Hrein eign til greiðslu lífeyris var 61,2 milljarðar króna í lok árs 2016 og hafði vaxið um 6,1 milljarð króna frá fyrra ári en það samsvarar 11% vexti á árinu. Frá árinu 2008 hefur hrein eign til greiðslu lífeyris hækkað um 34,2 milljarða króna eða um 127%.
Mikil fjölgun virkra sjóðfélaga
Virkum sjóðfélögum, þ.e. einstaklingum sem að jafnaði greiða iðgjöld til sjóðsins á mánuði, fjölgaði verulega eða um 20% á árinu 2016. Í árslok 2016 voru virkir sjóðfélagar 11.781 talsins samanborið við 9.818 í árslok 2015.
Lífeyrisgreiðslur og greiðslur inn á lán
Lífeyrisgreiðslur á árinu 2016 námu 670 milljónum króna samanborið við 711 milljónir króna árið 2015. Á árinu 2016 fengu 3.019 sjóðfélagar greiddan viðbótarlífeyrissparnað inn á lán, samtals að fjárhæð 1,2 milljarða króna.
Vöxtur í iðgjöldum
Iðgjöld sjóðfélaga á árinu 2016 námu 6,2 milljörðum króna samanborið við 5,1 milljarð á árinu 2015 sem er 21,5% hækkun á milli ára.
Tryggingafræðileg staða í jafnvægi
Tryggingafræðileg staða samtryggingadeildar er í jafnvægi en í lok árs 2016 voru heildareignir deildarinnar 0,1% hærri en heildarskuldbindingar. Í lok árs 2015 voru eignir 3% hærri en skuldbindingar. Breytinguna má m.a. rekja til nýrra taflna um lífslíkur.
Sjálfstæður lífeyrissjóður
Íslenski lífeyrissjóðurinn er sjálfstæður lífeyrissjóður sem starfar skv. lögum um lífeyrissjóði og er undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Fjórir af fimm stjórnarmönnum eru kosnir af sjóðfélögum. Sjóðurinn er með rekstrarsamning við Landsbankann sem sér um daglegan rekstur sjóðsins. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Ólafur Páll Gunnarsson og sjóðsstjóri er Pétur Pétursson.
Ársfundur sjóðsins verður haldinn föstudaginn 28. apríl kl. 17.00 í aðalútibúi Landsbankans Austurstræti 11.