Óvænt hækkun á verði fjölbýlis
Samkvæmt nýbirtum tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 0,6% milli september og október. Annan mánuðinn í röð kemur mælingin okkur á óvart þar sem almennt hefur hægt á íbúðamarkaði og spár gera nú ráð fyrir afar hófstilltri verðþróun. Við höfum gengið út frá því í okkar spám að íbúðaverð standi nánast í stað á næstu mánuðum.
Sé litið til þróunar eftir tegundum húsnæðis sést að verð á sérbýli lækkar nú um 0,7% eftir mikla hækkun mánuðinn áður (4,8%). Mikið flökt er á mælingum á sérbýli milli mánaða þar sem færri samningar eru undir og því varasamt að lesa mikið í þá þróun. Það kemur meira á óvart að sjá fjölbýli hækka um 0,9 % milli mánaða en á síðustu mánuðum hefur smám saman dregið úr hækkunum á fjölbýli þar til lækkun mældist milli mánaða í september. Hækkun nú kemur verulega á óvart og er ekki ólíklegt að þessi þróun gangi til baka á næstu mánuðum.
Árstakturinn lækkar
Við höfum ítrekað fjallað um þá skoðun okkar að komið sé að þolmörkum á íbúðamarkaði og að nú megi búast við hófstilltari hækkunum. Aðstæður hafa breyst verulega á síðustu mánuðum með hærri vöxtum og þrengri lánþegaskilyrðum. Það gerir fólki erfiðara fyrir að kaupa íbúðir, sem leiðir til þess að eftirspurn dregst saman og verðþróun verður hófstilltari. Þessi skoðun okkar er óbreytt þrátt fyrir nýjustu tölur um hækkanir. Við sjáum að 12 mánaða takturinn hefur nú lækkað nokkra mánuði í röð, mælist 21,5% en var 25,5% þegar mest lét í júlí. Við gerum ráð fyrir því að þessi stærð haldi áfram að lækka.
Dregur úr íbúðasölu
Á fyrstu 9 mánuðum árs hafa að jafnaði um 530 kaupsamningar verið undirritaðir í hverjum mánuði á höfuðborgarsvæðinu sem er mikil breyting frá því sem var í fyrra, þegar um 750 kaupsamningar voru undirritaðir mánaðarlega. Á fyrri hluta árs fylgdi þróunin nokkuð því sem var á árunum 2019 og 2020 en svo fór salan að minnka miðað við þau ár. Uppsafnað yfir árið hafa nú 4.755 kaupsamningar verið undirritaðir sem er svipaður fjöldi og hafði verið undirritaður í júní í fyrra.
Það hefur því hægt verulega á íbúðasölu, sérstaklega á seinni hluta árs. Seðlabankinn herti lánþegaskilyrði í júní og þá fækkaði kaupsamningum úr 616 í júní niður í 488 í júlí. Nýjustu gögn eiga við septembermánuð þegar 500 kaupsamningar voru undirritaðir samkvæmt núverandi stöðu í gagnagrunni Þjóðskrár.