Ár­s­verð­bólg­an aft­ur kom­in upp í 9,9% – verð á bíl­um hækk­aði mik­ið

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% milli mánaða í janúar samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan jókst úr 9,6% í 9,9%. Hún er því komin aftur upp í sama gildi og hún var í í júlí í fyrra, en það var hæsta gildið í núverandi verðbólgukúf. Verðbólgan var mun meiri en við áttum von á, sem skýrist að miklu leyti af miklum verðhækkunum á nýjum bílum. Það sem veldur mestum áhyggjum í tölunum frá því í morgun er að þeim undirliðum fjölgar áfram sem hækka í verði umfram verðbólgumarkmið.
Bananar
30. janúar 2023

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% milli mánaða í janúar samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun. Ársverðbólgan jókst úr 9,6% í 9,9%. Hún er því komin aftur upp í þær hæðir sem hún náði í júlí í fyrra, en það var hæsta gildið í núverandi verðbólgukúf.

Mest áhrif til hækkunar milli mánaða hafði verð á nýjum bílum (+9,8% milli mánaða, +0,52% áhrif), matur og drykkjarvörur (+2,0% milli mánaða, +0,30% áhrif) og rafmagn og hiti (+5,5% milli mánaða, 0,17% áhrif). Mest áhrif til lækkunar höfðu föt og skór (-8,4% milli mánaða, -0,29% áhrif), húsgögn, heimilisbúnaður og fleira (-5,5% milli mánaða, -0,35% áhrif) og flugfargjöld til útlanda (-9,4% milli mánaða, -0,20% áhrif).

Verðbólgan var mun meiri en við áttum von á. Við höfðum spáð 0,31% hækkun í verðkönnunarvikunni (9,4% ársverðbólgu), en lækkuðum spána í 0,25% (9,3% ársverðbólga) í síðustu viku eftir að HMS birti vísitölu íbúðaverðs, enda var sú mæling mun lægri en við áttum von á. Langmestu munar um verð á nýjum bílum sem hækkaði mun meira en við bjuggumst við.

Miklar hækkanir á verði á nýjum bílum

Verð á nýjum bílum hækkaði um 9,8% milli mánaða, en við áttum von á 3,2% hækkun. Um áramót hækkuðu vörugjöld ökutækja og samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins mátti búast við að útsöluverð nýrra bíla myndi hækka um allt að 5% vegna þeirra. Hækkunin er þó mun meiri en það og skýrist væntanlega að hluta til af veikara gengi. Einnig má benda á að það kann að vera auðveldara að hækka verð þegar það þarf hvort eð er að hækka vegna skattbreytinga. Árshækkun nýrra bíla mælist nú 13,9%.

Matarkarfan hækkaði enn einu sinni meira en við áttum von á.

Matarkarfan hækkaði um 2,0% á milli mánaða, en við áttum von á að hún myndi hækka um 1,3%. Þetta er fjórði mánuðurinn í röð sem matarkarfan hækkar meira en við áttum von á. Mestu munar um að mjólk, ostur og egg hækkuðu um 4,4%, en verðlagsnefnd búvara tilkynnti um hækkun á verði mjólkur til bænda í janúar. Auk þess hækkaði grænmeti, kartöflur o.fl. um 4,4% og gosdrykkir, safar og vatn um 2,3%.

Gjaldskrárhækkanir hafa áhrif á húsnæðiskostnað

Alls hækkaði húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs um 1,24% milli mánaða og var framlag hans til hækkunar vísitölunnar í heild 0,37%. Stærsti liðurinn í húsnæðiskostnaði er áætlað endurgjald fyrir búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) sem samanstendur af markaðsverði húsnæðis á landinu öllu ásamt framlagi vaxtabreytinga. Alls hækkaði reiknuð húsaleiga um 0,44% milli mánaða (0,09% áhrif á VNV) sem er aðeins meiri hækkun en við áttum von á. Markaðsverð húsnæðis lækkaði um 0,2% sem er svipað og við höfðum gert ráð fyrir. Hins vegar var framlag vaxtabreytinga 0,64 prósentur til hækkunar á þessum lið sem er mun meira en við bjuggumst við. Þá komu ýmsar gjaldskrárhækkanir til framkvæmda núna um áramót. Meðal annars hækkaði rafmagn um 4,6% og hiti um 6,0%. Heildaráhrif þessara gjaldskrárhækkana voru 0,17 prósentur til hækkunar á VNV sem er svipað og við gerðum ráð fyrir.

Janúarútsölurnar nálgast það sem var fyrir faraldur

Á tímum faraldursins voru bæði júlí- og janúarútsölurnar nokkuð slakar. Líkleg skýring var aukin verslun Íslendinga innanlands á meðan utanlandsferðir voru varla í boði. Við áttum von á að útsölurnar núna yrðu nær því sem var fyrir faraldurinn, enda ferðalög Íslendinga til útlanda komin í samt lag og vel það. Og sú varð raunin. Við spáðum því að föt og skór myndu lækka um 9% milli mánaða og húsgögn, heimilisbúnaður og fl. myndu lækka um 4,9%, og að heildaráhrif útsala yrði 0,63 prósentur til lækkunar. Raunin varð að föt og skór lækkuðu um 8,4% og húsgögn heimilisbúnaður og fl. lækkuðu um 5,5%. Heildaráhrif útsala var 0,64 prósentur til lækkunar. Við gerum sem fyrr ráð fyrir því að þessi lækkun gangi að vanda til baka á næstu mánuðum.

Einn af hverjum fjórum undirliðum hefur hækkað um meira en 10%

Eins og fram hefur komið mældist 9,9% ársverðbólga í janúar, sem er sama gildi og þegar verðbólgan náði síðast hámarki í júlí í fyrra. Þótt heildarverðbólgan sé sú sama, hefur orðið breyting á samsetningu hennar. Núna er framlag innfluttra vara (án bensíns) og innlendra vara stærra, en framlag bensíns, húsnæðis og þjónustu minna.

Það sem við erum helst uggandi yfir er að þeim undirliðum fjölgar enn sem hækka í verði langt umfram verðbólgumarkmið (2,5%). Af 169 undirliðum hafa 69% þeirra hækkað um meira en 5%, þar af 27% um meira en 10%. Til samanburðar var staðan sú í júlí í fyrra, þegar einnig mældist 9,9% verðbólga, að 44% undirliða höfðu hækkað um meira en 5%, þar af 17% um meira en 10%. Þetta þýðir að í stað þess að fáir undirliðir hafi mikil áhrif (bensín, reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda)er verðbólgan að verða mun almennari og því mun erfiðari viðureignar.

Aðeins hærri verðbólga í spilunum

Þrátt fyrir að talan í morgun hafi verið mun hærri en við áttum von á breytum við verðbólguspá okkar til næstu þriggja mánaða aðeins lítillega. Það sem kom mest á óvart var mikil hækkun á verði á nýjum bílum um áramót, en við teljum ólíklegt að bílar hækki mikið í verði á næstu mánuðum. Við spáum að vísitalan hækki um 0,47% milli mánaða í febrúar, 0,35% í mars og 0,60% í apríl.

Gangi spá okkar um breytingu milli mánaða eftir mun verðbólgan mælast 9,5% í febrúar, 8,8% í mars og 8,2% í apríl. Þetta er 0,6 prósentustigi hærra en síðasta spá sem við birtum fyrr í mánuðinum. Hækkunin skýrist eingöngu af því að janúarmælingin var hærri en við áttum von á. Verðbólga var töluverð í febrúar, mars og apríl í fyrra og því mun ársverðbólgan lækka við það að þessir mánuðir detti út úr mælingunni, þrátt fyrir að vísitalan hækki nokkuð næstu þrjá mánuði.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
20. jan. 2025
Vikubyrjun 20. janúar 2025
Kortaveltutölur sem komu í síðustu viku voru nokkuð sterkar og sýndu að kortavelta heimilanna jókst nokkuð á milli ára í desember. Það voru tvö uppgjör í síðustu viku, Hagar og Ölgerðin, en fjárhagsár þessa tveggja félaga er, ólíkt öðrum félögum í kauphöllin, ekki hið sama og almanaksárið. Í vikunni fram undan fáum við vísitölur íbúðaverðs og leiguverðs frá HMS.
20. jan. 2025
Kortavelta landsmanna í sókn allt síðasta ár
Kortavelta landsmanna var alls 4,2% meiri á síðasta ári en árið 2023 og jókst milli ára alla mánuði ársins, miðað við fast verðlag og gengi. Telja má líklegt að Seðlabankinn fylgist vel með neyslustiginu í vaxtalækkunarferlinu og reyni að koma í veg fyrir að uppsafnaðar innistæður hrúgist út í neyslu. Neysla ferðamanna hér á landi mældist aðeins 1% meiri í fyrra en árið áður sé miðað við fast verðlag.
Pund, Dalur og Evra
17. jan. 2025
Krónan styrktist á síðasta ári
Krónan styrktist á móti evru en veiktist aðeins á móti Bandaríkjadal á árinu 2024. Árið var nokkuð rólegt á millibankamarkaði með gjaldeyri þar sem velta dróst saman og minna var um flökt.
Ský
13. jan. 2025
Vikubyrjun 13. janúar 2025
Atvinnuleysi var að meðaltali 3,5% árið 2024, líkt og við spáðum í október. Komur erlendra ferðamanna til Íslands á árinu voru lítillega fleiri en við bjuggumst við, eða tæplega 2,3 milljónir, og desembermánuður var sá fjölmennasti frá upphafi. Í síðustu viku gáfum við út verðbólguspá og gerum ráð fyrir að verðbólga hjaðni úr 4,8% í 4,6% í janúar.
Fataverslun
9. jan. 2025
Spáum 4,6% verðbólgu í janúar
Við spáum því að vísitala neysluverðs lækki um 0,32% á milli mánaða í janúar og að verðbólga hjaðni úr 4,8% í 4,6%. Við búumst við áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,7% í apríl.
6. jan. 2025
Vikubyrjun 6. janúar 2025
Í vikunni birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í desember og birtar verða tölur um atvinnuleysi í Bandaríkjunum. Einnig fara fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir mælinguna fimmtudaginn 30. janúar.
2. jan. 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 2. janúar 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Flugvöllur, Leifsstöð
19. des. 2024
Verðbólga stendur í stað á milli mánaða
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,39% á milli mánaða í desember, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga stendur því í stað í 4,8%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði og verði komin niður í 3,9% í mars.
Símagreiðsla
17. des. 2024
Kröftug kortavelta í aðdraganda jóla 
Kortavelta landsmanna færist enn í aukana þrátt fyrir hátt vaxtastig. Innlán heimila hafa vaxið og yfirdráttur ekki aukist. Erlendir ferðamenn hér á landi eyða líka þó nokkuð fleiri krónum en á sama tíma í fyrra. 
Greiðsla
16. des. 2024
Munu lægri vextir leiða til meiri neyslu?
Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferlið í október með 25 punkta lækkun og fylgdi því eftir með 50 punkta lækkun í nóvember. Þetta gerði bankinn rétt fyrir mestu neyslutíð ársins, með öllum sínum tilboðsdögum og jólainnkaupum.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur