Halli á viðskiptajöfnuði á fyrsta ársfjórðungi
Á fyrsta ársfjórðungi mældist 27,1 ma.kr. halli af viðskiptum við útlönd. Niðurstaðan skiptist þannig að:
- Hallinn á vöruskiptajöfnuði var 21,9 ma.kr.
- Hallinn á þjónustujöfnuði var 10,9 ma.kr.
- Afgangurinn af frumþáttatekjum var 12,8 ma.kr.
- Hallinn á rekstrarframlögum var 7,1 ma.kr.
Þetta er 38,8 ma.kr. verri niðurstaða en á sama ársfjórðungi í fyrra. Munurinn skýrist fyrst og fremsta af því að tekjur af erlendum ferðmönnum drógust saman um 56,8 ma.kr. milli ára. Þetta kemur ekki á óvart í ljósi þess að erlendum ferðamönnum um Leifsstöð fækkaði um 96% milli ára, eða úr 334 þúsund í 12 þúsund.
Þetta er einnig 50,4 ma.kr. verri niðurstaða en á næsta fjórðungi á undan. Skýrist þessi munur milli fjórðunga að miklu leyti af því að tekjur vegna einkaréttar og annarra eignarrétta voru óvenju háar á 4. ársfjórðungi 2020, en þessi liður telst til útfluttrar þjónustu og því til hækkunar á þjónustujöfnuði. Þessi gjöld voru 37,0 ma.kr. á 4. ársfjórðungi 2020 en einungis 2,0 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2021.