Hagsjá: Frumvarp til fjáraukalaga – númer tvö á þessu ári
Samantekt
Líkt og í öðrum löndum er ríkissjóður Íslands kominn í aðalhlutverk í efnahags- og atvinnulífinu. Hér á landi var hlutfall samneyslu og opinberrar fjárfestingar 27,8% af landsframleiðslu í fyrra, samkvæmt fyrstu tölum Hagstofunnar, og hefur ekki verið hærra síðan á árunum 2008-10.
Frá aldamótum hefur þetta hlutfall að meðaltali verið 27,6%. Miðað við stöðuna í dag munu umsvif hins opinbera í efnahagslífinu aukast mikið og mögulega verða meiri en nokkurn tíma áður.
Það er stór spurning hvernig verður síðan undið ofan af verulegri íhlutun hins opinbera, fyrst og fremst ríkissjóðs, í efnahagslífinu. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að það eru auðvitað takmörk fyrir því hve stórt hlutverk ríkisfjármálin geti leikið til lengri tíma þannig að staðan sé sjálfbær. Auðvitað er staðan á fjármálamörkuðum þannig nú að ríkissjóðir hinna ýmsu landa geta tekið stórar upphæðir að láni á mjög hagstæðum kjörum og seðlabankar tekið virkan þátt í að auðvelda aukningu ríkisútgjalda.
Auðvitað kemur einhvern tíma að skuldadögum og áður en til þess kemur þarf að hefja brúun á gríðarlegu ósamræmi tekna og útgjalda ríkissjóða sem skapast á næstu mánuðum eða jafnvel misserum. Ríkissjóður Íslands hefur sem betur fer notað gott árferði á síðustu árum til þess að lækka skuldastöðu sína þannig að hann er þokkalega vel í stakk búinn til þess að leika stórt hlutverk í að milda höggið sem þjóðarbúið er að lenda í. Því til viðbótar hefur hlutur hins opinbera í landsframleiðslunni allra síðustu ár verið minni en oft áður.
Alþingi hefur nú þegar veitt greiðsluheimildir fyrir atvinnuleysisbótum samhliða skertu starfshlutfalli, og greiðslum vegna launataps einstaklinga sem sæta sóttkví. Þá hafa verið veittar heimildir til frestunar á skattgreiðslum og veitingu ábyrgða ríkisins á hluta lána til fyrirtækja í greiðsluvanda. Þá er einnig unnið að miklu fjárfestingarátaki og markaðsátaki í ferðaþjónustu.
Í síðustu viku var lagt til nýtt frumvarp til fjáraukalaga ásamt sérstökum frumvörpum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem snúa m.a. að skattamálum, stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki, ráðstöfunum sem varða fjárstuðning til rekstraraðila og sérstökum rekstrarstuðningi til einkarekinna fjölmiðla. Markmið þessara tillagna var sagt vera að gera fyrirtækjum og heimilum betur kleift að halda í horfinu þar til útbreiðsla veirusjúkdómsins hefur verið stöðvuð. Viðtökur við þessum tillögum voru blendnar og fannst mörgum sem mun meira þyrfti til.
Þriðjudaginn 28. apríl kynnti ríkisstjórnin svo fleiri aðgerðir sem ætlað er að mæta vanda þeirra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir nær algerum tekjubresti vegna kórónukreppunnar. Þar var um að ræða framlengingu hlutabótaleiðar, einföldun reglna um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og möguleika fyrirtækja til þess að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Þessar tillögur mæltust vel fyrir meðal talsmanna atvinnulífs og fyrirtækja. Enn á þó eftir að leggja fram frumvörp og nánari útfærslur á grundvelli þessara tillagna.
Sífellt fleiri vísbendingar eru um að samdrátturinn í efnahagslífinu verði dýpri og langvinnari en vonað var í fyrstu. Innlend eftirspurn hefur dregist hratt og mikið saman og tekjufallið í ferðaþjónustu verður mikið og langvinnt.
Fleiri fjáraukalagafrumvörp verða þannig lögð fram í ár og jafnvel fleiri en eitt. Augljóst er að Alþingi þarf samþykkja frekari fjárheimildir, t.d. verða útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs á árinu mun meiri en reiknað var með fyrir örfáum vikum.
Efni nýja frumvarpsins um fjáraukalög er tvíþætt. Í fyrsta lagi heimild til að leita samninga við Seðlabanka Íslands um að bankinn annist umsýslu vegna ábyrgða ríkissjóðs vegna lána til fyrirtækja. Í öðru lagi eru lagðar til auknar fjárheimildir sem nema rúmum 13,2 ma.kr. Þá hafa fjárheimildir hækkað um 39 ma.kr. frá því að fjárlög fyrir árið 2020 voru samþykkt í nóvember sl.
Í umræðunni um aðgerðir ríkisstjórnarinnar er oft bent á umfang aðgerða, t.d. var sagt að umfang fyrsta aðgerðapakkans væri um 230 ma.kr. og aðgerðapakka tvö um 60 ma.kr. Auknar samþykktar útgjaldaheimildir ríkissjóðs vegna núverandi aðstæðna nema hins vegar „aðeins“ 39 ma.kr. verði ný fjáraukalög í samræmi við frumvarpið. Þetta er um 3,9% aukning miðað við fjárlög. Miðað við þessar tölur yrði halli ársins um 50 ma.kr. sem er ekki nálægt þeim halla sem rætt er um að verði á ríkissjóði í ár. Í því sambandi hafa tölur á bilinu 250-300 ma.kr. verið nefndar.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Frumvarp til fjáraukalaga – númer tvö á þessu ári (PDF)