Spáum að verðbólga lækki í 9,5% í apríl
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,59% milli mánaða í mars sem var aðeins minna en við höfðum spáð. Ársverðbólga dróst saman, úr 10,2% í 9,8%. Smávægileg breyting varð á samsetningu verðbólgunnar milli mánaða í mars, en framlag bensíns og húsnæðis lækkaði á meðan framlag þjónustu hækkaði.
Vísitalan hækki um 1% milli mánaða og ársverðbólga lækki í 9,5%
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 1% milli mánaða í apríl. Gangi sú spá eftir mun ársverðbólga lækka úr 9,8% í 9,5%. Að þessu sinni eru það sex undirliðir sem hafa mest áhrif: Matarkarfan, reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda og liðurinn „húsgögn, heimilisbúnaður o.fl.“ til hækkunar en verð á nýjum bílum og dælueldsneyti til lækkunnar.
Matarkarfan hækkar
Verðlagsnefnd búvara tilkynnti í lok mars um hækkun heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða, en sú hækkun tók gildi 1. apríl. Samkvæmt verðkönnun okkar hækkaði verð á mjólk og mjólkurafurðum um 5,5% milli verðkönnunarvikna og eru áhrif þess á matarkörfuna 1,1 prósentustig til hækkunar. Auk þess virðast brauð og kornmeti, kjöt, fiskur og kaffi hafa hækkað nokkuð milli mánaða samkvæmt okkar athugun og gerum við ráð fyrir að heildarhækkun á mat og drykkjarvöru verði 2% núna í apríl.
Verðlækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði gengur til baka
Liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækkaði um 1,7% milli mánaða í mars. Þetta er sá liður sem kom okkur mest á óvart í marsmælingunni. Mesta lækkunin var á sængurfatnaði og handklæðum sem lækkuðu um 10,3% milli mánaða, sem útskýrist líklega af tilboðum sem voru í verðsöfnunarvikunni. Við teljum að þessi áhrif gangi nú til baka og að liðurinn hækki um 1,5% milli mánaða (0,09% áhrif á VNV) í apríl.
Bensín og nýir bílar lækka, flugfargjöld hækka
Verðkönnun okkar bendir til þess að verð á bensíni og díselolíu lækki um 1,9% milli mánaða í apríl (-0,07% áhrif til lækkunar á vístölunni) en tilkynnt hefur verið um verðlækkun á nýjum bílum í einstaka tilfellum og gerum við því ráð fyrir að liðurinn kaup ökutækja lækki um 3% milli mánaða (-0,19% áhrif til lækkunar). Flugfargjöld til útlanda hækka venjulega í kringum páska og við spáum 16% hækkun milli mánaða (0,28% áhrif til hækkunar). Alls gerum við ráð fyrir að liðurinn ferðir og flutningar verði 0,03% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Þó er gott að hafa í huga að þessir liðir, og þá sérstaklega flugfargjöld til útlanda, sveiflast mjög mikið milli mánaða.
Óvenju mikil hækkun íbúðaverðs hefur áhrif
Samkvæmt nýútgefnum tölum HMS hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 1,5% á milli mánaða í mars. Það er óvenjumikil breyting miðað við síðustu mánuði, eða mesta hækkun síðan í júní í fyrra og mun að líkindum hafa áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs.
Reiknaður kostnaður þess að búa í eigin húsnæði, þ.e. reiknuð húsaleiga, sem er sá liður sem Hagstofan mælir, samanstendur af íbúðaverði á landinu öllu, afskriftum ásamt framlagi vaxtabreytinga. Við spáum því að hækkun íbúðaverðs á landinu öllu eins og hún birtist í reiknaðri húsaleigu verði um 1,2% á milli mánaða og að áhrif vaxta verði 0,9 prósentustig til hækkunar. Liðurinn hækki því um 2,1%, sem yrði mikil breyting frá síðasta mánuði þegar liðurinn í heild hækkaði um 0,8%, en þar af voru áhrif vaxta 0,7 prósentustig og hækkun húsnæðisverðs 0,1 prósentustig.
Spá um aprílmælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 15,40% | 2,00% | 0,31% |
Áfengi og tóbak | 2,50% | 0,20% | 0,00% |
Föt og skór | 3,40% | 0,20% | 0,01% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 10,30% | 0,40% | 0,04% |
- Reiknuð húsaleiga | 19,70% | 2,10% | 0,41% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 6,30% | 1,50% | 0,09% |
Heilsa | 3,70% | 0,70% | 0,02% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,90% | 0,00% | 0,00% |
- Kaup ökutækja | 6,20% | -3,00% | -0,19% |
- Bensín og díselolía | 3,60% | -1,90% | -0,07% |
- Flugfargjöld til útlanda | 1,80% | 16,00% | 0,28% |
Póstur og sími | 1,50% | -0,60% | -0,01% |
Tómstundir og menning | 9,10% | 0,10% | 0,01% |
Menntun | 0,70% | 0,00% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 5,00% | 0,60% | 0,03% |
Aðrar vörur og þjónusta | 6,90% | 0,70% | 0,05% |
Alls | 100,0% | 1,00% |
Verðbólga undir 8% í júlí
Spá okkar um 9,5% verðbólgu í apríl er óbreytt frá síðustu spá sem við birtum í lok mars. Samsetning hækkunarinnar breytist aðeins á milli spáa. Við eigum núna von á meiri hækkun á mat og drykkjarvöru og reiknaðri húsaleigu en aftur á móti lækkun á verði nýrra bíla og dælueldsneyti. Spá okkar til næstu tveggja mánaða er lítillega hærri en síðasta spá og spilar þar inn í hærra verð á íbúðarhúsnæði. Við gerum núna ráð fyrir 9,2% verðbólgu maí, 8,6% í júní og 7,7% í júlí.