Launasumman hækkaði um 15,5% á milli ára
Frá meðaltali ársins 2015 fram til meðaltals fyrstu 10 mánaða 2022 hefur launasumman aukist um 69% að meðaltali á nafnvirði í öllum atvinnugreinum. Sé litið til valinna greina hefur launasumman aukist langmest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eða um tæp 140%. Þarnæst hefur launasumman aukist mest í ferðaþjónustu (u.þ.b. 85%), mjög sveiflukennt, og opinberri stjórnsýslu (u.þ.b. 80%), með mjög jafnri þróun.
Sjávarútvegur og fjármála- og vátryggingarstarfsemi hafa nokkra sérstöðu meðal þessara greina. Þar hefur launasumman aukist minnst.
Rétt er að ítreka að launasumma segir til um heildarlaunagreiðslur á Íslandi en ekki til um hvort laun einstaklinga hafi hækkað eða lækkað. Fjölgi starfandi fólki hækkar launasumman.
Fjöldi starfsfólks segir svipaða sögu
Starfsfólki fjölgaði alls um 16,5% milli meðaltals 2015 og fyrstu 10 mánaða 2022. Af völdum greinum fjölgaði langmest í byggingarstarfsemi. Þar náði fjöldinn hámarki árið 2019, nokkur fækkun varð svo fram til ársins 2021 en síðan hefur fjölgað stöðugt. Á viðmiðunartímabilinu fjölgaði starfsfólki í byggingarstarfsemi um u.þ.b. 66%. Næst mesta aukningin var í ferðaþjónustu og opinberri stjórnsýslu, í kringum 20%. Sveiflan í ferðaþjónustunni er mikil, bæði upp og niður, en fjölgunin í opinberri þjónustu er nokkuð stöðug.
Enn og aftur hafa sjávarútvegur og fjármála- og vátryggingarstarfsemi sérstöðu meðal þessara greina, en þar fækkaði starfsfólki stöðugt milli 2015 og 2022, um u.þ.b. 10% í báðum greinum.
Meðaltekjur hæstar í fiskveiðum og fiskeldi
Þegar búið er að fjalla um bæði launagreiðslur og fjölda starfsfólks þar að baki liggur beint við að skoða meðaltekjur í atvinnugreinum út frá tölum Hagstofunnar. Hér er um gróft meðaltekjuhugtak að ræða þar sem einungis er litið til fjölda einstaklinga sem greiðir staðgreiðslu af launum án tillits til vinnuframlags. Það hefur til dæmis áhrif á niðurstöður að hlutastörf eru misalgeng eftir greinum, og eins getur ólíkur vinnutími og vaktaálag skipt máli.
Meðaltekjur í öllum greinum voru samkvæmt þessum tölum 686 þús.kr. á mánuði á fyrstu 10 mánuðum ársins og höfðu hækkað úr 648 þús.kr. árið áður. Tekjur voru hæstar í fiskveiðum og fiskeldi, um 1.190 þús.kr. á mánuði, og næst hæstar í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, um 993 þús. kr.
Lægstu tekjurnar í landbúnaði
Lægstu tekjurnar á fyrstu 10 mánuðum ársins 2022 voru í landbúnaði, um 335 þús. kr. á mánuði, og næst lægstar í menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi og gistingu og veitingastarfsemi, í kringum 400 þús. kr. á mánuði. Í þessum greinum kann fjöldi hlutastarfa að skipta miklu máli.
Mesta hækkun milli ára í gistingu og veitingum
Á milli 2020 og 2022 (fyrstu 10 mánuðir) hækkuðu meðaltekjur langmest í gistingu og veitingastarfsemi, um rúm 37%. Næst mesta hækkun meðaltekna var hjá ferðaskrifstofum, um 32%. Gera má ráð fyrir að það skýrist af uppgangi þessara greina þegar faraldrinum linnti. Minnsta hækkun meðaltekna milli ára var í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, 7,4%, og í veitustarfsemi, 9,7%.
Ekki nákvæmur samanburður
Eins og áður segir er hér um tiltölulega grófar tölur að ræða og því hæpið að draga allt of miklar ályktanir á grundvelli þeirra. Tölurnar sýna þó mikilvægan hluta af heildarmyndinni. Hingað til hefur verið talið að litlar breytingar myndu verða í launaþróun á síðustu tveimur mánuðum ársins. Nú hafa hins vegar verið gerðir kjarasamningar með gildistíma frá 1. nóvember. Verði þeir samþykktir mun meðaltal ársins 2022 hækka eitthvað.