Samantekt
Líkt og kunnugt er hefur ferðamönnum fækkað verulega og samsetning þeirra tekið breytingum í takt við minna framboð flugsæta til landsins. Samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálastofu komu 163 þús. ferðamenn til landsins í gegnum Leifsstöð í október og voru þeir 18,4% færri en í október fyrir ári síðan.
Á þriðja ársfjórðungi komu 17% færri ferðamenn til landsins samanborið við sama tímabil í fyrra sem er ögn minni samdráttur en varð á öðrum ársfjórðungi, þegar 19% færri ferðamenn komu. Hagfræðideild spáði fyrr í haust alls tæplega 14% fækkun ferðamanna í ár sem er nokkurn veginn í takt við þróunina það sem af er ári og mesti samdrátturinn því að öllum líkindum yfirstaðinn. Á næsta ári spáum við svo 3% fjölgun erlendra ferðamanna.<(p>
Ef litið er til þróunar eftir þjóðerni sést að ferðamönnum frá Norður-Ameríku hefur fækkað áberandi mest, bæði hlutfallslega og í fjölda talið. Á þriðja ársfjórðungi komu 38% færri Bandaríkjamenn til landsins samanborið við sama tímabil í fyrra og 26% færri Kanadamenn.
Það er þó ekki að greina fækkun meðal allra þjóðerna. Ferðamönnum frá Kína hefur til að mynda fjölgað á öllum fjórðungum þessa árs samanborið við stöðuna fyrir ári síðan. Það sem af er ári hafa 81 þús. Kínverjar komið til landsins sem er 12% fjölgun frá því í fyrra. Rússum hefur einnig fjölgað mikið, bæði hlutfallslega og í fjölda talið. Það sem af er ári hafa 16 þús. Rússar komið til landsins sem er 18% fjölgun samanborið við fyrstu 10 mánuðina í fyrra.
Meðal fjölmennustu þjóðerna sem koma hingað til lands eyða Bandaríkjamenn mestu. Hver Bandaríkjamaður sem kom hingað til lands á fyrstu 9 mánuðum árs eyddi að meðaltali 155 þús. kr á meðan að dvöl hans stóð. Á eftir Bandaríkjamönnum eyddu Bretar mestu, tæplega 150 þús. kr., og Kínverjar eyddu minnst, tæplega 80 þús. kr. á mann.