Mjög góð afkoma hjá Íslenska lífeyrissjóðnum
Hrein eign til greiðslu lífeyris var 54,8 milljarðar kr., í lok árs 2015 og hafði vaxið um 9,6 milljarða kr. frá fyrra ári en það samsvarar 21,2% vexti á árinu. Frá árinu 2008 hefur hrein eign til greiðslu lífeyris hækkað um 27,9 milljarða kr. eða um 103%.
Yfir 30 þúsund sjóðfélagar
Í lok árs 2015 voru sjóðfélagar yfir 30 þúsund talsins. Virkum greiðendum til sjóðsins fjölgaði um 8% á árinu.
Yfir 10 milljarðar í sérstaka útgreiðslu
Lífeyrisgreiðslur á árinu 2015 námu 711 milljónum kr. samanborið við 1,7 milljarða kr. árið 2014. Frá árinu 2009 hefur sjóðurinn greitt sjóðfélögum sínum 10,6 milljarða vegna sérstakrar útgreiðslu lífeyris sem var tímabundið úrræði stjórnvalda og gilti frá árinu 2009 til 2015. Á árinu 2015 fengu 2.656 sjóðfélagar greiddan séreignarsparnað inn á lán, samtals að fjárhæð kr. 823 milljónir króna.
32,4% hækkun iðgjalda
Iðgjöld sjóðfélaga á árinu 2015 námu 5,1 milljarði króna samanborið við 3,4 milljarða á árinu 2014 sem er 32,4% hækkun á milli ára.
Sterk tryggingafræðileg staða
Tryggingafræðileg staða samtryggingadeildar batnaði á árinu en heildareignir deildarinnar voru 3% hærri en heildarskuldbindingar í árslok 2015. Í lok árs 2014 voru skuldbindingar 0,5% hærri en eignir. Breytinguna má rekja til góðrar ávöxtunar samtryggingadeildar sjóðsins á árinu.
Sjálfstæður lífeyrissjóður
Íslenski lífeyrissjóðurinn er sjálfstæður lífeyrissjóður sem starfar skv. lögum um lífeyrissjóði og er undir eftirliti Fjármálaeftirlitisins. Fjórir af fimm stjórnarmönnum er kosnir af sjóðfélögum. Sjóðurinn er með rekstrarsamning við Landsbankann sem sér um daglegan rekstur sjóðsins. Ársfundur sjóðsins verður haldinn fimmtudaginn 28. apríl kl. 17.00 í aðalútibúi Landsbankans Austurstræti 11.