Hrein raunávöxtun samtryggingardeildar var 10,4%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar samtryggingardeildar sl. fimm ár var 5,8% og 4,9% sl. tíu ár. Hrein raunávöxtun Líf I, sem er stærsta séreignardeild sjóðsins, var 12,5% á árinu 2019. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar í Líf I sl. fimm ár var 5,9% og 5,8% sl. tíu ár.
Vöxtur sjóðsins hefur verið mikill á liðnum árum en hrein eign til greiðslu lífeyris nemur nú um 100 milljörðum króna. Frá árinu 2015 hefur sjóðurinn tvöfaldast að stærð sem má bæði þakka fjölgun sjóðfélaga og góðri ávöxtun. Íslenski lífeyrissjóðurinn er með rekstrarsamning við Landsbankann sem sér um daglegan rekstur sjóðsins.
Íslenski lífeyrissjóðurinn hefur ákveðið að fella niður kostnað við flutning á séreignarsparnaði til annarra vörsluaðila. Íslenski lífeyrissjóðurinn verður þar með fyrstur stóru séreignarsjóðanna til að fella þennan kostnað niður. Hingað til hefur gjald vegna flutnings numið 0,5% af upphæðinni.
Ólafur Páll Gunnarsson, framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins, segir: „Með því að fella niður gjald vegna kostnaðar er viðskiptavinum gert auðveldara að færa séreignarsparnað á milli vörsluaðila. Að okkar mati er eðlilegt að neytendur ávaxti séreignarsparnað sinn hjá þeim sjóði sem þeir treysta best, án þess að þurfa að reikna með kostnaði við flutning á milli sjóða. Um leið stuðlar þessi ákvörðun að aukinni samkeppni. Með niðurfellingu kostnaðar verður inneign í séreignarsparnaði sambærileg innstæðu á bankareikningi að þessu leyti. Það er mikilvægt fyrir neytendur að gjaldtaka sé einföld og gegnsæ.“