Spá­um 0,75 pró­sentu­stiga hækk­un stýri­vaxta í ág­úst

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki vexti bankans um 0,75 prósentustig í næstu viku. Gangi spá okkar eftir fara meginvextir bankans, sjö daga bundin innlán, úr 4,75% upp í 5,5%.
Seðlabanki
18. ágúst 2022 - Greiningardeild

Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli sitt í maí á síðasta ári og tók óvenjustór skref nú í maí og júní síðastliðnum þegar peningastefnunefnd hækkaði stýrivextina um 1 prósentustig í hvort skiptið. Stýrivextir er nú 4,75%, 4 prósentustigum frá sögulegu lágmarki þeirra í maí á síðasta ári. Ljóst er að vaxtahækkunarferlinu er ekki lokið og mun Seðlabankinn enn þurfa að herða nafnaðhaldið með hækkunum vaxta til þess að draga úr eftirspurn og með því móti draga úr verðbólgu. Að öllum líkindum mun Seðlabankinn halda áfram að hækka vexti fram til áramóta. Fyrir utan ágústfundinn eru vaxtaákvarðanir ráðgerðar í október og nóvember.

Verðbólguspáin líklega hækkuð

Að þessu sinni hefur nefndin uppfærða verðbólgu- og þjóðhagsspá til að styðjast við en slíkt eykur jafnan óvissuna um ákvörðun nefndarinnar hverju sinni. Verðbólguspá Seðlabankans frá því í maí gerði ráð fyrir að verðbólga yrði 7,5% á öðrum fjórðungi. Raunin varð 7,9%. Spáin þá gerði ráð fyrir að verðbólga yrði 8,1% á þriðja fjórðungi og 8% á fjórða ársfjórðungi. Við teljum að nefndin muni styðja sig við nýja spá sem sýni meiri verðbólgu en spáin frá því í maí. Við spáum því að verðbólga verði 9,8% á þriðja fjórðungi og 8,9% á fjórða fjórðungi. Hækki Seðlabankinn spá sína ætti það að leiða til hærri vaxtahækkunar en ella.

Spá um hagvöxt líklega hækkuð einnig

Líklegt er að spá Seðlabankans um hagvöxt á þessu ári verði einnig hækkuð. Meiri hagvöxtur ætti síðan aftur að kalla á meiri framleiðsluspennu að öðru óbreyttu og þar með á hertara aðhald. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið mikill nú í sumar og var fjöldi ferðamanna nú í júlí þegar orðinn meiri en í sama mánuði 2019, síðasta árið fyrir faraldur. Miðað við flugframboð næstu mánuði má ætla að fjöldi ferðamanna verði svipaður og í sömu mánuðum 2019. Gangi það eftir mun fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland verða í kringum 1,7 milljónir í ár. Seðlabankinn gerði ráð fyrir 1,4 milljónum ferðamanna í síðustu spá sinni og má gera ráð fyrir að sú spá verði hækkuð að þessu sinni.

Er að hægja á fasteignamarkaðnum?

Fasteignaverð hefur verið megindrifkraftur verðbólgu hér á landi að undanförnu. Nú eru komnar fram sterkar vísbendingar um að farið sé að hægja verulega á miklum verðhækkunum á þeim markaði. Þjóðskrá birti í fyrradag vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem sýndi 1,1% hækkun í júlímánuði miðað við mánuðinn á undan. Þetta er minnsta hækkunin síðan í nóvember á síðasta ári. Það að hægi á verðhækkunum á fasteignamarkaði mun styðja við hjöðnun verðbólgunnar. Það er hins vegar ólíklegt að fasteignaverð muni almennt lækka eða hækka minna en sem nemur verðbólgumarkmiðinu. Fasteignamarkaðurinn mun því áfram hafa þau áhrif að halda verðbólgu yfir verðbólgumarkmiðinu. Verði aftur á móti lækkanir á fasteignamarkaði eða mun minni hækkanir en verðbólgumarkmiðið mun það styðja betur við hjöðnun verðbólgunnar og minnka vanda peningastefnunefndar.  

Íslenski Seðlabankinn í annarri stöðu en flestir aðrir seðlabankar

Heimshagkerfið gengur í gegnum mjög óvenjulega tíma um þessar mundir. Verðbólga er í áratugahámarki í flestum viðskiptalöndum Íslands og mikil óvissa um hvenær og hversu mikið þurfi til, í formi vaxtahækkana, til að ná henni aftur niður í markmið. Á sama tíma er eftirspurn fremur lítil og hagvaxtarhorfur ekki góðar. Nokkrar líkur eru því taldar á kreppuverðbólgu (e. stagflation) sem einkennist af óðaverðbólgu á sama tíma og hagkerfi dragast saman. Seðlabankar viðskiptalandanna eru flestir í þeirri stöðu að þurfa að hækka vextina nægilega mikið til þess að hemja verðbólgu án þess að keyra hagkerfin áfram niður á við. Allt önnur staða blasir við hér á landi þar sem hjól efnahagslífsins eru farin að snúast hratt eftir faraldur. Framleiðsluspenna hefur myndast í hagkerfinu og skortur á starfsfólki hefur ekki verið jafn mikill síðan 2007. Líklegt er að áframhaldandi uppgangur ferðaþjónustunnar muni skapa enn meiri skort á vinnuafli a.m.k. til skemmri tíma litið. Hagvaxtahorfur fyrir næsta ár eru einnig góðar.

0,75 prósentustiga hækkun líklegust

Við teljum líklegast að nefndin muni ræða vaxtahækkun á bilinu 0,5-1,0 prósentustig og er nær öruggt að vaxtahækkunin verði á því bili. 1 prósentustiga hækkun er ólíkleg en þó alls ekki útilokuð. 0,5 prósentustiga hækkun væri í ósamræmi við verðbólguþróun á síðustu mánuðum, síðustu verðbólguspár Seðlabankans og yfirlýsingar peningastefnunefndar frá því í vor. Líklegast er því að 0,75 prósentustiga hækkun verði ofan á.

Vaxtaákvarðanir PSN

Dags. Lagt til Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Niðurst. Meginv.
3.2.2021 óbr. Allir     óbr. 0,75
24.3.2021 óbr. Allir     óbr. 0,75
19.5.2021 +0,25 Allir   GJ (+0,50) +0,25 1,00
25.8.2021 +0,25 Allir   GJ,GZ (+0,50) +0,25 1,25
6.10.2021 +0,25 ÁJ, RS, KÓ GJ,GZ (+0,50)   +0,25 1,50
17.11.2021 +0,50 Allir     +0,50 2,00
9.2.2022 +0,75 Allir     +0,75 2,75
4.5.2022 +1,00 Allir     +1,00 3,75
22.6.2022 +1,00 Allir   GZ (+1,25) +1,00 4,75
24.8.2022            
5.10.2022            
23.11.2022            
Heimild: Seðlabanki Íslands
Fyrirvari
Innihald og form skjals þessa er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
3. feb. 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 3. febrúar 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Flutningaskip
3. feb. 2025
Aukinn halli af vöruviðskiptum í fyrra
Halli af vöruviðskiptum jókst í fyrra, en ekki með sama hraða og síðustu tvö ár þar á undan. Að það hægi á aukningunni gæti verið merki um að jafnvægi sé að aukast í hagkerfinu, en á móti kemur að innflutningsverðmæti hafa aldrei verið meiri sem gæti verið merki um aukin umsvif.
Seðlabanki Íslands
3. feb. 2025
Vikubyrjun 3. febrúar 2025
Verðbólga lækkaði á milli mánaða í janúar, úr 4,8% í 4,6%. Við eigum von á að Seðlabankinn lækki vexti um 0,5 prósentustig á miðvikudaginn. Fyrstu uppgjör fyrir árið 2024 komu í síðustu viku, en uppgjörstímabilið heldur áfram í þessari viku.
30. jan. 2025
Spáum vaxtalækkun um 0,5 prósentustig
Við spáum 0,5 prósentustiga vaxtalækkun í næstu viku. Verðbólga mældist 4,6% í janúar. Hún hjaðnaði í takt við spá okkar og hefur þokast niður um 0,5 prósentustig frá síðustu vaxtaákvörðun. Hægt hefur á íbúðaverðshækkunum og verðbólguvæntingar virðast stöðugri en áður. Laun hafa hækkað mun minna en áður og vinnumarkaður hefur leitað í eðlilegra horf.  
Fasteignir
30. jan. 2025
Verðbólga hjaðnar áfram
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,27% á milli mánaða í janúar, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 4,8% í 4,6%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði og verði 3,9% í apríl.
Íbúðahús
27. jan. 2025
Vikubyrjun 27. janúar 2025
Í vikunni birtast verðbólgutölur fyrir janúar. Við eigum von á að verðbólga hjaðni og mælist 4,6%. Í síðustu viku birtist vísitala íbúðaverðs fyrir desember sem sýndi lækkun upp á 0,6% á milli mánaða. Vísitala leiguverðs sýndi einnig lækkun á milli mánaða, um 0,9%.
Bakarí
24. jan. 2025
Stöðugri vinnumarkaður og minna skrið launahækkana
Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 6,6% árið 2024. Á síðustu mánuðum hefur hægt verulega á launahækkunum, bæði vegna minni kjarasamningsbundinna hækkana en síðustu ár og minna launaskriðs. Kaupmáttur hefur því sem næst staðið í stað og óhætt að segja að staðan á vinnumarkaði styðji nú mun betur við verðstöðugleika en áður.
20. jan. 2025
Vikubyrjun 20. janúar 2025
Kortaveltutölur sem komu í síðustu viku voru nokkuð sterkar og sýndu að kortavelta heimilanna jókst nokkuð á milli ára í desember. Það voru tvö uppgjör í síðustu viku, Hagar og Ölgerðin, en fjárhagsár þessa tveggja félaga er, ólíkt öðrum félögum í kauphöllin, ekki hið sama og almanaksárið. Í vikunni fram undan fáum við vísitölur íbúðaverðs og leiguverðs frá HMS.
20. jan. 2025
Kortavelta landsmanna í sókn allt síðasta ár
Kortavelta landsmanna var alls 4,2% meiri á síðasta ári en árið 2023 og jókst milli ára alla mánuði ársins, miðað við fast verðlag og gengi. Telja má líklegt að Seðlabankinn fylgist vel með neyslustiginu í vaxtalækkunarferlinu og reyni að koma í veg fyrir að uppsafnaðar innistæður hrúgist út í neyslu. Neysla ferðamanna hér á landi mældist aðeins 1% meiri í fyrra en árið áður sé miðað við fast verðlag.
Pund, Dalur og Evra
17. jan. 2025
Krónan styrktist á síðasta ári
Krónan styrktist á móti evru en veiktist aðeins á móti Bandaríkjadal á árinu 2024. Árið var nokkuð rólegt á millibankamarkaði með gjaldeyri þar sem velta dróst saman og minna var um flökt.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur