Fjárfesting hins opinbera á réttri leið – en ýmislegt mætti betur fara
Nýjar tölur um fjármál hins opinbera sýna að opinberar fjárfestingar jukust um 22,2% að nafnvirði milli ára á fyrsta ársfjórðungi og eru því á réttri leið miðað við markmið. Fjárfesting ríkissjóðs jókst um 25,8% á milli ára og fjárfesting sveitarfélaganna um 19,2%.
Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir 2020 drógust opinberar fjárfestingar saman um 9,3% eftir 10,8% samdrátt árið áður. Eins og hefur verið fjallað um í Hagsjám skýtur þessi samdráttur skökku við, t.d. vegna sérstaks fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar sem sett var af stað 2020.
Í ár er spáð mikilli aukningu á fjárfestingum hins opinbera, m.a. vegna tafa við að koma verkefnum af stað. Þannig spáir Hagstofan 17,7% aukningu, Seðlabankinn 32% aukningu og Hagfræðideild Landsbankans 25% aukningu. Spár allra þriggja gera svo ráð fyrir að það hægi á ný á fjárfestingum hins opinbera milli 2021 og 2022.
Samdráttur var í fjárfestingum sveitarfélaga í fyrra en áætlanir fyrir árið 2021 benda til þess að um verulega aukningu verði að ræða. Alls er um að ræða fjárfestingar A-hluta sveitarfélaganna upp á tæpa 60 ma.kr., sem er aukning um 24% frá fjárhagsáætlunum 2020.
Ýmislegt í sambandi við opinbera fjárfestingu er flókið hvað umfjöllun varðar. T.d. er munur á því hvað telst opinber fjárfesting samkvæmt reikningsskilastöðlum annars vegar og hagskýrslustöðlum (GFS) hins vegar. Þannig var viðhald innviða hluti boðaðs fjárfestingarátaks í núgildandi áætlun en viðhald af því tagi telst að stærstu leyti vera samneysla samkvæmt hagrænu uppgjöri.
Í tengslum við fjárfestingarátakið skapaðist breið sátt um að verja umtalsverðum fjármunum í innviðauppbyggingu. Ljóst er að innviðaauðlindir mynda nauðsynlegan grunn fyrir ýmiss konar framleiðslu og þjónustu, bæði hjá hinu opinbera og einkaaðilum. Fjárfesting í innviðum er þar með mikilvægt hagsmunamál allra landsmanna.
Undanfarin ár hafa fjárveitingar til fjárfestinga ríkissjóðs verið mun meiri en raunfjárfestingar ársins. Þannig hafa ónýttar fjárheimildir til fjárfestinga verið 25–30% af samþykktum framlögum síðustu ár. Umræðan byggir gjarnan á framlögum þannig að tafir og vannýting framlaga flækja málin og draga úr áhrifum fjárfestingar sem hagstjórnarviðbragðs.
Umbætur hafa verið boðaðar í þessum efnum. Nú fer fram vinna við lagafrumvarp um fjárfestingar sem mun fela í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um skipan opinberra framkvæmda. Þar yrði kveðið á um sérstaka framkvæmda- og fjárfestingaráætlun í tengslum við fjármálaáætlanir. Það ætti aftur að geta skapað meiri festu í þessum málum í framtíðinni.
Lesa hagsjána í heild
Hagsjá: Fjárfesting hins opinbera á réttri leið – en ýmislegt mætti betur fara