Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 2,5% milli janúar og febrúar. Þetta er mesta hækkun sem hefur sést frá því í apríl í fyrra og talsvert meiri hækkun en í janúar þegar íbúðaverð hækkaði um 1,7%, sem þótti einnig mikil hækkun.
Fjölbýli hækkaði um 2,4% milli mánaða og sérbýli um 2,7%. 12 mánaða hækkun fjölbýlis mælist nú 21,4% og sérbýlis 26,8%, en vegin hækkun íbúðarhúsnæðis alls mælist 22,5%. 12 mánaða vegin árshækkun er nú komin á svipaðan stað og þegar mest lét árið 2017. 12 mánaða hækkun sérbýlis hefur aftur á móti ekki verið meiri síðan í febrúar 2006 þegar hækkunin mældist 32%.
Almennt verðlag án húsnæðiskostnaðar hækkaði um 1,26% milli mánaða í febrúar og hækkaði raunverð íbúða, þ.e. verð á íbúðum umfram annað almennt verðlag, um 1,2% milli mánaða. Þetta er örlítið minni hækkun en mældist milli mánaða í janúar (1,5%) en engu að síður talsverð. Verðbólga hefur aukist mikið síðustu mánuði og er það ekki eingöngu vegna hækkandi húsnæðisverðs, heldur hækka nú allir undirliðir hennar með þeim afleiðingum að raunhækkun íbúðaverðs er minni en ella.