Aftur lækkanir á hlutabréfamörkuðum í ágúst
Yfir helmingur félaganna hækkaði í verði í ágúst
Vísitala aðallista Kauphallarinnar lækkaði um 2,4% í ágúst. Það gerðist þrátt fyrir að 11 félög af 22, eða helmingur félaganna, hafi hækkað í verði. 10 félög hækkuðu í verði en eitt stóð í stað, en það var Kvika banki. Lækkunin á markaðnum í heild skýrist að miklu leyti af því að Marel, sem er stærsta félagið í Kauphöllinni að markaðsvirði, lækkaði um 17,2% í ágúst. Marel var einmitt það félag sem lækkaði mest yfir mánuðinn. Eik fasteignafélag lækkaði næstmest (-13,5%) og þriðja mesta lækkunin var hjá Iceland Seafood (-9,1%). Mesta hækkunin var á bréfum Síldarvinnslunnar sem hækkuðu um 18,4% en þar á eftir komu Origo (14,1%) og Eimskip (8,2%). Marel er það félag á aðallistanum sem hefur lækkað mest á síðustu 12 mánuðum, eða um 47,6% en þar á eftir kemur Iceland Seafood með 47% lækkun. Í þriðja sætinu kemur svo Kvika banki með 15,1% lækkun. Sýn hefur hækkað mest (54,8%) en þar á eftir koma Skel fjárfestingarfélag (39,8%) og Eimskip (38%).
Hlutabréfaverð í heiminum heldur áfram að gefa eftir
Hlutabréfamarkaðir í helstu viðskiptalöndum Íslands lækkuðu um að meðaltali 3,5% í ágúst. Mikil óvissa ríkir nú í heimshagkerfinu varðandi verðbólgu sem hefur ekki verið meiri í nokkra áratugi. Óvissan snýr bæði að því hversu mikið seðlabankar muni þurfa að hækka vexti til að draga úr eftirspurn, hver verðbólgan verður og hvaða áhrif þetta samspil mun hafa á eftirspurn í heiminum og hagvaxtarþróun.
Árlega heimsráðstefna seðlabankastjóri fór fram í Jackson Hole í lok ágúst. Þar sló Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, töluvert harðari tón en hann hafði gert síðustu mánuði á undan. Hann tók af allan vafa um að bandaríski seðlabankinn myndi taka hart á verðbólgunni, vextir yrðu hækkaðir eins og þyrfti til að koma verðbólgunni aftur niður í 2% verðbólgumarkmið bankans. Hann benti á að þessar vaxtahækkanir gætu komið verulega niður á bandarískum heimilum en að þau myndu finna meira fyrir því ef ekki yrði tekið hart á verðbólgunni. Þessi ræða hafði mikil áhrif á markaðinn í Bandaríkjunum og smituðust áhrifin til annarra hlutabréfamarkaða. Eftir ræðu Powell lækkaði hlutabréfaverð í Bandaríkjunum verulega á stuttum tíma. Verðið á S&P 500 vísitölunni lækkaði um 5,8% frá 25. ágúst til mánaðarloka. Það er mikil lækkun á svo stuttum tíma. Hlutabréf höfðu hækkað um 1,7% frá byrjun mánaðarins og fram að þessari ræðu Powells. Þessi lækkun í Bandaríkjunum smitaðist síðan yfir á aðra markaði.
Mesta lækkunin í ágúst var í Danmörku og Svíþjóð
Mesta lækkunin í viðskiptalöndunum var á hlutabréfamörkuðum í Danmörku og Svíþjóð, eða yfir 7% í báðum tilfellum. Íslenski markaðurinn lækkaði um 2,4%. Tveir markaðir héldu sjó og náðu að hækka í mánuðinum. Norski markaðurinn hækkaði um 0,8% og sá japanski um 1,2%. Þetta eru einmitt þeir einu tveir markaðir stærstu viðskiptalanda sem eru með jákvæða ávöxtun á síðustu 12 mánuðum. Norski markaðurinn hefur skilað 16,9% ávöxtun á síðustu 12 mánuðum en sá japanski hefur skilað rétt yfir núllinu, eða 0,1% ávöxtun. Mestu lækkanirnar hafa verið í Þýskalandi (-27,8%), Svíþjóð (-22,9%) og Finnlandi (-19%).