Atvinnuleysi náð lágmarki?
Skráð atvinnuleysi minnkaði um 0,3 prósentustig í september og mældist 2,8%, samkvæmt nýjum tölum Vinnumálastofnunar. Atvinnulausum fækkaði um 600 frá því í ágúst og voru að meðaltali 5.409 í september. Alls höfðu 2.279 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok mánaðarins og í hópi þeirra fækkaði um 116 frá því í ágúst. Þeir eru næstum helmingi færri en í septemberlok árið 2019 þegar hópurinn taldi 4.598.
Atvinnuleysi er ennþá mest á Suðurnesjum þar sem það mældist 4,8% í september og næst mest á höfuðborgarsvæðinu, 3,2%. Atvinnuleysi er hvergi minna en á Norðurlandi vestra þar sem það mældist 0,7% í september.
Þó nokkuð fleiri karlar eru atvinnulausir en konur, 3.042 karlar samanborið við 2.596 konur. Atvinnulausum körlum fækkaði um 237 frá ágústlokum og atvinnulausum konum fækkaði um 243. Alls voru 402 atvinnuleitendur á aldrinum 18-24 ára án atvinnu í lok september.
Hversu lengi getur atvinnuleysi haldið áfram að minnka?
Þótt atvinnuleysi sé á hraðri niðurleið hefur það nokkrum sinnum mælst þó nokkuð lægra í september en nú. Í september 2017 var skráð atvinnuleysi 1,8%, í september 2007 var það aðeins 0,8% og í sama mánuði árið 2001 var það 1%.
Erfitt er að segja til um hversu lengi atvinnuleysið heldur áfram að dragast saman. Vinnumálastofnun spáir því að það breytist ekki mikið í október en gæti aukist lítillega, og mögulega er atvinnuleysi komið eins langt niður og það kemst. Það er óumflýjanlegt að einhver hluti vinnuaflsins sé atvinnulaus á hverjum tíma, jafnvel þótt atvinnustigið sé í hámarki. Þetta skýrist af því sem er kallað náttúrulegt atvinnuleysi eða jafnvægisatvinnuleysi, því atvinnuleysi sem er til staðar í vaxandi hagkerfi sem er í jafnvægi. Fólk þarf svigrúm til þess að skipta um vinnu og finna vinnu sem því hentar, auk þess sem eðlilegt er að fólk sé atvinnulaust í einhvern tíma eftir að það lýkur námi eða flytur búferlum, svo dæmi séu nefnd.
Jafnvægisatvinnuleysið er ekki föst stærð. Það sveiflast með mældu atvinnuleysi, en ekki jafn mikið, og það kann að skýrast af því að hluti þeirra sem missa vinnuna þegar heildareftirspurn í hagkerfinu dregst saman festist í atvinnuleysi. Við það hækkar jafnvægisatvinnuleysið.
Í kynningu varaseðlabankastjóra peningastefnu frá því í júní á þessu ári kemur fram að atvinnuleysið sé nú talið vera komið undir jafnvægisatvinnuleysi, sem er skýr vísbending um spennu á vinnumarkaði. Spennan skapar þrýsting á laun, enda þurfa atvinnurekendur við þessar aðstæður að jafnaði að keppa um starfsfólk, sbr. stöðuna í ferðaþjónustu, í stað þess að starfsfólk keppi um störf. Jafnvægisatvinnuleysi er einmitt á meðal þeirra stærða sem Seðlabankinn hefur notað til að meta framleiðsluspennu eða framleiðsluslaka í hagkerfinu.
Önnur leið til að meta spennu á vinnumarkaði er að skoða mat stjórnenda fyrirtækja á vinnuaflsþörf. Stjórnendur um 54% fyrirtækja telja vanta starfsfólk, samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir Seðlabankann. Þetta hlutfall er mjög nálægt sögulegu hámarki og því skýr vísbending um þá spennu sem er á vinnumarkaðnum. Til samanburðar var hlutfallið í kringum 6% um mitt ár 2020. Vöntunin virðist mest í byggingarstarfsemi, verslun og greinum tengdum samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu.
Atvinnuleysi nokkuð lágt í samanburði við Norðurlöndin
Ef horft er á Norðurlöndin stendur Ísland nokkuð vel, en atvinnuleysið er næst lægst hér á eftir Noregi. Atvinnuleysi jókst hraðast hér á landi þegar faraldurinn skall á, ekki síst vegna þess hversu stór hluti vinnuaflsins starfaði í greinum tengdum ferðaþjónustu, en á móti virðist það líka vera á einna hraðastri niðurleið hér á landi, samhliða uppgangi sömu greina. Atvinnulífið er fjölbreyttara á hinum Norðurlöndunum og sveiflurnar því ekki jafn ýktar og hér á landi.