Hækkandi íbúðaverð kyndir undir verðbólgu
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,8% á milli mánaða í mars, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst um 0,2 prósentustig frá því í febrúar og fer úr 6,6% í 6,8% í mars. Við spáðum 0,57% hækkun á vísitölunni og að ársverðbólgan yrði óbreytt milli mánaða. Það sem helst skýrir muninn á okkar spá og mælingu Hagstofunnar er mun meiri hækkun á reiknaðri húsaleigu en við gerðum ráð fyrir. Sé hún tekin út fyrir sviga var mælingin í takti við okkar spá. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis stóð í stað milli mánaða í 4,7%.
Húsnæðisverð leiðir hækkun vísitölunnar
Sem fyrr segir var það hækkandi húsnæðisverð, það er að segja hækkandi reiknuð húsaleiga, sem leiddi hækkun vísitölunnar í mars. Á móti vó verðlækkun á nýjum bílum um 0,9% á milli mánaða í mars. Eins og við héldum gengu janúarútsölur að langmestu leyti til baka strax í febrúar, en verðið hækkaði þó enn minna í mars en við höfðum gert ráð fyrir.
Helstu liðir vísitölunnar:
- Reiknuð húsaleiga hækkaði töluvert umfram okkar spá, eða um 2,1% í mars (+0,4% áhrif á vísitöluna). Við höfðum spáð 0,9% hækkun.
- Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 9,9% (+0,15% áhrif á vísitöluna) en við höfðum spáð 8% hækkun. Verðið hækkaði meira í marsmánuði í ár en oft áður, enda eru páskarnir í mars í ár, með tilheyrandi eftirspurn eftir flugferðum.
- Föt og skór hækkuðu um 2,1% (+0,08% áhrif á vísitöluna) í mars, en við spáðum 3% hækkun.
- Matarkarfan hækkaði um 0,4% (+0,06% áhrif á vísitöluna), örlítið meira en við höfðum spáð, eða 0,3%.
- Kaup ökutækja lækkuðu um 0,9% (-0,06% áhrif á vísitöluna), en við spáðum örlítilli hækkun um 0,2%.
Íbúðaverð hækkar umfram spár
Reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,1% (+0,4% áhrif á vísitöluna) á milli mánaða í mars sem er nokkuð meiri hækkun en síðustu mánuði. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis á landinu öllu hækkaði um 1,6%, töluvert umfram spá okkar um 0,4% hækkun. Áhrif vaxta voru 0,5 prósentustig til hækkunar, sem er í samræmi við okkar spá. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,6% en verð á sérbýli hækkaði um 1,2%. Íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði mest, um 3,8% á milli mánaða. Hækkandi húsnæðisverð utan höfuðborgarsvæðisins er í takt við umfjöllun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá því í síðustu viku. Samkvæmt þeirra nýju vísitölu hækkaði verð á fjölbýli í nágrenni höfuðborgarsvæðisins um 6,4% í febrúar. HMS rekur verðhækkunina til eftirspurnarþrýstings vegna íbúðakaup Grindvíkinga.
Samhliða birtingu marsvísitölunnar birti Hagstofan greinargerð um nýja aðferð við mælingu á reiknaðri húsaleigu. Aðferðin byggir á svokölluðum húsaleiguígildum og verður tekin í notkun í júní. Aðferðin verður því fyrst notuð við mælingu á vísitölu neysluverðs sem verður birt 27. júní.
Gerum áfram ráð fyrir að ársverðbólga lækki næstu mánuði
Við spáum því nú að vísitala neysluverðs hækki um 0,61% í apríl, 0,40% í maí og 0,55% í júní. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 6,1% bæði í apríl og maí. Hún hjaðnar svo í 5,8% í júní. Spáin er aðeins hærri en sú sem við birtum í verðkönnunarvikunni. Munurinn skýrist fyrst og fremst af því að verðbólgan jókst meira í mars en við gerðum ráð fyrir, en auk þess gerum við nú ráð fyrir meiri hækkun á íbúðaverði en í fyrri spá. Í júní gerum við aftur á móti ráð fyrir minni hækkun á íbúðaverði en mánuðina á undan þar sem við gerum ráð fyrir því að ný aðferðafræði Hagstofunnar haldi aftur af sveiflum í húsnæðisliðnum. Hafa ber þó í huga að engin reynsla er komin á nýju aðferðafræðina og spá júnímánaðar því háð meiri óvissu en oft áður.