Neysla landsmanna innanlands meiri í janúar í ár en í fyrra
Seðlabanki Íslands birti fyrr í vikunni gögn um veltu innlendra greiðslukorta í janúar. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 63 mö.kr. og jókst um 2,5% milli ára miðað við fast verðlag. Kortavelta Íslendinga erlendis nam alls 8,7 mö.kr. og dróst saman um 46% milli ára miðað við fast gengi. Samanlagt dróst kortavelta saman um 8% milli ára í janúar miðað við fast gengi og fast verðlag. Þetta er töluvert meiri samdráttur en mældist í desember þegar neyslan dróst einungis saman um 4% milli ára. Skýrist munurinn á minni aukningu í innlendri neyslu sem jókst um 5% milli ára í desember.
Áfram er staðan slík að samdrátturinn er alfarið vegna minni neyslu erlendis frá og ekki að sjá að samdráttur hafi orðið í neyslu Íslendinga innanlands í þriðju bylgju faraldursins líkt og var í þeirri fyrstu. Við sjáum vísbendingar um meiri hreyfingu á fólki og að lífið sé smám saman að komast í eðlilegra horf eftir því sem smitum fækkar. Gera má ráð fyrir að neysla þróist eftir því.
Útgjaldaliðir á borð við eldsneytiskaup og kaup á veitingaþjónustu dragast minna saman í janúar en á fyrri mánuðum sem er til marks um færri smit og slökun á samkomutakmörkum. Samdráttur mælist einungis 4% milli ára í janúar á veitingastöðum og hefur ekki verið minni síðan í september. Eldsneytiskaup voru óbreytt milli ára í janúar en frá því í ágúst hefur mælst samdráttur.
Athygli vekur að fatakaup jukust nokkuð í janúar milli ára, eða um 24% miðað við fast fataverð, en samkvæmt mælingum Hagstofunnar voru útsölurnar í janúar þær verstu síðan 2002. Landsmenn virðast þó ekki hafa látið það á sig fá og voru duglegir að kaupa sér ný föt. Færri utanlandsferðir gætu skýrt aukin fatakaup hér á landi sem hafa á síðustu mánuðum mælst nokkuð meiri en árið áður.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Neysla landsmanna innanlands meiri í janúar í ár en í fyrra