabréfum.
Icelandair gekk frá sölu á Iceland Travel.
Marel hélt fjárfestafund um stafrænar lausnir félagsins.
Reginn og Hagar undirrituðu samning um kaup á nýju hlutafé í Klasa ehf.