Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli sitt í maí á síðasta ári og tók óvenjustór skref nú í maí og júní síðastliðnum þegar peningastefnunefnd hækkaði stýrivextina um 1 prósentustig í hvort skiptið. Stýrivextir er nú 4,75%, 4 prósentustigum frá sögulegu lágmarki þeirra í maí á síðasta ári. Ljóst er að vaxtahækkunarferlinu er ekki lokið og mun Seðlabankinn enn þurfa að herða nafnaðhaldið með hækkunum vaxta til þess að draga úr eftirspurn og með því móti draga úr verðbólgu. Að öllum líkindum mun Seðlabankinn halda áfram að hækka vexti fram til áramóta. Fyrir utan ágústfundinn eru vaxtaákvarðanir ráðgerðar í október og nóvember.
Verðbólguspáin líklega hækkuð
Að þessu sinni hefur nefndin uppfærða verðbólgu- og þjóðhagsspá til að styðjast við en slíkt eykur jafnan óvissuna um ákvörðun nefndarinnar hverju sinni. Verðbólguspá Seðlabankans frá því í maí gerði ráð fyrir að verðbólga yrði 7,5% á öðrum fjórðungi. Raunin varð 7,9%. Spáin þá gerði ráð fyrir að verðbólga yrði 8,1% á þriðja fjórðungi og 8% á fjórða ársfjórðungi. Við teljum að nefndin muni styðja sig við nýja spá sem sýni meiri verðbólgu en spáin frá því í maí. Við spáum því að verðbólga verði 9,8% á þriðja fjórðungi og 8,9% á fjórða fjórðungi. Hækki Seðlabankinn spá sína ætti það að leiða til hærri vaxtahækkunar en ella.
Spá um hagvöxt líklega hækkuð einnig
Líklegt er að spá Seðlabankans um hagvöxt á þessu ári verði einnig hækkuð. Meiri hagvöxtur ætti síðan aftur að kalla á meiri framleiðsluspennu að öðru óbreyttu og þar með á hertara aðhald. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið mikill nú í sumar og var fjöldi ferðamanna nú í júlí þegar orðinn meiri en í sama mánuði 2019, síðasta árið fyrir faraldur. Miðað við flugframboð næstu mánuði má ætla að fjöldi ferðamanna verði svipaður og í sömu mánuðum 2019. Gangi það eftir mun fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland verða í kringum 1,7 milljónir í ár. Seðlabankinn gerði ráð fyrir 1,4 milljónum ferðamanna í síðustu spá sinni og má gera ráð fyrir að sú spá verði hækkuð að þessu sinni.
Er að hægja á fasteignamarkaðnum?
Fasteignaverð hefur verið megindrifkraftur verðbólgu hér á landi að undanförnu. Nú eru komnar fram sterkar vísbendingar um að farið sé að hægja verulega á miklum verðhækkunum á þeim markaði. Þjóðskrá birti í fyrradag vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem sýndi 1,1% hækkun í júlímánuði miðað við mánuðinn á undan. Þetta er minnsta hækkunin síðan í nóvember á síðasta ári. Það að hægi á verðhækkunum á fasteignamarkaði mun styðja við hjöðnun verðbólgunnar. Það er hins vegar ólíklegt að fasteignaverð muni almennt lækka eða hækka minna en sem nemur verðbólgumarkmiðinu. Fasteignamarkaðurinn mun því áfram hafa þau áhrif að halda verðbólgu yfir verðbólgumarkmiðinu. Verði aftur á móti lækkanir á fasteignamarkaði eða mun minni hækkanir en verðbólgumarkmiðið mun það styðja betur við hjöðnun verðbólgunnar og minnka vanda peningastefnunefndar.
Íslenski Seðlabankinn í annarri stöðu en flestir aðrir seðlabankar
Heimshagkerfið gengur í gegnum mjög óvenjulega tíma um þessar mundir. Verðbólga er í áratugahámarki í flestum viðskiptalöndum Íslands og mikil óvissa um hvenær og hversu mikið þurfi til, í formi vaxtahækkana, til að ná henni aftur niður í markmið. Á sama tíma er eftirspurn fremur lítil og hagvaxtarhorfur ekki góðar. Nokkrar líkur eru því taldar á kreppuverðbólgu (e. stagflation) sem einkennist af óðaverðbólgu á sama tíma og hagkerfi dragast saman. Seðlabankar viðskiptalandanna eru flestir í þeirri stöðu að þurfa að hækka vextina nægilega mikið til þess að hemja verðbólgu án þess að keyra hagkerfin áfram niður á við. Allt önnur staða blasir við hér á landi þar sem hjól efnahagslífsins eru farin að snúast hratt eftir faraldur. Framleiðsluspenna hefur myndast í hagkerfinu og skortur á starfsfólki hefur ekki verið jafn mikill síðan 2007. Líklegt er að áframhaldandi uppgangur ferðaþjónustunnar muni skapa enn meiri skort á vinnuafli a.m.k. til skemmri tíma litið. Hagvaxtahorfur fyrir næsta ár eru einnig góðar.
0,75 prósentustiga hækkun líklegust
Við teljum líklegast að nefndin muni ræða vaxtahækkun á bilinu 0,5-1,0 prósentustig og er nær öruggt að vaxtahækkunin verði á því bili. 1 prósentustiga hækkun er ólíkleg en þó alls ekki útilokuð. 0,5 prósentustiga hækkun væri í ósamræmi við verðbólguþróun á síðustu mánuðum, síðustu verðbólguspár Seðlabankans og yfirlýsingar peningastefnunefndar frá því í vor. Líklegast er því að 0,75 prósentustiga hækkun verði ofan á.
Vaxtaákvarðanir PSN
Dags. | Lagt til | Atkvæði með | Atkvæði móti | Kosið annað | Niðurst. | Meginv. |
---|---|---|---|---|---|---|
3.2.2021 | óbr. | Allir | óbr. | 0,75 | ||
24.3.2021 | óbr. | Allir | óbr. | 0,75 | ||
19.5.2021 | +0,25 | Allir | GJ (+0,50) | +0,25 | 1,00 | |
25.8.2021 | +0,25 | Allir | GJ,GZ (+0,50) | +0,25 | 1,25 | |
6.10.2021 | +0,25 | ÁJ, RS, KÓ | GJ,GZ (+0,50) | +0,25 | 1,50 | |
17.11.2021 | +0,50 | Allir | +0,50 | 2,00 | ||
9.2.2022 | +0,75 | Allir | +0,75 | 2,75 | ||
4.5.2022 | +1,00 | Allir | +1,00 | 3,75 | ||
22.6.2022 | +1,00 | Allir | GZ (+1,25) | +1,00 | 4,75 | |
24.8.2022 | ||||||
5.10.2022 | ||||||
23.11.2022 |