Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur staðfest breytingar á réttindatöflum og samþykktum Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands sem samþykktar voru á stjórnarfundi sjóðsins þann 23 nóvember 2022. Nýjar samþykktir tóku gildi 1. janúar 2023.
Breytingar á réttindatöflum eru til komnar vegna nýrra dánar- og eftirlifendataflna sem gefnar voru út af fjármála- og efnahagsráðherra í lok árs 2021. Töflurnar byggja á tillögum Félags Íslenskra tryggingarstærðfræðinga. Grundvallar breyting frá fyrra reiknigrundvelli er að lífslíkur eru nú taldar mismunandi eftir fæðingarári. Undanfarna áratugi hefur orðið lækkun á aldursbundinni dánartíðni og er í hinum nýja reiknigrunni gert ráð fyrir framhaldi á þeirri þróun. Þetta leiðir til þess að gert er ráð fyrir að meðalævi lengist með hækkandi fæðingarári. Breytingarnar fela í sér að upp verða teknar nýjar réttindatöflur sem taka mið af aldri og fæðingarári sjóðfélaga sbr. það sem áður sagði um tengsl meðalævilengdar og fæðingarárs. Þar sem gert er ráð fyrir að sjóðurinn muni greiða lífeyri lengur til þeirra sem yngri eru fer réttindaöflun lækkandi með hækkun fæðingarárs.
Helstu breytingar á samþykktum sjóðsins lúta að því að samsetning iðgjalds sem greitt er í skyldulífeyrissparnað breytist þar sem hlutur samtryggingar í öllum útgreiðsluleiðum hækkar. Þannig fer hlutur samtryggingar úr 7,99% í 9,22% í Leið I, úr 5,83% í 7,31 í Leið II, úr 4,27% í 5,53% í Leið III og úr 3,27% í 4,18% í Leið IV.
Tryggingafræðileg staða sjóðsins eftir breytingar á iðgjaldi og réttindatöflum verður sú að áfallin staða (miðað við árslok 2021) verður jákvæð um 88,3 m.kr. eða sem nemur 4,4%. Þá verður framtíðarstaða jákvæð um 9,3 m.kr. eða sem nemur 0,6%. Heildarstaða sjóðsins eftir breytingar verður jákvæð um 97,6 m.kr. eða sem nemur 2,7%.