Spáum að verðbólga lækki í 9,6% í febrúar

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% milli mánaða í janúar og jókst ársverðbólgan úr 9,6% í 9,9%. Þetta er sama verðbólga og í júlí í fyrra, en það var áður hæsta gildið í núverandi verðbólgukúf. Óhætt er að segja að mælingin hafi komið okkur á óvart, en við áttum von á að verðbólgan myndi lækka út 9,6% í 9,4%. Langmestu munar um að verð á nýjum bílum hækkaði mun meira en við bjuggumst við.
Eigum von á að vísitalan hækki um 0,88% milli mánaða í febrúar og ársverðbólgan lækki úr 9,9% í 9,6%
Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,88% milli mánaða í febrúar. Gangi sú spá eftir mun ársverðbólgan lækka úr 9,9% í 9,6%. Það kann að skjóta skökku við að ársverðbólga lækki þrátt fyrir að vísitalan hækki verulega milli mánaða. Skýrist það af því að vísitalan hækkaði óvenju mikið milli mánaða í febrúar í fyrra, eða um 1,16%, og nú dettur sú mæling út úr ársverðbólgunni. Við erum því að miða við mun hærra upphafsgildi þegar við reiknum ársbreytinguna heldur en við gerðum í janúar.
Að þessu sinni eru það fimm undirliðir sem hafa mest áhrif á verðbólgu: Matarkarfan, reiknuð húsaleiga, föt og skór, og húsgögn, heimilisbúnaður, o.fl. vega til hækkunar á meðan flugfargjöld til útlanda vega til lækkunar, gangi spá okkar eftir.
Matarkarfan hækkar
Matarkarfan hækkaði um 2,0% í janúar. Mestu munaði um mikla hækkun á mjólk og mjólkurvörum, en verðlagsnefnd búvara tilkynnti um hækkun á verði mjólkur til bænda í janúar. Án þessa hækkana hefði matarkarfan engu að síður hækkað um 1,2%. Verðhækkanir í matarkörfunni virðast því vera nokkuð almennar. Við eigum von á að matarkarfan í heild hækki um 1,2% milli mánaða núna í febrúar og að áhrif þess á vísitöluna verði 0,18 prósentur til hækkunar.
Útsölulok lita febrúarmælinguna venju samkvæmt
Á tímum faraldursins voru bæði júlí- og janúarútsölurnar nokkuð slakar. Líkleg skýring var aukin verslun Íslendinga innanlands á meðan utanlandsferðir voru fátíðar. Núna í janúar lækkuðu föt og skór um 8,4% og húsgögn og heimilisbúnaður um 5,5%, sem er mjög svipað og sást fyrir faraldur. Við eigum því von á að útsölulok verði einnig svipuð og fyrir faraldur. Munurinn á útsölulokum á fötum og skóm annars vegar og húsgögnum og heimilisbúnaði hins vegar er að útsölurnar á fötum og skóm eiga það til að dragast inn í febrúar, þ.e. ganga ekki að fullu til baka fyrr en í mars, á meðan útsölur á húsgögnum og heimilisbúnaði virðast oft hafa klárast í janúar. Við eigum því von á að föt og skór hækki um 3,4% í febrúar og 5,5% í mars en húsgögn og heimilisbúnaður og fl. hækki um 5,1% í febrúar og svo verði óveruleg breyting í mars. Alls eru áhrif útsöluloka í febrúar því 0,41 prósentur til hækkunar á vísitölunni í febrúar.
Flugfargjöld til útlandi lækka líklega
Flugfargjöld til útlanda hafa mestu áhrifin á ferðaliðinn, gangi spá okkar eftir. Flugfargjöld til útlanda lækka að jafnaði milli mánaða í febrúar, og gerum við ráð fyrir að svo verði líka núna. Við gerum ráð fyrir að þau lækki um 8,6% og áhrif þess verði 0,14 prósentur til lækkunar. Verðkönnun okkar bendir til þess að verð á 95 okt. bensín verði óbreytt milli mánaða, en díselolía hækki um 1,2%. Alls þýðir það að bensín og díselolía hækki um 0,3% milli mánaða. Eftir um 10% hækkun á verði á nýjum bílum í janúar gerum við ráð fyrir óbreyttu verði núna í febrúar.
Spá um febrúarmælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting | Áhrif |
Matur og drykkjarvara | 15,30% | 1,20% | 0,18% |
Áfengi og tóbak | 2,50% | 0,50% | 0,01% |
Föt og skór | 3,10% | 3,40% | 0,11% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 10,40% | 0,90% | 0,09% |
Reiknuð húsaleiga | 19,90% | 0,50% | 0,11% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 6,00% | 5,10% | 0,31% |
Heilsa | 3,70% | 0,60% | 0,02% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,90% | 0,00% | 0,00% |
Kaup ökutækja | 6,30% | 0,00% | 0,00% |
Bensín og díselolía | 3,80% | 0,30% | 0,01% |
Flugfargjöld til útlanda | 1,70% | -8,60% | -0,14% |
Póstur og sími | 1,50% | 0,50% | 0,01% |
Tómstundir og menning | 9,20% | 1,00% | 0,09% |
Menntun | 0,70% | 0,00% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 4,90% | 0,70% | 0,03% |
Aðrar vörur og þjónusta | 7,00% | 0,70% | 0,05% |
Alls | 100,0% | 0,88% |
Verðbólguhorfurnar aðeins verri, en eigum samt von á hjöðnun
Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir örlítið meiri verðbólgu en síðasta spá sem við birtum í lok janúar. Skýrist munurinn aðallega af því að við gerum núna ráð fyrir nokkuð hærra matvælaverði heldur en í janúar. Við eigum von á að vísitalan hækki um 0,58% milli mánaða í mars, 0,77% í apríl og 0,30% í maí. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólgan lækka niður í 9,3% í mars, 8,7% í apríl og 8,2% í maí.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








