Batamerki á vinnumarkaði
Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands er áætlað að um 210.600 manns hafi verið á vinnumarkaði í maí 2021, sem jafngildir 80% atvinnuþátttöku. Af fólki á vinnumarkaði voru um 192.900 starfandi og um 17.600 atvinnulausir og í atvinnuleit, eða um 8,4% af vinnuaflinu. Starfandi fólki fjölgaði um 10.500 milli ára og atvinnulausum fækkaði um 6.400. Hlutfall starfandi var 73,3% í apríl og hafði hækkað um 3,5 prósentustig frá maí 2020.
Í apríl í fyrra fór atvinnuþátttaka niður í 73,4% og hafði ekki verið lægri a.m.k. frá árinu 2003, þegar vinnumarkaðskönnunin hófst. Atvinnuþátttaka hefur sveiflast nokkuð síðan, í samræmi við stöðu sóttvarna á hverjum tíma, og mældist nú 80% sem er einu prósentustigi hærra en á sama tíma í fyrra. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal var atvinnuþátttaka mest um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í 82%. Samsvarandi tala nú er 77,9% og hefur atvinnuþátttaka aukist nokkuð síðustu mánuði.
Atvinnuleysi, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, var 8,4% í maí sem er 3,2 prósentustigum hærra en á sama tíma í fyrra, en þá var mæling Hagstofunnar á atvinnuleysi óvenju há. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 9,1% í maí og hafði aukist um 5,1 prósentustig milli ára. Því til viðbótar var atvinnuleysi vegna hlutabóta mælt sem 0,9% í maí og samanlagt atvinnuleysi því 10%.
Starfandi fólki í maí fjölgaði um 5,8% miðað við fyrra ár. Á sama tímabili var vinnutími óbreyttur þannig að heildarvinnustundum fjölgaði um 5,8% milli ára. Heildarvinnustundum fjölgaði einnig nokkuð milli ára í apríl, en annars hafði verið um fækkun vinnuaflsstunda að ræða í næstum hverjum mánuði allt frá upphafi ársins 2020.
Nú er liðið rúmt ár frá því að faraldurinn sló höggi á vinnumarkaðinn hér á landi. Það á sérstaklega við um atvinnuleysið, sem náði nýjum, áður óséðum hæðum. Segja má að atvinnuleysið hafi verið meginásýnd þessarar kreppu. Aðrar stærðir, eins og fjöldi og hlutfall starfandi, atvinnuþátttaka og vinnuaflsnotkun, færðust einnig í neikvæða átt á þessum tíma.
Bjartsýni hefur aukist mikið í atvinnulífinu að undanförnu. Þannig tók vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, sitt hæsta stökk frá upphafi mælinga nú í júní.