Nokkrar breytingar voru gerðar á lögum um lífeyrissjóði og öðrum tengdum lagabálkum s.l. vor. Helstu breytingar lúta að hækkun lágmarksiðgjalds í lífeyrissjóð úr 12% í 15,5%, lögfestingu á svokallaðri tilgreindri séreign, breytingum á úrræði um fyrstu kaup og skerðingum á greiðslum frá Tryggingastofnun (TR). Breytingarnar taka gildi 1. janúar 2023.
Lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð hækkar úr 12% af launum í 15,5%
Lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð hækkar úr 12% í 15,5%. Flestir almennir launþegar hafa til þessa notið hærra iðgjalds (15,5%) samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Breytingin nær því fyrst og fremst til sjálfstæðra atvinnurekenda og annarra sem taka ekki laun samkvæmt kjarasamningum.
Skipting iðgjalds hjá þeim sem greiða skylduiðgjald til Íslenska lífeyrissjóðsins breytist ekki að öðru leyti en því að hækkunin rennur öll til frjálsrar séreignar. Iðgjaldshluti samtryggingar og bundinnar séreignar verður óbreyttur í öllum greiðsluleiðum.
Tilgreind séreign
Með lagabreytingunni verður Tilgreind séreign lögfest en lífeyrissjóðum hefur á undanförnum árum verið heimilt eru ráðstafa allt að 3,5% af launum til svokallaðar tilgreindrar séreignar. Hjá Íslenska lífeyrissjóðnum rennur Tilgreind séreign sjálfkrafa í Frjálsa séreign og er því ekki tilgreind sérstaklega á yfirliti.
Skerðingar TR
Eftir lagabreytingarnar verður séreign sem stafar af lágmarksiðgjaldi (nú 15,5% en áður 12%) ekki lengur undanþegin skerðingum almannatrygginga. Frá næstu áramótum mun því öll séreign sem hefur myndast af lágmarksiðgjaldi í lífeyrissjóð skerða greiðslur TR. Breytingin tekur gildi frá og með 1. janúar 2023. Engar skerðingar verða hjá þeim hópi sem eru þegar eru komnir á lífeyri frá TR eða hefja töku lífeyris frá TR fyrir næstu áramót.
Viðbótarlífeyrissparnaður skerðir ekki
Úttekt viðbótarlífeyrissparnaðar (eða séreignalífeyrissparnaðar, þar sem hlutur sjóðfélaga er allt að 4% og hlutur launagreiðanda 2%) mun ekki hafa áhrif á greiðslur frá TR.
Séreign inn á lán
Þeir sem ekki hafa verið eigendur að íbúðarhúsnæði síðastliðin fimm ár geta talist fyrstu kaupendur og nýtt úrræði laganna til að greiða skattfrjáls inn á lán. Einstaklingar sem greiða í Tilgreinda séreign (TS) geta eftir lagabreytinguna ráðstafað iðgjaldinu skattfrjálst til kaupa á fyrstu fasteign að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar um lífeyrisparnað er að finna á vef Landsbankans og hjá Verðbréfa- og lífeyrisþjónustu Landsbankans í síma 410 40 40 eða í netfanginu vl@landsbankinn.is.









