Samantekt
Íbúðaverð hækkaði minna milli ára í fyrra samanborið við fyrri ár, ekki einungis á höfuðborgarsvæðinu, heldur einnig á þéttbýlissvæðum utan þess samkvæmt gögnum úr verðsjá Þjóðskrár Íslands. Mestu munaði á Akureyri þar sem íbúðaverð hækkaði um 3% milli ára í fyrra samanborið við 13% hækkun árið 2018. Í Reykjanesbæ hækkaði íbúðaverð um 8% í fyrra, sem er minnsta hækkun sem mælst hefur milli ára þar síðan 2015. Svipaða sögu er að segja um Árborg og Akranes þar sem hækkanir í fyrra voru þær minnstu síðan 2015. Í Árborg hækkaði íbúðaverð um 7% milli ára í fyrra og um 11% á Akranesi.
Þó hægt hafi á verðhækkunum á landinu öllu hefur þróunin tekið mismiklum breytingum eftir svæðum. Ef litið er til verðþróunar frá upphafi árs 2015 má sjá að hækkanir hafa víða verið meiri en á höfuðborgarsvæðinu. Verð hefur ríflega tvöfaldast í Árborg en á Akranesi og í Reykjanesbæ hafa hækkanir mælst yfir 80%. Til samanburðar hefur verð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 50% á síðustu 5 árum samkvæmt verðsjá Þjóðskrár. Íbúðamarkaður utan höfuðborgarsvæðisins virðast því enn vera í nokkuð miklum blóma þó að hægt hafi á hækkunum.
Síðustu ár hefur mikið selst af nýjum íbúðum í þéttbýliskjörnum utan höfuðborgarsvæðisins. Um 60% af allri íbúðasölu í fjölbýli í fyrra var vegna sölu á nýbyggingum í Árborg og hafði hlutfallið aukist úr 30% árið áður. Í Reykjanesbæ mældist hlutfall nýbygginga af sölu í fjölbýli 26% í fyrra og 21% á Akureyri. Til samanburðar var hlutfallið 17% á höfuðborgarsvæðinu.