Stjórnarháttayfirlýsing
Góðir stjórnarhættir Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands leggja grunninn að traustum samskiptum sjóðfélaga, stjórnarmanna og stjórnenda sjóðsins og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun við rekstur sjóðsins. Stjórn Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands leggur áherslu á að viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti sé fylgt og að stjórnarhættir sjóðsins á hverjum tíma séu í samræmi við þær leiðbeiningar.
Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands
Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands er almennur lífeyrissjóður sem starfar skv. lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands er með rekstrarsamning við Landsbankann hf. sem sér um daglegan rekstur sjóðsins.
Stjórnarhættir
Stjórnarháttayfirlýsing þessi er í samræmi við 51. gr. reglna um ársreikninga lífeyrissjóða nr. 335/2015. Stjórn Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Yfirlýsing um stjórnarhætti er birt á vef lífeyrissjóðsins. Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands fylgir leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar voru út 1. júlí 2021 (6. útg.) af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins.
Frávik frá leiðbeiningum um stjórnarhætti
Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands uppfyllir ákvæði leiðbeininganna. Sjóðurinn víkur að hluta til frá leiðbeiningunum um stjórnarhætti fyrirtækja og á það við ákvæði sem eiga ekki við um lífeyrissjóði. Má þar helst nefna atriði sem varða hluthafafundi og hluthafa, starfskjarastefnu, starfskjaranefnd og tilnefningarnefnd. Lífeyrissjóðurinn hefur tekið saman yfirlit um atriði í leiðbeiningunum sem fylgt er að hluta eða eiga ekki við. Yfirlitið er aðgengilegt á heimasíðu sjóðsins.
Aðrar reglur og viðmið sem einnig er farið eftir og eiga sérstaklega við um starfsemi lífeyrissjóða
Um starfsemi Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands gilda lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, reglugerðir, reglur og tilmæli FME og Seðlabankans og ýmis önnur lagaákvæði um lífeyrissjóði. Samkvæmt 29. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, ber stjórn lífeyrissjóðsins ábyrgð á að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við lög, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir sjóðsins. Stjórn lífeyrissjóðs skal einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri, bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins. Stjórnin setur sér starfsreglur. Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á að stjórnarhættir og innra skipulag sjóðsins stuðli að skilvirkri og varfærinni stjórn hans. Stjórn sjóðsins skal árlega endurmeta stjórnarhætti sína með tilliti til viðurkenndra leiðbeininga um stjórnarhætti og bregðast við með viðeigandi hætti ef þörf er á.
Áhættustjórnun og innra eftirlit
Stjórn Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands ber ábyrgð á því að fyrir hendi sé virk áhættustjórnun og innra eftirlitskerfi. Lögð er áhersla á að greina helstu áhættuþætti sem steðja að rekstri sjóðsins og að innleiddar séu fyrirbyggjandi eftirlitsaðgerðir til að draga úr áhættu. Tilgangur innra eftirlits er að stuðla að því að sjóðurinn nái markmiðum sínum varðandi rekstur, ávöxtun, áhættuvilja og áreiðanlegar fjárhagsupplýsingar og hlíti lögum og reglum. Það er stefna sjóðsins að taka aðeins áhættu sem hann skilur, getur metið og mætt.
Árangursrík áhættustjórnun er lykilþáttur í rekstri sjóðsins. Í áhættustjórnun felst greining, mat og stýring á áhættuþáttum í rekstri sjóðsins og að sjóðurinn hafi skilvirkt skipulag til að mæta áhættu og/eða miðla upplýsingum um áhættu til grundvallar upplýstri ákvarðanatöku. Lögð er áhersla á að við rekstur sjóðsins sé viðhöfð fagleg áhættustjórnun.
Áhættustjórnun og innra eftirlit er samofið daglegri starfsemi sjóðsins. Stjórnendur sjóðsins bera ábyrgð á eftirliti og stjórnun á áhættum sem steðja að sjóðnum og eignum hans. Öflug eftirfylgni með ákvörðunum og vöktun áhættu er hluti innra eftirlits.
Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands fer eftir áhættustefnu og áhættustýringarstefnu. Í áhættustýringarstefnunni eru settar fram verklagsreglur um það hvernig mæla skuli helstu áhættuþætti sem snerta rekstur sjóðsins; lífeyristryggingaráhættu, markaðsáhættu, eigna- og skuldbindingajöfnuð, rekstraráhættu, stjórnarhætti, mótaðilaáhættu, lausafjáráhættu, samþjöppunaráhættu, aðra áhættuþætti, álagspróf séreignardeildar og vikmarkaeftirlit. Áhættustýringarstefnan gerir ráð fyrir að fylgst sé með breytingum á áhættu sjóðsins með reglubundnum hætti.
Áhættustýring sjóðsins er í höndum ábyrgðaraðila áhættustýringar.
Persónuvernd
Í júní 2018 voru samþykkt ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Þau lög eru byggð á nýrri tilskipun ESB um persónuvernd, GDPR. Í samræmi við efni laganna hefur lífeyrissjóðurinn skipað sjóðnum persónuverndarfulltrúa.
Samfélagsleg ábyrgð og siðferðisviðmið
Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands hefur það markmið að varðveita og ávaxta iðgjöld sjóðfélaga sinna með ábyrgum hætti. Við ákvörðun fjárfestinga er lagt til grundvallar að sjóðurinn er langtímafjárfestir og allir fjárfestingarkostir metnir sem slíkir. Ábyrgur rekstur, góðir stjórnarhættir, sjálfbærni, samfélagsleg ábyrgð og eftirfylgni við lög og reglur er að mati Íslenska lífeyrissjóðsins grundvöllur árangurs og framfara. Við mat fjárfestingarkosta er litið til framangreindra þátta og þeir lagðir til grundvallar fjárfestingarákvarðana auk hefðbundinna arðsemissjónarmiða. Stefna Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands um ábyrgar fjárfestingar, auk starfs- og siðareglna, marka siðferðileg viðmið sjóðsins í fjárfestingum. Stefnan og reglurnar eru aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins.
Á árinu tók gildi ný lög nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Með lögunum voru innleiddar tvær reglugerðir Evrópusambandsins, annars vegar reglugerð (ESB) 2019/2088 (SFDR) og hins vegar reglugerð (ESB) 2020/852 (Taxonomy). Lögunum er ætlað að auka upplýsingagjöf til fjárfesta um sjálfbærar fjármálaafurðir og sporna gegn grænþvotti. Aukið aðgengi og samræmd upplýsingagjöf er til þess fallið að hvetja til fjárfestinga sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Lögin skylda aðila á fjármálamarkaði, þ.m.t. lífeyrissjóði að veita upplýsingar um hvernig tekið er tillit til sjálfbærniáhættu við fjárfestingarákvarðanir auk upplýsinga um þau neikvæðu áhrif á sjálfbærni sem fjármálaafurð kann að fela í sér. Verið er að innleiða lögin og upplýsingagjöf á grundvelli þeirra í starfsemi sjóðsins.
Stjórn Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands
Stjórn skal sjá um að skipulag sjóðsins og starfsemi séu jafnan í góðu horfi og í samræmi við lög og reglur sem gilda um sjóðinn. Hlutverk stjórnar er skilgreint í samþykktum og starfsreglum stjórnar. Auk þess hefur stjórn sjóðsins lögbundnu hlutverki að gegna. Starfs- og siðareglur Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands eru aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins. Þá hefur stjórnin sett verklagsreglur um viðskipti stjórnarmanna og starfsmanna Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands með fjármálagerninga. Reglurnar hafa verið staðfestar af Fjármálaeftirlitinu. Stjórn sjóðsins hélt 9 formlega stjórnarfundi á árinu 2023.
Í stjórn Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands eru fimm stjórnarmenn. Allir stjórnarmenn eru kosnir á ársfundi til þriggja ára í senn.
Í stjórn sjóðsins eru:
Sigurgísli Ingimarsson, formaður
Gísli Vilhjálmsson, varaformaður
Heiðdís Halldórsdóttir
Margrét Helgadóttir
Sæmundur Pálsson
Mæting aðalmanna á stjórnarfundi ársins 2023
Á árinu 2023 voru haldnir 9 fundir. Mæting: Sigurgísli Ingimarsson, formaður, 9 fundir, Gísli Vilhjálmsson, varaformaður, 9 fundir, Heiðdís Halldórsdóttir, 9 fundir, Margrét Helgadóttir, 7 fundir og Sæmundur Pálsson, 9 fundir.
Sjálfsmat stjórnar
Stjórn sjóðsins framkvæmir reglulega sjálfsmat á þekkingu og reynslu stjórnarmanna. Tilgangur matsins er að kortleggja þekkingu, kunnáttu og reynslu hvers stjórnarmanns með hliðsjón af helstu hliðum rekstrar lífeyrissjóðsins og meta þannig styrkleika og veikleika stjórnarinnar í heild. Stjórn sjóðsins býr yfir góðri þekkingu á málefnum lífeyrissjóðsins og lífeyrismálum almennt. Stjórnarmenn eru virkir á stjórnarfundum og upplýsingagjöf og skipulag stjórnarfunda er í góðu horfi.
Óhæði stjórnarmanna
Stjórnarmenn eru óháðir rekstraraðila sjóðsins, Landsbankanum hf.
Endurskoðunarnefnd
Stjórn lífeyrissjóðsins skipar 3 nefndarmenn í endurskoðunarnefnd. Hlutverk endurskoðunarnefndar er m.a. að sinna eftirliti með endurskoðun ársreiknings sjóðsins og eftirliti með vinnuferlum við gerð reikningsskila. Engar breytingar urðu á skipun nefndarmanna á árinu 2023. Endurskoðunarnefnd er skipuð einum stjórnarmanni og tveimur utanaðkomandi nefndarmönnum.
Nefndarmenn í endurskoðunarnefnd Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands á árinu 2023 voru Jón Gunnsteinn Hjálmarsson, löggiltur endurskoðandi, formaður, Gísli Vilhjálmsson og Þórólfur Ólafsson. Stjórn hefur sett nefndinni starfsreglur þar sem kemur m.a. fram markmið, heimildir, skipulag, fundarstörf, hlutverk og ábyrgð. Starfsreglur endurskoðunarnefndar eru aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins.
Framkvæmdastjóri
Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem sjóðstjórn hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá sjóðstjórn. Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands er Ólafur Páll Gunnarsson.
Ólafur Páll Gunnarsson, f. 1968, er Cand. Jur. frá Háskóla Íslands 1996 og LLM frá University of London, Queen Mary 2006. Ólafur Páll hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Var lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu frá 2000 til 2006, lögfræðingur í Landsbanka Íslands hf., síðar Landsbankanum hf. frá 2008 til 2013. Framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands frá 2013.
Ábyrgðaraðili áhættustýringar
Ábyrgðaraðili áhættustýringar er Pétur Pétursson. Pétur útskrifaðist sem viðskiptafræðingur (B.Sc.) frá Háskólanum í Reykjavík 2007. Þá hefur Pétur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Pétur hóf störf í Landsbanka Íslands hf. árið 2005, síðar Landsbankanum, fyrst í útibúi á árunum 2005 til 2007, í Verðbréfa- og lífeyrisráðgjöf á árunum 2007 til 2011, sem fjárfestingarstjóri lífeyrissjóða í rekstri Landsbankans frá 2011 til 2020 og sem starfsmaður Viðskiptalausna hjá Eignastýringu og miðlun frá árinu 2020.
Persónuverndarfulltrúi
Pétur Pétursson var persónuverndarfulltrúi sjóðsins á árinu 2023.
Endurskoðandi
Endurskoðandi sjóðsins árið 2023 var Rýni endurskoðun.
Innri endurskoðandi
Innri endurskoðandi sjóðsins er innri endurskoðun Landsbankans hf.
Stjórnarháttayfirlýsing þessi var samþykkt á stjórnarfundi Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands 24. apríl 2024.