Rekstur hins opinbera áfram erfiður
Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 254 ma.kr. á árinu 2020 samanborið við rúmlega 46 ma.kr. halla árið 2019. Afkoma ríkissjóðs er sýnu verri en hjá sveitarfélögunum, eða -27,2% af tekjum samanborið við -6,8% hjá sveitarfélögunum.
Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar versnaði afkoma ríkissjóðs verulega á síðasta ári, fór úr -3,5% af tekjum árið 2019 niður í -27,2%. Afkoma sveitarfélaganna hefur hins vegar breyst minna síðustu þrjú ár, var neikvæð um tæplega 5% af tekjum 2018 og 2019 og neikvæð um 6,8% í fyrra. Tekjur ríkissjóðs á föstu verðlagi drógust saman um 9,6% milli 2019 og 2020 á meðan tekjur sveitarfélaganna jukust um 2,5% milli ára.
Þessi staða ríkissjóðs er ekki alveg ný en halli hefur verið á rekstri ríkissjóðs allt frá upphafi ársins 2019. Það sama gildir um sveitarfélögin sem heilt yfir hafa verið rekin með halla mun lengur. Halli ríkissjóðs jókst hins vegar verulega árið 2020. Hallinn á ríkissjóði á árinu 2019 var að meðaltali 3,5% af tekjum, en var svo 23,1% á fyrsta ársfjórðungi 2020 og 37,5% af tekjum á öðrum, 23,4% á þeim þriðja og 25,5% á þeim fjórða. Staða ríkissjóðs byrjaði í raun að snúast við í upphafi ársins 2019 í tengslum við aukna erfiðleika í ferðaþjónustu og gjaldþrots WOW air. Í fyrra var afkoma ríkissjóðs verst á 2. ársfjórðungi og fór batnandi eftir það. Á fyrsta ársfjórðungi í ár var hallinn um 18% af tekjum og fór svo upp í tæp 33% á öðrum ársfjórðungi.
Útgjöld ríkissjóðs og sveitarfélaganna breyttust með álíka hætti á árinu 2019, jukust um tæp 4% á föstu verðlagi. Útgjöld ríkissjóðs á föstu verðlagi jukust hins vegar um 11,5% í fyrra á meðan útgjöld sveitarfélaganna jukust um 6,8%. Það er því ljóst að veirufaraldurinn reyndist ríkissjóði mun þyngri í skauti en sveitarfélögunum. Í því sambandi má nefna að útgjöld vegna hlutabótaleiðar námu samtals um 28 mö.kr. á árinu 2020. Útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna almennra atvinnuleysisbóta jukust einnig verulega og fóru úr 23 mö.kr. á árinu 2019 í 54 milljarða á árinu 2020, sem er 136% aukning.
Tekjur ríkissjóðs lækkuðu um 4,6% á föstu verðlagi á milli áranna 2018 og 2019 og lækkuðu síðan um 9,6% í fyrra. Tekjur sveitarfélaganna hafa hins vegar aukist milli ára allt frá árinu 2013 og jukust um 2,5% í fyrra. Það hefur því verið mikill munur á tekjuþróun ríkissjóðs og sveitarfélaganna á síðustu árum.
Opinber fjárfesting dróst saman um 3,7% að raunvirði á árinu 2020. Þetta er annað árið í röð sem opinber fjárfesting minnkar, en samdrátturinn var 9,1% á árinu 2019. Opinber fjárfesting var einungis 3,7% af vergri landsframleiðslu í fyrra, en hún hefur að meðaltali verið um 3,9% af VLF frá árinu 2001. Þetta er mun lakari niðurstaða en bæði yfirlýsingar stjórnvalda og samþykktar heimildir hafa gefið kynna.
Aðgerðir stjórnvalda til að lágmarka neikvæð áhrif af kórónuveirufaraldrinum á stöðu efnahagsmála hafa augljóslega haft mikil áhrif á fjármál hins opinbera. T.d. jukust félagslegar tilfærslur til heimila um tæpan þriðjung á árinu 2020.
Hlutverk hins opinbera í hagstjórn og efnahagslífinu hefur þannig verið stórt á síðustu misserum og verður það áfram á næstu árum. Rekstrarstaða bæði ríkissjóðs og sveitarfélaganna er slæm og hefur hún einkum versnað hjá ríkissjóði sem hefur tekið á sig miklar byrðar.