Lausum störfum hefur fjölgað verulega
Afleiðingar kórónufaraldursins hafa komið mest fram á vinnumarkaðnum, fyrst og fremst í stórauknu atvinnuleysi, en einnig í minni atvinnuþátttöku og styttri vinnutíma. Afleiðingar kreppunnar hafa komið mjög ójafnt niður á bæði atvinnugreinum, fyrirtækjum og launafólki.
Fjöldi starfa á vinnumarkaðnum er að sjálfsögðu mjög háður stöðu hagkerfisins hverju sinni. Sé litið á fjölda starfa á öllum vinnumarkaðnum á síðustu árum var fjöldi starfa mestur á 3. ársfjórðungi 2019, um 226 þúsund störf. Á fyrri hluta þessa árs voru störfin hins vegar um 183 þúsund, eða u.þ.b. 80% af því sem mest var.
Þróun fjölda starfa hefur verið mismunandi í einstökum atvinnugreinum á síðustu árum. Mikil fækkun starfa í opinberri stjórnsýslu 2019-2020 vekur athygli, en hún kemur til vegna breytinga á flokkun sumra opinberra fyrirtækja og fyrirtækja sem voru flutt úr opinberri þjónustu yfir í einkageirann.
Það kemur ekki á óvart að fækkun starfa á síðustu árum hefur verið mest í verslun og veitinga- og gististöðum (þarna er margar greinar flokkaðar saman) og í ferðaþjónustu. Störfum hefur einnig fjölgað í byggingarstarfsemi, en bæði fjármála- og vátryggingarstarfsemi og sjávarútvegur hafa verið nokkuð stöðug.
Lausum störfum á vinnumarkaðnum fækkaði nokkuð í lok ársins 2019 og staðan hefur verið tiltölulega óbreytt allt fram á þetta ár þegar þeim fjölgaði nokkuð á 1. ársfjórðungi og svo varð veruleg fjölgun á 2. ársfjórðungi í ár þegar um 7.600 störf voru í boði og hafði fjöldi þeirra tvöfaldast frá fyrri ársfjórðungi. Þróunin var mismunandi eftir greinum. Sé litið á þróunina á þessu ári sést að flest störf hafa orðið til í verslun, veitinga- og gististöðum og í ferðaþjónustu. Þá hefur lausum störfum fjölgað verulega í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og nokkur fjölgun hefur orðið í opinberri þjónustu.
Hlutfall lausra starfa af heildarfjölda starfa hefur aukist mikið á þessu ári. Á árinu 2019 voru laus störf upp undir 2% af fjölda starfa meginhluta ársins en síðan lækkaði hlutfallið á 4. ársfjórðungi og var nokkuð svipað allt fram á árið 2021. Á fyrsta ársfjórðungi fór hlutfallið upp í tæp 2% og svo upp í 4% á 2. ársfjórðungi samhliða því sem hagkerfið var að komast af stað. Ferðaþjónustan nýtur nokkurrar sérstöðu varðandi hlutfallslega fjölgun starfa, en á 2. ársfjórðungi var fjöldi lausra starfa um 12% af fjölda starfa í greininni. Á sama tíma voru laus störf í byggingarstarfsemi um 6% og þau voru um 5% í verslun, veitinga- og gististöðum.
Nokkuð hefur borið á fréttum um að erfitt hafi verið að manna störf eftir að hagkerfið tók við sér aftur og hafa þessar raddir einkum heyrst úr ferðaþjónustu. Þessi staða hefur verið uppi víðar á Vesturlöndum. Svo virðist sem staða launafólks hafi styrkst, t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum og að fyrirtæki hafi þurft að bjóða betur en áður til þess að fá fólk til baka í þau störf sem í boði eru. Tilboð í kringum ráðningar hafa einnig batnað mikið og t.d. hafa heyrst fregnir af því að tiltölulega margir Bandaríkjamenn hafi í hyggju að segja upp starfi sínu og leita á önnur mið þar sem kjör séu betri.