Verðbólga byrjuð að hjaðna
Mest áhrif til hækkunar verðlags milli mánaða hafði reiknuð húsaleiga (0,9% milli mánaða, 0,17% áhrif). Mest áhrif til lækkunar milli mánaða höfðu flugfargjöld til útlanda (-8,7% milli mánaða, -0,22% áhrif) og dælueldsneyti (-3,9% milli mánaða, -0,16% áhrif).
Aðeins minni hækkun en við áttum von á
Þetta var aðeins minni hækkun en við áttum von á, en við spáðum 0,4% hækkun milli mánaða. Að þessu sinni er enginn einn liður sem skýrir megnið af spáskekkjunni. Flugfargjöld til útlanda lækka alla jafna milli mánaða í ágúst, en lækkunin núna var aðeins meiri en við áttum von á. Föt og skór hækkuðu aðeins minna en við áttum von á, sem skýrist af því að sumarútsölurnar hafa teygt sig lengra inn í ágúst en við reiknuðum með. Verð á nýjum bílum var óbreytt en við áttum von á smávægilegri hækkun. Reiknuð húsaleiga hækkaði aðeins minna en við áttum von á. Framlag vaxtabreytinga til lækkunar var meira en við reiknuðum með á meðan hækkunin á markaðsverði húsnæðis var svipuð og við höfðum spáð. Að lokum var breytingin milli mánaða á dæluverði á eldsneyti í samræmi við verðkönnun okkar.
Framlag þjónustu og dælueldsneytis til ársverðbólgu lækkaði milli mánaða
Ef við skoðum verðbólgu eftir eðli og uppruna sést að 41% af 12 mánaða verðbólgu í ágúst skýrist af húsnæði, 23% af þjónustu og 35% vörum. Framlag vöruverðs skiptist nokkuð jafnt á milli innlendra vara, dælueldsneytis og innfluttra vara án dælueldsneytis. Ársverðbólgan lækkaði um 0,2 prósentustig milli mánaða í ágúst. Framlag þjónustu og framlag dælueldsneytis lækkaði milli mánaða, framlag innfluttra vara án bensíns hækkaði milli mánaða og óveruleg breyting var á framlagi húsnæðis og innlendra vara.
Húsnæði, eldsneyti og flugfargjöld skýra 60% af ársverðbólgunni
Vísitölu neysluverðs er ætlað að mæla verðþróun á neyslu meðalheimilis og samanstendur af útgjaldaliðum dæmigerðs heimilis. Mesta niðurbrot sem Hagstofan birtir á vísitölu neysluverðs eru 169 undirliðir. Þrátt fyrir að verðbólgan sé 9,7% hafa 82% undirliða hækkað minna en 9,7% á síðustu 12 mánuðum. Sex undirliðir (4% undirliða) hafa hins vegar hækkað meira en 20% síðustu tólf mánuði og vega þeir nokkuð þungt. Meðal þessara sex undirliða eru fjórir afar stórir stórir: reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda, bensín 95 okt og díselolía. Þessir fjórir undirliðir skýra 60% af ársverðbólgunni, eða 6,0 prósentustig af 9,7% ársverðbólgu.
Teljum að verðbólgan hafi náð hámarki
Þrátt fyrir að ágústmælingin hafi verið aðeins lægri en við áttum von er spá okkar, um 9,5% verðbólgu í september, óbreytt. Skýrist það af tvennu. Í fyrsta lagi hefur krónan veikst aðeins síðan við birtum síðustu spá. Í öðru lagi skýrist hluti af muninum á spá okkar og mælingunni sem kom í morgun af því að sumarútsölurnar teygðu sig lengra inn í ágúst en við áttum von á. Við reiknum því með að hækkunin sem við áttum von á að kæmi fram á fötum og skóm í ágúst komi í staðinn fram í september.
Við teljum að verðbólgan hafi náð hámarki í júlí og að framundan sé mjög hæg hjöðnun næstu mánuði. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólgan fara undir 9% í nóvember á þessu ár.
Skammtíma verðbólguspár Hagfræðideildar
Dags | júl. 2022 | ágú. 2022 | sep. 2022 | okt. 2022 | nóv. 2022 | |
13. júl | Verðkönnunarvika | 9,2% | 9,5% | 9,0% | 8,6% | |
19. júl | Birting vísitölu íbúðaverðs | 9,3% | 9,7% | 9,3% | 8,8% | |
22. júl | Birting vísitölu neysluverðs | 9,9% | 10,3% | 9,9% | 9,4% | |
18. ágú | Verðkönnunarvika | 9,9% | 9,9% | 9,5% | 9,2% | 8,8% |
30. ágú | Birting vísitölu neysluverðs | 9,9% | 9,7% | 9,5% | 9,2% | 8,8% |
Rauntölur eru feitletraðar