Atvinnuleysi dregst áfram saman og mælist nú 3,9% í maí og minnkar um 0,6 prósentustig á milli mánaða. Að meðaltali fækkaði atvinnulausum um 812 frá aprílmánuði. Vinnumálastofnun spáði í apríl 4% atvinnuleysi í maí og spáir því nú að atvinnuleysi muni halda áfram að dragast saman í júní og verða á bilinu 3,5% til 3,8%.
Eftirspurn eftir vinnuafli hefur aukist gríðarlega undanfarið ár, miðað við könnun Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands á stöðu og framtíðarhorfum 400 stærstu fyrirtækja landsins. 54% fyrirtækja segjast búa við skort á starfsfólki, samanborið við 23% í maímánuði í fyrra. Ekki hefur mælst svo mikil vöntun á starfsfólki síðan í september 2007 en það var í síðasta skiptið sem meirihluti fyrirtækja sagðist búa við skort á starfsfólki. Innflutningur á vinnuafli hefur aukist mikið og mátti rekja um helming íbúafjölgunar landsins milli ára á fyrsta ársfjórðungi til fjölgunar erlendra ríkisborgara. Mestur er skortur á starfsfólki í byggingariðnaði.