Fyrsta alþjóðlega loftslagsmælinum fyrir banka hleypt af stokkunum
Loftslagsmælirinn gerir bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum kleift að mæla og greina frá losun gróðurhúsalofttegunda frá lána- og fjárfestingarstarfsemi sinni. Hann markar ákveðin þáttaskil í sjálfbærnivinnu fjármálafyrirtækja því samræmdan staðal og viðmið hefur hingað til skort til að mæla þessi óbeinu umhverfisáhrif þeirra.
Landsbankinn hefur undanfarið ár, einn íslenskra banka, tekið þátt í þróun loftslagsmælisins með 15 öðrum fjármálafyrirtækjum víðsvegar að úr heiminum. Má þar nefna Morgan Stanley, Bank of America og Amalgamated Bank í Bandaríkjunum og hollensku bankana ABN AMR, Robeco og FMO, auk ýmissa hagsmunaaðila. Nú þegar eru 86 fjármálafyrirtæki aðilar að verkefninu.
Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum segir: „Útgáfa PCAF loftslagsmælisins gerir fjármálafyrirtækjum kleift að mæla kolefnislosun eignasafns síns á vísindalegan og samræmdan hátt. Landsbankinn vill þekkja raunverulega losun lána- og eignasafns síns og getur núna hafið vinnu við þær mælingar af krafti. Þegar niðurstöður liggja fyrir verða þær birtar reglulega svo að fjárfestar og aðrir haghafar bankans sjái hver raunveruleg losun safnsins er og hvernig hún þróast. Þetta munu verða lykilupplýsingar í samanburði fjármálafyrirtækja í náinni framtíð.“