Umræðuvefur Landsbankans einnig á ensku – „The Forum“
Nú birtist Umræðan, efnis- og fréttaveita Landsbankans, einnig á ensku. Við viljum leggja okkar af mörkum til að fræða alla landsmenn um fjármál, efnahagsmál, netöryggi og annað sem er efst á baugi hverju sinni.
Landsbankinn hefur lengi unnið að því að tryggja sem breiðustum hópi aðgang að fjármálaþjónustu. Þannig eru bæði heimasíða bankans og Landsbankaappið hönnuð með aðgengi sjónskertra í huga. Heimasíðan okkar er á tveimur tungumálum, auk þess sem við birtum fréttir og tilkynningar iðulega líka á pólsku. Við göngum enn lengra í netbankanum og appinu en þar er allt notandaviðmótið á þremur tungumálum – íslensku, ensku og pólsku.
Landsbankinn er íslenskur banki og íslenska er og verður okkar fyrsta mál. Við höfum lagt áherslu á að taka í notkun og þróa íslensk nýyrði þegar við kynnum nýja þjónustu eða viðfangsefni, t.d. í tengslum við netöryggi og fjártækni og svo í sjálfbærni málum. Við leggjum líka áherslu á að birta fjölbreytt og aðgengilegt fræðsluefni til að einfalda fólki lífið. Með því að bjóða upp á fræðsluefni á ensku viljum við auka enn þjónustuna.