Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands er áætlað að um 207.700 manns hafi verið á vinnumarkaði í desember 2020, sem jafngildir 79,3% atvinnuþátttöku. Af fólki á vinnumarkaði voru um 196.200 starfandi og um 11.400 atvinnulausir og í atvinnuleit. Starfandi fólki fækkaði um 4.500 milli ára og atvinnulausum fjölgaði um 4.700. Hlutfall starfandi var 74,9% í desember og hafði minnkað um 2,9 prósentustig frá desember 2019.
Í apríl 2020 var atvinnuþátttaka 75,8% og hafði ekki verið lægri a.m.k. frá árinu 2003, þegar vinnumarkaðskönnunin hófst. Atvinnuþátttaka mældist meiri í maí og júní en hefur síðan minnkað og mældist 79,3% nú í desember, sem er 0,5 prósentustigum lægra en í desember 2019.
Atvinnuleysi samkvæmt mælingum Hagstofunnar var 5,5% í desember og hafði aukist um 2,3 prósentustig frá desember 2019. Almennt skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 10,7% og hafði aukist um 6,4 prósentustig frá desember 2020. Því til viðbótar var atvinnuleysi vegna hlutabóta 1,4% í desember. Ítarlega hefur verið fjallað um mun á mælingum Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar í Hagsjám á árinu.
Meðalatvinnuleysi á árinu 2020 var 5,5% samkvæmt mælingum Hagstofunnar og hafði aukist um 1,9 prósentustig frá árinu 2019. Skráð atvinnuleysi var hins vegar 7,9% að meðaltali á árinu 2020 og hafði aukist um 4,3 prósentustig frá fyrra ári. Bæði Hagstofan og Vinnumálastofnun mældu 3,6% meðalatvinnuleysi á árinu 2019, en síðan hafa leiðir skilist verulega hvað mælingar varðar.
Fjölda starfandi á 4. ársfjórðungi 2020 hafði fækkað um 5,6% frá sama ársfjórðungi 2019. Á sama tímabili styttist vinnutími um 2,5% þannig að heildarvinnustundum fækkaði um 8,1% milli ára sem er mesta fækkun á einum ársfjórðungi frá því að vinnustundum tók að fækka í upphafi 2020.
Sé litið á breytingar milli meðaltala ára má sjá að heildarvinnustundum fækkaði um 5,2% milli áranna 2019 og 2020, eftir að hafa aukist nær stöðugt í mörg ár þar á undan. Breytingin á þessu ári faraldursins er því verulega mikil í sögulegu samhengi.
Niðurstöður vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar eru áfram dökkar. Kórónuveirufaraldurinn hefur augljóslega haft mikil áhrif á íslenskan vinnumarkað þannig að þessar niðurstöður koma ekki á óvart. Áhrif faraldursins á hagkerfi og samfélag birtast mjög skýrt í þessum tölum af vinnumarkaði.